Eftir að hafa lesið svar ykkar um fjandskap hunda og katta, vaknar spurningin: Hvers vegna eru það þá bara hundarnir sem ráðast á kettina en ekki öfugt? Eða með öðrum orðum - Hvers vegna ráðast kettir ekki á hunda?Sjálfsagt er skýringin sú að hundar eru gjarnan miklu stærri en kettir og því meira ógnandi. En það er alls ekki algilt og vissulega eru dæmi um að kettir ráðist á hunda þótt venjulega sé það á hinn veginn. Svo eru ótal dæmi um að kattardýr af öðrum tegundum en hinn dæmigerði heimilisköttur (Felis catus), ráðist á hunda. Þessi kattardýr eru þá venjulega stærri en hundarnir. Í Kaliforníu og fleiri ríkjum Bandaríkjanna er til dæmis vel þekkt að fjallaljón (Puma concolor) ráðist á hunda. Á stöðum þar sem tígrisdýr (Panthera tigris) finnast, svo sem á Indlandi og í Rússlandi, er vel þekkt að þau drepi hunda ef þeir verða á vegi þeirra.
- Cat and dog standoff (3926784260).jpg - Wikimedia Commons. Höfundur myndar: Peretz Partensky. Birt undir Creative Commons Attribution-Share Alike 2.0 Generic leyfi. (Sótt 3.6.2021).