Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvað greiðir ríkissjóður árlega mikið í formi beinna og óbeinna styrkja til landbúnaðar á Íslandi?
Í aðdraganda og kjölfar seinni heimstyrjaldarinnar óttuðust stjórnvöld víða um heim að standa frammi fyrir matarskorti. Tollar á landbúnaðarafurðir voru hækkaðir í þeirri von að slík aðgerð myndi ýta undir staðbundna og innlenda framleiðslu. Útflutningsþjóðir brugðust við með niðurgreiðslum á útflutningi. Gekk þannig fram um hríð að innflutningslönd hækkuðu tollamúra og útflutningslönd juku niðurgreiðslur[1] með tilheyrandi tilkostnaði fyrir neytendur og skattgreiðendur.
Þróunin fylgdi sömu lögmálum og vígbúnaðarkapphlaup stórvelda; takist einu stórveldi að þróa nýja vopnategund þurfa önnur að fylgja á eftir með tilheyrandi kostnaði. Vígbúnaðarkostnaðurinn neyddi stórveldin á tímum kalda stríðsins til að semja um takmarkanir og fækkanir á vopnakerfum. Í upphafi 9. áratugs 20. aldar jókst þeirri skoðun fylgi innan OECD að í óefni væri komið. Ráðandi aðilar innan ráðherraráðs OECD sáu fyrir sér stjórnlausan vöxt útgjalda, nema til kæmi vopnahlé í niðurgreiðslu- og tollastríðið. Í þeim tilgangi setti OECD í gang umfangsmikla upplýsingaröflunar- og greiningarvinnu sem að lokum var dregin saman í bókinni National Policies and Agricultural Trade sem gefin var út árið 1987. Greiningarvinnan byggði á grunni lögðum af Max Corden (viðskiptahömlur) og Tim Josling (skilgreining á niðurgreiðslum). Höfuðmarkmiðið var að meta stuðninginn í öllum ríkjunum með sambærilegum og gagnsæjum hætti. Allar götur síðan hefur OECD reiknað út umfang landbúnaðarstyrkja í aðildarríkjum sínum.
OECD (Efnahags- og framfarastofnunin) sér um að reikna út umfang landbúnaðarstyrkja í aðildarríkjum sínum. Á myndinni sjást tómatar tilbúnir til flutnings.
Grundvallarhugtakið í styrkjagreiningarkerfi OECD er það sem kallast á ensku Producer Support Estimate (áður Producer Support Equivalent, skammstafað PSE), sem þýða má sem áætlað jafngildisvirði framleiðendastyrkja. Útreikningurinn byggir á ítarlegum leiðbeiningum sem meðal annars tilgreina hvar skuli finna hinar ýmsu upplýsingar. Markmiðið er að finna verðmæti innlendrar framleiðslu við brúsapallinn (e. farm-gate value), annars vegar þegar stuðst er við heimsmarkaðsverð framleiðslunnar og hins vegar þegar stuðst er við innanlandsverð vörunnar. Mismunur þessara tveggja talna er verðmæti tollverndar og annarra innflutningstakmarkana, séð með augum framleiðendanna, bændanna. Tollar og innflutningstakmarkanir gera bændum kleyft að halda innlendu verði hærra en heimsmarkaðsverði. Sá hluti stuðningsins er gjarnan kallaður markaðsverðs-stuðningur (e. market price support).
Við markaðsstuðninginn bætast framleiðslustyrkir sem ríkið færir bændum gegnum fjárlög, hvort heldur þeir styrkir ráðast af framleiðslu, gripafjölda eða heimilisfangi. Beingreiðslur og gripagreiðslur koma beint úr ríkissjóði og falla undir þann hluta PSE sem ekki telst markaðsverðs-stuðningur. Upplýsingar um árlegt PSE fyrir Ísland má finna á heimasíðu OECD. Ríkissjóður kostar landbúnaðartengda starfsemi á borð við landbúnaðarrannsóknir, starfsmenntun í landbúnaði og framleiðnisjóð landbúnaðarins. Þessi kostnaður fellur undir jafngildisvirði ósérgreindrar þjónustu við landbúnað. Þegar þeirri tölu er bætt við PSE fæst áætlaður heildarstuðningur við framleiðendur í landbúnaði, Total Support Estimate, TSE.
Hægt er að sundurliða TSE eftir því hvort greiðslur koma frá ríkissjóði (skattgreiðendum) eða neytendum. Í öðru tilvikinu er um bein fjárútlát ríkissjóðs að ræða, annað hvort í formi beingreiðslna eða sem rekstrarframlög til stofnana tengdum landbúnaðinum. Í hinu tilvikinu er um að ræða greiðslur sem neytendur inna af hendi við búðarborðið. Líklega er kostnaður neytenda vantalinn eins og vikið verður að síðar.
Tafla 1: Yfirlit yfir beinan og óbeinan stuðning við landbúnað, valin ár, verðlag 2020, milljarðar króna, heimild OECD og eigin útreikningar.
Áætlað jafngildisvirði framleiðendastyrkja (PSE) þar af markaðsstuðningur
44,8 41,8
27,3 15,2
20,3 7,5
27,8 13,9
Jafngildisvirði ósérgreindrar þjónustu við landbúnað
3,7
2,6
1,2
1,3
Fjármunir frá neytendum til bænda (óbeinn stuðningur)
35,2
14,8
7,2
12,8
Fjármunir frá skattgreiðendum til bænda (beinn stuðningur)
20,2
16,8
15,0
16,3
Áætlaður heildarstuðningur við framleiðendur í landbúnaði
55,4
30,7
22,1
29,1
PSE sem hlutfall af heildarverðmæti framleiðslunnar
75,97%
66,05%
44,34%
57,22%
Tafla 1 sýnir brot af þeim upplýsingum sem OECD birtir[2] í tengslum við mat á áætluðu jafngildisvirði framleiðslustyrkja í landbúnaði. Tölurnar hafa verið færðar til verðlags ársins 2020. Heildarverðmæti framleiðslunnar hefur lækkað um 40% að raungildi frá 1986 til 2020. Þarna er um sambland verðlækkana og magnbreytinga að ræða. Vísbendingar hníga í þá átt að framleitt magn hafi aukist en verðlag lækkað hlutfallslega sem meðal annars kemur fram í að markaðsstuðningur hefur lækkað um 70% meðan beinir styrkir til bænda hafa aðeins lækkað um 20% á umræddu árabili. Hafa ber í huga að samkvæmt OECD var íslenskur landbúnaður algjörlega ósnortinn af erlendri samkeppni fram á miðjan 10. áratuginn. Tölurnar sýna að nokkuð hefur orðið ágengt í því að draga úr innflutningsbanns- og útflutningsniðurgreiðslu-kostnaðinum. Þann árangur má að nokkru þakka góðu og traustu talnaefni frá OECD.
Með hliðsjón af talnaefni OECD má slá því föstu að árið 2020 hafi beinir styrkir til bænda numið 16,3 milljörðum króna og óbeinir styrkir hafi numið 12,8 milljörðum króna.
Það vekur athygli að heildarstuðningurinn fór lækkandi fram til 2010 en hækkar svo milli 2010 og 2020. Að baki eru sveiflur í heimsmarkaðsverði sem endurspeglast í hækkun og lækkun viðmiðunarverða við útreikning á markaðsstuðningnum.
Upphaflega spurningin snérist um beina og óbeina styrki ríkissjóðs til bænda. Með hliðsjón af talnaefni OECD má slá því föstu að árið 2020 hafi beinir styrkir numið 16,3 milljörðum króna og óbeinir styrkir hafi numið 12,8 milljörðum króna. Óbeina styrki greiða neytendur í formi hærra vöruverðs, en því er haldið uppi með tollskrá og öðrum innflutningstálmunum.
En er þá öll sagan sögð? Ekki alveg. Í fyrsta lagi tekur reikniverk OECD aðeins til þess sem gerist innan hvers býlis. Auk innflutningstakmarkana búa úrvinnslugreinar landbúnaðar við undanþágur frá samkeppnislögum. Það gefur þessum fyrirtækjum færi á að stunda viðskiptahætti sem önnur fyrirtæki í skyldum rekstri geta ekki. Vísbendingar eru um að slíkir viðskiptahættir þrýsti upp verði á framleiðslu afurðastöðva landbúnaðarins umfram það sem ella hefði orðið.[3] Í öðru lagi er ekki tekið tillit til þess að bændur hafa gjaldfrjálsan aðgang að afréttum sem þeir hafa nýtt með ósjálfbærum hætti.[4][5][6] Líklega ber því að líta á þá niðurstöðu að íslenskur landbúnaður fái tæplega 30 milljarða meðgjöf frá skattgreiðendum og neytendum sem lægri mörk hins raunverulega stuðnings.
Tilvísanir:
^ Sjá t.d. hér: Skaðleg samþjöppun í mjólkuriðnaði og áhrif búvörulaga á samkeppni. Álit Samkeppniseftirlits nr. 1/2009. (Sótt 11.11.2021). Í álitsorðum segir t.a.m.: „Ákvæði búvörulaga um vinnslu og sölu mjólkur og mjólkurafurða og samruna afurðastöðva hafa raskað samkeppni eins og nánar greinir í áliti þessu. Þá eru vinnubrögð landbúnaðarráðuneytisins við samning lagafrumvarpa samkeppnishamlandi þar sem jafnræðis hefur ekki verið gætt á milli keppinauta varðandi samvinnu og aðkomu að slíkri vinnu.“ (12).
Þórólfur Matthíasson. „Hvað greiðir ríkissjóður mikið á ári til landbúnaðar á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 9. nóvember 2021, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=82059.
Þórólfur Matthíasson. (2021, 9. nóvember). Hvað greiðir ríkissjóður mikið á ári til landbúnaðar á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=82059
Þórólfur Matthíasson. „Hvað greiðir ríkissjóður mikið á ári til landbúnaðar á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 9. nóv. 2021. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=82059>.