Spurning mín er: Krabbar sem lifa í sjó og nærast á botninum í sínum heimkynnum veiðast stundum af slysni og koma úr sjó með öðrum afla. Sumar tegundir geta lifað jafnvel á 350 metra dýpi en aðrar tegundir krabba þrífast á þurru landi. Hvernig fer öndun þeirra fram? Hvernig vinna þeir vinna súrefni fyrir líkamann? Anda þeir í gegnum húð (skel) tálkn eða lungu?Krabbar anda með tálknum líkt og fiskar og í raun flestar aðrar dýrategundir í sjó. Upptaka súrefnis úr sjó og útskilnaður koltvísýrings (CO2, einnig nefnt koltvíildi) úr líkama dýranna fer fram í tálknunum þannig að segja má að þau gegni sama hlutverki og lungun í okkur mönnunum. Tálkn krabbadýra einkennast af mörgum blöðkum eða tálknaplötum og fara loftskiptin þar fram um blóðrás dýranna. Súrefni er því flutt yfir í blóðið í tálknunum og koltvísýringur jafnhliða skilinn út og í sjóinn. Þetta er þó ekki algilt þar sem sum krabbadýr eru agnarsmá, hafa ekki eiginleg tálkn og flytja þá súrefni úr sjónum yfir í líkamsvefi sína með beinu flæði (e. diffusion).
- Farrelly, C.A. & Greenaway, P. 2005. The morphology and vasculature of the respiratory organs of terrestrial hermit crabs (Coenobita and Birgus): gills, branchiostegal lungs and abdominal lungs. Arthropod Structure & Development. 34: 63–87.
- O´Mahoney, P.M. & Full, R.J. 1984. Respiration of crabs in air and water. Comparative Biochemestry and Physiology. 79: 275–282.
- Myndir: Halldór Pálmar Halldórsson.