Við landnám uxu að öllum líkindum ekki viðartegundir hér sem hægt var að nota til að smíða víkingaskip. Endingartími þeirra var frekar stuttur. Kannski 10-20 ár. Eru einhverjar vísbendingar um að víkingaskip hafi verið smíðað í víkingaferðum til Vesturheims?Engar leifar skipa sem siglt var til austurstrandar Ameríku í kringum aldamótin 1000 eru þekktar og engar samtímaheimildir eru til sem varpa ljósi á skipin eða smíði þeirra. Hverskonar skip þetta voru eða hvar þau voru smíðuð verður því að álykta um út frá öðrum vísbendingum. Þær helstu eru leifar hafskipa frá víkingaöld sem fundist hafa í Noregi og Danmörku, leifar báta sem fundist hafa í kumlum á Íslandi, yngri leifar báta frá norrænu byggðunum á Grænlandi, þekking á skipasmíði á Norðurlöndum á seinni öldum og lýsingar fornrita. Þær síðastnefndu eru ritaðar tveimur til þremur öldum eftir að þessir leiðangrar voru farnir og endurspegla bæði hugmyndir höfundanna um skip víkingaaldar og þekkingu þeirra á úthafssiglingum síns eigin samtíma. Margar af þeim hugmyndum sem fræðimenn hafa gert sér um þessi mál byggja líka á almennri rökleiðslu, til dæmis um hvað sé líklegt miðað við umhverfisaðstæður og stærð áhafna, og á þekkingu sem hefur verið aflað með tilraunasiglingum. Gríðarlegur fjöldi haffærra skipa var smíðaður á Norðurlöndum á víkingaöld. Getið er um innrásarflota með tugum og jafnvel hundruðum skipa og þó að sum þeirra hafi verið smíðuð sérstaklega fyrir hernað er yfirleitt talið að flest hafi verið farmskip sem gátu flutt bæði fólk og vöru. Víkingar stunduð jafnt hernað og verslun en landaleit í Norðurhöfum var aðeins lítill angi af öllum siglingum norrænna manna á þessu tímabili. Í lok tíundu aldar hafa verið til þúsundir skipa á Norðurlöndum og þar var öflugur skipasmíðaiðnaður með mikilli þekkingu og vel smurðum innviðum sem tryggðu aðgang að nauðsynlegum hráefnum til smíðanna. Nærri tveir þriðju allra þekktra skipshluta frá víkingaöld eru úr eik en sú trjátegund vex ekki í norðanverðri Skandinavíu og því jafnan talið að mest hafi verið smíðað af skipum í suðurhlutanum. Þar var enda mest þéttbýlið og ríkidæmið og auðveldast að halda úti stórfelldum skipasmíðaiðnaði. Ef horft er á málið út frá því hvar flest haffær skip voru smíðuð þá er því líklegast að skipin sem notuð voru við landkönnun í Vesturheimi hafi upphaflega komið frá sunnanverðri Skandinavíu, þ.m.t. suðvesturströnd Noregs. Því til stuðnings má nefna að höfundar fornrita gera yfirleitt ráð fyrir að skip sem sigldu til Íslands og Grænlands hafi komið frá Noregi, þau hafi annaðhvort beinlínis verið í eigu norskra manna eða að Íslendingar hafi eignast sín hafskip í Noregi. Ef hins vegar spurt er hvort hugsanlegt sé að skipin sem notuð voru til landaleitar á austurströnd Ameríku hafi verið smíðuð á Íslandi eða Grænlandi þá er ekki hægt að útiloka þann möguleika.

Bátsfjöl sem fannst í rústum bæjar frá elleftu öld í Narsaq í Eystribyggð á Grænlandi. Hún er úr lerki sem hefur að öllum líkindum rekið til Grænlands frá Síberíu. Fjölin er í Þjóðminjasafni Grænlands í Nuuk. Mynd: Lísabet Guðmundsdóttir.
- Crumlin-Pedersen, Ole ritstj. 1991, Aspects of Maritime Scandinavia AD 200-1200, Roskilde: The Viking Ship Museum.
- Crumlin-Pedersen, Ole & B. Munch Thye ritstj. 1995, The Ship as Symbol in Prehistoric and Medieval Scandinavia, Copenhagen: Danish National Museum.
- Guðmundur Finnbogason 1943, ‘Skipasmíðar.’ Iðnsaga Íslands I, Reykjavík: Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík, bls. 318-57.
- Lísabet Guðmundsdóttir væntanlegt, ‘Driftwood utilisation and procurement in Norse Greenland.’
- Lúðvík Kristjánsson 1964, ‘Grænlenzki landnemaflotinn og breiðfirzki báturinn.’ Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1964, bls. 20-68. [endurpr. í Lúðvík Kristjánsson 1981, Vestræna, Reykjavík: Sögufélag, bls. 92-134]
- Lúðvík Kristjánsson 1982, Íslenzkir sjávarhættir II, Reykjavík: Menningarsjóður, einkum bls. 85-118.
- Malmros, Claus 1993, ‘Ship's parts found in the Viking settlements in Greenland: preliminary assessments and wood-diagnoses.’ B.L. Clausen ritstj., Viking Voyages to North America, Roskilde: Viking Ship Museum, bls. 118-22.
- Mooney, Dawn E. 2016, 'Examining possible driftwood use in Viking Age Icelandic boats.' Norwegian Archaeological Review. DOI: 10.1080/00293652.2016.1211734