Spurning mín er: Krabbar sem lifa í sjó og nærast á botninum í sínum heimkynnum veiðast stundum af slysni og koma úr sjó með öðrum afla. Sumar tegundir geta lifað jafnvel á 350 metra dýpi en aðrar tegundir krabba þrífast á þurru landi. Hvernig fer öndun þeirra fram? Hvernig vinna þeir vinna súrefni fyrir líkamann? Anda þeir í gegnum húð (skel) tálkn eða lungu?Krabbar anda með tálknum líkt og fiskar og í raun flestar aðrar dýrategundir í sjó. Upptaka súrefnis úr sjó og útskilnaður koltvísýrings (CO2, einnig nefnt koltvíildi) úr líkama dýranna fer fram í tálknunum þannig að segja má að þau gegni sama hlutverki og lungun í okkur mönnunum. Tálkn krabbadýra einkennast af mörgum blöðkum eða tálknaplötum og fara loftskiptin þar fram um blóðrás dýranna. Súrefni er því flutt yfir í blóðið í tálknunum og koltvísýringur jafnhliða skilinn út og í sjóinn. Þetta er þó ekki algilt þar sem sum krabbadýr eru agnarsmá, hafa ekki eiginleg tálkn og flytja þá súrefni úr sjónum yfir í líkamsvefi sína með beinu flæði (e. diffusion).

Grjótkrabbi (Cancer irroratus). Bakskjöldur krabbans hefur verið fjarlægður og sjá má appelsínugul tálknin sitt hvoru megin við miðju búksins.

Tálkn grjótkrabbans eru hér sýnd þegar búið er að rétta úr hverjum tálknageira á vinstri hlið krabbans og er breiðari endi tálknanna fastur við búkinn. Undir bakskildinum á lifandi kröbbum liggja tálknin þétt að búknum eins sést á hægri hliðinni.

Hluti af einum tálknageira grjótkrabba (20-föld stækkun). Tálknablöðkur skipta þúsundum í hverjum krabba og má greina þær sem lóðréttar línur á myndinni.
- Farrelly, C.A. & Greenaway, P. 2005. The morphology and vasculature of the respiratory organs of terrestrial hermit crabs (Coenobita and Birgus): gills, branchiostegal lungs and abdominal lungs. Arthropod Structure & Development. 34: 63–87.
- O´Mahoney, P.M. & Full, R.J. 1984. Respiration of crabs in air and water. Comparative Biochemestry and Physiology. 79: 275–282.
- Myndir: Halldór Pálmar Halldórsson.