Steintegundinn kléberg, er til einhver skýring eða hvernig steintegund er það?Í grein sinni „Kléberg á Íslandi“ (1951) segir Kristján Eldjárn að orðið kléberg sé ekki lifandi í íslensku og komi ekki heldur fyrir í fornritum. Ekkert sérstakt heiti hafi þessi steintegund í tungunni annað en tálgusteinn, en það sé jöfnum höndum notað um ýmsar tegundir [erlendra sem] innlendra mjúkra steina. Nytjasteinn sá sem Kristján kallar kléberg í greininni nefnist á norsku klebersten og á ensku soapstone. Bergið er saman sett einkum úr blöndu af talki og klóríti í mismunandi hlutföllum og myndast við myndbreytingu í rótum fellingafjalla – þess vegna finnst það víða í Noregi og á Grænlandi en ekki á Íslandi. Hin mikla dómkirkja í Þrándheimi (Niðarósi), sem byggð var á 230 árum frá 1070–1300, er sögð vera gerð úr klébergi, nánar sagt úr talksteini og grænskífu. Talksteinninn er ummyndað perodótít (möttulefni) en grænskífan ummyndað basalt/gabbró.
- Kristján Eldjárn 1951, „Kléberg á Íslandi.“ Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1949–50, bls. 41–62.
- Mynd: Die Nidaros Kathedrale in Trondheim. 02.jpg - Wikimedia Commons. Höfundur myndar: Holger Uwe Schmitt. Birt undir CC BY-SA 4.0 leyfi. (Sótt 18.3.2022).