Mig langar til þess að forvitnast um allt er tengist íslenska þjóðsöngnum. Getið þið komið því á framfæri t.d. undir leitarorðunum, þjóðsöngur og íslenski þjóðsöngurinn?Þjóðsöngur er kvæði með lagi, flutt við hátíðleg tækifæri sem eins konar tákn um þjóðarvitund. Þjóðsöngvar urðu almennir á 19. öld, þegar þjóðernishyggja var víða ríkjandi hugmyndafræði. Kvæði eru sjaldnast ort beinlínis sem þjóðsöngvar, heldur öðlast þau þann sess smám saman, meðal annars vegna yrkisefnisins og vinsælda. Að lokum hlýtur þjóðsöngur opinbera viðurkenningu fullvalda ríkis. Veturinn 1873-74 orti Matthías Jochumsson (1835-1920) sálm, sem síðar varð þjóðsöngur Íslendinga. Sálmurinn eða kvæðið er þrjú erindi, það fyrsta var ort í Edinborg í Skotlandi en seinni tvö í Lundúnum. Tónskáldið Sveinbjörn Sveinbjörnsson (1847-1926), sem lengi bjó í Edinborg, samdi lagið við kvæði Matthíasar. Haustið 1873 bjó Matthías hjá Sveinbirni í London Street nr. 15. Þar orti hann fyrsta erindið og sýndi Sveinbirni. Lagið varð þó ekki til fyrr en um vorið 1874.

Fyrsta erindi kvæðisins „Lofsöngur í minningu Íslands þúsund ára“, sem síðar varð þjóðsöngur Íslendinga, var ort í London Street nr. 15 í Edinborg í Skotlandi. Þar bjó tónskáldið Sveinbjörn Sveinbjörnsson sem samdi lagið. Hann var vinur og fyrrum skólafélagi Matthíasar Jochumssonar. Menntamálaráðuneytið lét koma fyrir minningarskildi um tilurð kvæðisins á húsinu árið 1974.
Kvæðið er þannig byggt, að fyrri erindin tvö fjalla um hin liðnu þúsund ár, en þriðja og síðasta erindið höfðar til framtíðarinnar. [...] Fyrri erindin eru lof til drottins og þakklæti fátækrar þjóðar fyrir þúsund ára líf, en hið síðasta ákall og bæn til guðs um leiðsögn hans og forustu á komandi tímum.[1]Á þessum tíma var litið á Matthías sem þjóðskáld, en það hugtak er haft um skáld sem njóta bæði almannnahylli og viðurkenningar þeirra sem mark er tekið á í umfjöllun um bókmenntir.

Við fullveldistökuna árið 1918 var kvæði Matthíasar í fyrsta sinn flutt sem eiginlegur þjóðsöngur Íslands.
- ^ Njörður P. Njarðvík. 1962. „Þjóðhátíðarljóð Matthíasar Jochumssonar“. Skírnir 136 (1): 145. https://timarit.is/page/6525526. (Sótt 31.08.2021).
- Birgir Thorlacius. [1991]. „Ágrip af sögu þjóðsöngsins“. Stjórnarráð Íslands. https://www.stjornarradid.is/verkefni/stjornskipan-og-thjodartakn/thjodartakn/thjodsongur-islendinga/agrip-af-sogu-thjodsongsins/. (Sótt 31.08.2021).
- „Lofsöngur“. [Án ártals]. Bragi, óðfræðivefur. http://bragi.arnastofnun.is/ljod.php?ID=3979. (Sótt 31.08.2021).
- Lög um þjóðsöng Íslendinga 7/1983. 1983. Lagasafn. https://www.althingi.is/lagas/151b/1983007.html. (Sótt 31.08.2021).
- Njörður P. Njarðvík. 1962. „Þjóðhátíðarljóð Matthíasar Jochumssonar“. Skírnir 136 (1): 145-174. https://timarit.is/page/6525526. (Sótt 31.08.2021).
- Steingrímur J. Þorsteinsson. [1957]. „Þjóðsöngur Íslendinga“. Stjórnarráð Íslands. https://www.stjornarradid.is/verkefni/stjornskipan-og-thjodartakn/thjodartakn/thjodsongur-islendinga/. (Sótt 31.08.2021).
- File:Plaque to Matthias Jochumsson, 15 London Street, Edinburgh.jpg - Wikipedia. (Sótt 30.08.2021).
- Vísindavefurinn: Af hverju heldur Alþingi hátíðarfund á Þingvöllum 18. júlí í sumar?. (Sótt 31.08.2021).