Öll vitum við að líkamsrækt styrkir vöðva og örvar blóðflæði um líkamann, flutning súrefnis frá lungum til vöðva og koltvísýrings frá vöðvum að lungum. En getur líkamsrækt aukið fjölda háræða í vöðvum? Kjarni þess sem ég er hugsa, er að ég vildi gjarnan fá einfalt svar við því hvernig skikkanleg líkamsrækt eflir háræðakerfið (bláæðakerfið) og auðveldar vöðvum að losna við mjólkursýru (harðsperrur). Almennt telur fólk að hreyfing styrki hjarta og vöðva en aðeins ítarlegri lífeðlisfræði gæti gagnast þeim sem hafa fordóma gagnvart Bodybuilding (sem því miður hefur stolið orðinu líkamsrækt).Æðum líkamans er oft skipt niður í fimm gerðir: slagæðar, bláæðar, slagæðlinga, bláæðlinga og háræðar. Það hefur alllengi verið þekkt að loftháð þjálfun, oft líka kölluð þolþjálfun, eykur fjölda háræða í vöðvum og þar með þéttleika þeirra. Líkja má háræðum í vöðvum við net sem umlykur vöðvaþræðina. Þéttara háræðanet gerir flutning súrefnis með blóðinu áhrifaríkari og er hluti af því að auka getu vöðvanna til að nota súrefni til orkuframleiðslu og þannig eykst loftháð geta einstaklingsins. Þetta orsakar þannig aukið þol og úthald. Boðefnið „æðaþelsvaxtarþáttur“ (e. vascular endothelial growth factor) er talið vera einn mikilvægasti þátturinn í að miðla þessum áhrifum en mörg önnur boðefni koma einnig við sögu. Á hinn bóginn eru áhrif svokallaðrar styrkþjálfunar eða loftfirrtrar þjálfunar óljósari og fjölbreyttari. Lengi var því haldið fram að slík þjálfun hefði hindrandi áhrif á háræðar og orsakaði fækkun þeirra. Það er hins vegar að öllum líkindum rangt. Það er þó þekkt að við styrkþjálfun eins og kraftlyftingar og vaxtarrækt, minnkar oft þéttleiki háræðanetsins. Ástæða þess er að öllum líkindum sú, að við slíka þjálfun gildna vöðvaþræðirnir og þá strekkist á háræðanetinu sem umlykur þá. Jafnvel þó háræðum fjölgi eitthvað við það, þá er sú fjölgun oft hlutfallslega mun minni en stækkun vöðvaþráðanna og þar með vöðvans í heild. Þar af leiðandi verður háræðanetið gisnara.
- Pixabay.com. (Sótt 25.5.2021).