Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Vinna sótthreinsunarefni með fjórgildum efnasamböndum á COVID-veirunni? Þá er ég að hugsa um hvort það sé gagnlegt að úða þoku með fjórgildum efnasamböndum á skrifstofum, heilsurækt, og matsal. Ég er látin gera þetta en efast mikið um gagnsemi gegn COVID-19. (Þetta er notað í matvælaiðnaði gegn gerlum og sýklum með góðum árangri.)
Fjórgild ammóníumsambönd (e. quaternary ammonium compounds) eru efnasambönd sem hafa bæði sápu- og sótthreinsieiginleika.[1] Þau virka gegn ákveðnum bakteríum, sveppum og veirum en alls ekki öllum. Þau teljast því ekki mjög virk sótthreinsiefni og á sjúkrahúsum eru þau aðallega notuð með öðrum efnum eða aðferðum. Þau eru hins vegar mikið notuð í matvælaiðnaði og á heimilum. Fjórgild ammóníumsambönd eru af mismunandi gerðum og sótthreinsieiginleikar þeirra fara eftir byggingu efnasambandanna. Bensalkóníum-klóríð og dídecyldímethylammoníum-klóríð eru algeng efni af þessari gerð og virku efnin í ýmsum vörum sem ætlaðar eru til sótthreinsunar (dæmi: Bactan-4 sótthreinsiúði og Rodalon).
Fjórgild ammóníumsambönd hafa bæði sápu- og sótthreinsieiginleika. Í fæstum tilvikum gagnast að úða þoku af sótthreinsiefnum út í loftið til að óvirkja SARS-CoV-2-veiruna og slíkt getur beinlínis verið skaðlegt. Þrif ættu frekar að beinast að helstu snertiflötum.
Sýnt hefur verið fram á virkni fjórgildra ammóníumsambanda gegn kórónuveirum, þar á meðal gegn SARS-CoV-2 sem veldur COVID-19.[2][3] Virknin hefur verið umdeild[4] en þau er nú að finna í fjölmörgum efnum á lista Umhverfisstofnunar Bandaríkjanna (EPA) yfir vörur með virkni gegn veirunni.[5] Í sumum tilfellum hefur verið sýnt fram á virkni gegn SARS-CoV-2 en í öðrum gegn veirum sem eru líkar að byggingu eða sem talið er erfiðara að óvirkja. SARS-CoV-2 hefur fituhjúp sem gerir hana næma fyrir alkóhóli í handspritti. Fjórgild ammóníumsambönd geta rofið fitur líkt og alkóhól gera og þannig óvirkjað hjúpaðar veirur.
Við notkun sótthreinsiefna af öllum gerðum verður að hafa í huga að sýnt er fram á virkni þeirra við ákveðnar aðstæður og því er mikilvægt að fara eftir leiðbeiningum, til dæmis varðandi styrk efnanna og verkunartíma. Einnig er mikilvægt að hreinsa hluti og yfirborð áður en aðferðinni er beitt þar sem óhreinindi og jafnvel sápuleifar geta óvirkjað sótthreinsiefni. Í raun eru vönduð þrif í flestum tilvikum nægjanleg til að draga úr smithættu vegna COVID-19 með óbeinni snertingu við hluti og yfirborð.[6] Sótthreinsun ætti því að beinast að þeim stöðum þar sem raunveruleg þörf er á.
Smit sem orsaka COVID-19 berast einkum með dropum frá öndunarfærum en slíkir dropar falla yfirleitt hratt til jarðar.[7] Því er áhrifaríkast að halda fjarlægð frá þeim er kunna að vera smitaðir og jafnvel að verjast dropunum með grímum. Dropar frá öndunarfærum geta borist með snertingu, til dæmis frá höndum smitaðra á hurðarhúna, handrið og lyftuhnappa. Því ættu þrif að beinast að slíkum snertiflötum. Talið er sjaldgæft að COVID-19-veiran smitist með fínni ögnum sem haldast lengi í loftinu og dreifast langt. Slík smit myndu þá verða í nágrenni smitbera og helst tengjast illa loftræstum rýmum. Í fæstum tilvikum ætti því að gagnast nokkuð að úða þoku af sótthreinsiefnum út í loftið. Slíkt getur beinlínis verið skaðlegt, meðal annars vegna ertingar í öndunarfærum.[8] Að auki getur ofnotkun sótthreinsiefna haft óæskileg umhverfisáhrif og að minnsta kosti í sumum tilfellum leitt til ónæmis örvera gegn virku efnunum.[9]Tilvísanir:
^ Bauman, R.W. 2017. Microbiology with diseases by taxonomy, 5. útg., Pearson Education.
^ Ogilvie, B. H., Solis-Leal, A., Lopez, J. B., ofl.. (2021). Alcohol-free hand sanitizer and other quaternary ammonium disinfectants quickly and effectively inactivate SARS-CoV-2. The Journal of hospital infection, 108, 142–145. https://doi.org/10.1016/j.jhin.2020.11.023
^ Saknimit M, Inatsuki I, Sugiyama Y, Yagami K. Virucidal efficacy of physico-chemical treatments against coronaviruses and parvoviruses of laboratory animals. Jikken Dobutsu. 1988 Jul;37(3):341-5. https://doi.org/10.1538/expanim1978.37.3_341.
^ Schrank CL, Minbiole KPC, Wuest WM. Are Quaternary Ammonium Compounds, the Workhorse Disinfectants, Effective against Severe Acute Respiratory Syndrome-Coronavirus-2? ACS Infect Dis. 2020 Jul 10;6(7):1553-1557. https://doi.org/10.1021/acsinfecdis.0c00265.
^ Per A. Clausen, Marie Frederiksen, Camilla S. Sejbæk, ofl. 2020, Chemicals inhaled from spray cleaning and disinfection products and their respiratory effects. A comprehensive review. International Journal of Hygiene and Environmental Health, Volume 229, 113592, https://doi.org/10.1016/j.ijheh.2020.113592.
^ Merchel Piovesan Pereira, B., & Tagkopoulos, I. (2019). Benzalkonium Chlorides: Uses, Regulatory Status, and Microbial Resistance. Applied and environmental microbiology, 85(13), e00377-19. https://doi.org/10.1128/AEM.00377-19
Snædís Huld Björnsdóttir. „Er gagnlegt að eyða COVID-veirunni með því að úða fjórgildum efnasamböndum á skrifstofum og víðar?“ Vísindavefurinn, 16. ágúst 2021, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=82215.
Snædís Huld Björnsdóttir. (2021, 16. ágúst). Er gagnlegt að eyða COVID-veirunni með því að úða fjórgildum efnasamböndum á skrifstofum og víðar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=82215
Snædís Huld Björnsdóttir. „Er gagnlegt að eyða COVID-veirunni með því að úða fjórgildum efnasamböndum á skrifstofum og víðar?“ Vísindavefurinn. 16. ágú. 2021. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=82215>.