Er til skilgreining á hugtakinu stofnun, þá er til dæmis átt við kirkjuna eða sjúkrahús sem stofnun?Stofnun er meðal annars skilgreind sem „föst starfsemi með ákveðin verkefni í almanna þágu“, og einnig „eitthvað fyrirtæki eða annars konar skipulögð starfsemi, opinber eður ei, sem yfirleitt starfar í þágu almennings á einhvern hátt“. Því falla bæði Landspítalinn og Þjóðkirkjan undir ofangreindar skilgreiningar. Eins og fram kemur í svari við spurningunni Er þjóðkirkjan ríkisstofnun? er hugtakið ríkisstofnun hvergi skilgreint í lögum. Hins vegar er hægt að miða við hugtakið ríkisaðili sem eru þær stofnanir sem fara með ríkisvald og aðrir aðilar sem eru að hálfu eða meiri hluta í eigu ríkis og sveitarfélaga. Rekstur Þjóðkirkjunnar er með nokkuð sérstöku móti, eins og rakið er í fyrrnefndu svari en skýrara er að ná utan um rekstur Landspítalans. Spítalinn er í A-hluta ríkissjóðs og er fjármagnaður með skatttekjum, lögbundnum þjónustutekjum og framlögum. Landspítalinn er ríkisaðili og líka stofnun. Þjóðkirkjan er hins vegar stofnun en ekki beinlínis ríkisaðili. Heimildir og mynd:
- Halldóra Jónsdóttir og Þórdís Úlfarsdóttir (ritstjórar). Íslensk nútímamálsorðabók. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
- Ágústa Þorbergsdóttir, Kristín Una Friðjónsdóttir og Silja Bára Ómarsdóttir (ritstjórar). (2012). Íðorðasafn í alþjóðastjórnmálum og stjórnmálafræði. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
- Tommy Bee. Ríkisspítalar (Landspítalinn) - Wikimedia Commons. Sótt 19.04.2021 og birt undir CC BY-SA 3.0) leyfinu.