Hvað eru skjálftar lengi á leiðinni? (Hve hratt ferðast þeir?)Þetta er ágætis spurning og eðlilegt að margir velti henni fyrir sér nú þegar mikil jarðskjálftahrina gengur yfir á Reykjanesskaga. Fljótustu jarðskjálftabylgjurnar kallast P-bylgjur. Hraði þeirra í efri lögum jarðskorpunnar hér á landi er um 2-3 km á sekúndu en í neðri hluta jarðskorpunnar er hraðinn um 6,5 km á sekúndu. Fyrri talan á við þegar miðað er við næsta nágrenni skjálftans en annars seinni talan. Ef við hugsum okkar skjálfta sem verður í 100 km fjarlægð frá okkur þá nær fljótasta bylgjan 6,5 km hraða á sekúndu sem samsvarar því að hún fari 23.000 km á klukkustund. Bylgjan er því 15 sekúndur að berast 100 km leið. Bylgja eftir skjálfta sem verður í um 33 km fjarlægð (sem er um það bil vegalengdin frá suðurenda Fagradalsfjalls að Kringlunni í Reykjavík) berst til okkar á tæpum 5 sekúndum.
- Kortasjá. (Sótt 16.03.2021).