Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Geta sniglar lifað það af að missa hausinn?

Arnar Pálsson

Stutta svarið er já, vissar tegundir sæsnigla lifa þetta af. Eða réttara sagt, hausinn lifir af og endurmyndar nýjan líkama.

Þekkt er að tré missa lauf og greinar án vandræða en dýr missa yfirleitt ekki líkamsparta án aukaverkana. Undantekningarnar eru reyndar nokkrir hópar dýra sem missa líffæri, til dæmis detta halar af vissum eðlutegundum þegar afræningjar ná í þær. Krossfiskar geta einnig misst arma og lifað án þeirra.

Búklausir hausar sæsnigla komust í sviðsljósið í kjölfar greinar sem birtist 8. mars 2021 í tímaritinu Current Biology. Höfundar greinarinnar eru Sayaka Mitoh doktorsnemi og leiðbeinandi hennar Yoichi Yusa við Nara Women’s University í Japan en verkefni þeirra snýr að því að rannsaka lífssögu og eiginleika sæsnigla. Þegar Sayaka var að fylgjast með sniglunum í tönkum inni á rannsóknarstofu tók hún eftir því að hausinn datt af einum sniglinum. Því næst skreið hausinn af stað!

Sæsnigill af tegundinni Elysia marginata.

Eðlilega vakna nokkrar spurningar um fallandi hausa sæsniglanna. Gera þeir þetta af sjálfsdáðun? Hversu lengi lifir hausinn/búkurinn? Hvað gerist næst? Geta allir sniglarnir gert þetta? Hvernig lifir hausinn af? Hvers vegna gerist þetta?

Það voru vísbendingar um að snigillinn hafi afhöfðað sig af sjálfsdáðum með því að melta á sér hálsinn. Sayaka og Yoichi gerðu nokkrar athuganir á tveimur náskyldum tegundum (Elysia marginata og Elysia atroviridis) til að kanna hvort sama atferli væri að finna hjá þeim. Af 15 sniglum tegundarinnar E. marginata sýndu fimm þetta sérkennilega atferli og þrír af 82 einstaklingum af tegundinni E. atroviridis.

Eftir að höfuð skildist frá búk gréru sárin mjög fljótt, á innan við sólarhring. Flestir hausarnir skriðu af stað og fengu sér að eta. Það hlýtur að teljast mjög sérkennilegt því þá vantaði maga og meltingarveg, hjarta og flest annað. Endurmyndun á líkama hófst nokkuð fljótt, eftir viku hafði hjarta endurmyndast og að meðaltali var kominn heillegur líkami eftir 20 daga. Hauslausu búkarnir sýndu lífsmörk eftir afhöfðun en endurmynduðu hins vegar ekki hausa.

Hæfileikinn til að endurmynda vefi er þekktur meðal sæsnigla, sumir þeirra geta endurmyndað stilka, hluta fótarins og hala. Aðrir hópar dýra sem geta misst líkamsparta og endurmyndað þá eru áðurnefndir krossfiskar, flatormar og nokkrar tegundir froskdýra. Ef vissar gerðir flatorma detta í tvennt (eða eru skornir) geta þeir endurmyndað bæði fram- og afturhluta úr hinum partinum. Meðal froskdýra er þekktast að þau endurmyndi hala eða útlimi en einnig er vitað um tilfelli endurmyndunar auga og hluta hjartans.

Afhöfðun og endurmyndin líkama Elysia marginata. Á mynd A hefur búkur og höfuð skilist að, örin bendir á hjartað. Mynd B er 7 dögum seinna, mynd C er 14 dögum seinna og mynd D 22 dögum síðar, þá er endurmyndin lokið.

Það er ekki ljóst hvort allir búklausir sniglahausar geti endurmyndað líkama. Því miður var rannsóknin frekar smá í sniðum og erfitt að draga sterkar ályktanir. Það voru vísbendingar um að þessi hæfileiki sé algengari hjá yngri sniglum, mögulega vegna þess að líkamar þeirra voru enn að þroskast og hægt að endurræsa kerfi sem mynda vefi og form. Einn af þeim losaði sig tvisvar við kroppinn og endurmyndaði líkama í kjölfarið.

Það er eðlilegt að spyrja hvernig hausinn getur þraukað í 1-3 vikur án næringar (fyrst að hann er ekki með meltingarveg eða maga). Lykill að þessu virðist vera sérstök líffræði þessa hóps sæsnigla. Þeir nærast á ljóstillífandi þörungum, en ræna einnig grænukornum þörunganna (grænukorn mynda orku úr sólarljósi) og setja í sérstakt líffæri sem teygir sig um allan líkama þeirra. Ein tegundin Elysia chlorotica étur næstum aldrei heldur treystir alfarið á orku úr ljóstillífun. Tegundirnar sem Sayaka og Yoichi skoðuðu geta tekið upp grænukorn og er talið að það geri stökum hausum kleift að þrauka þær vikur sem það tekur að endurmynda kroppana.

Meðal tegunda sem missa útlimi, til dæmis gekkóa sem missa hala þegar rándýr grípa í þá, er þekkt að líkamspartarnir sem losna frá hangi á einhvers konar lið. Svipað og „opnist hér” hlutinn á umbúðum eins og mjólkurfernum, er tengingin milli höfuðsins og líkamans veikari (auðbrjótanlegri) en aðrir hlutar líkamans. Sayaka sá vísbendingar um slíkt í hálsum beggja Elysia-tegundanna.

Lífverur sem missa líkamshluta og endurmynda gera það yfirleitt af illri nauðsyn. Spyrja má hver sé kveikjan eða þróunarfræðilegi ávinningurinn af því að slíta hausinn frá líkamanum og endurmynda nýjan líkama. Í grein sinni telja Sayaka og Yoichi ólíklegt að þetta sé flótti frá rándýri. Hausinn fer ekki hratt yfir og er ekki til stórræða. Þau viðurkenna að ástæðan sé ekki þekkt en tiltaka að mögulega sé þetta leið fyrir snigilinn að sleppa úr þangflækju eða hrista af sér kroppinn ef hann er fullur af eiturefnum. Sennilegasta skýringin sé að þetta sé leið til að losna við uppsöfnuð sníkjudýr. Margar gerðir sníkjudýra herja á þessar tegundir og mikil sníkjudýrasýking getur leitt dýr til dauða. Í annarri tegundinni var staðfest að þeir einstaklingar sem iðkuðu afhausun voru sýktir af tilteknu sníkjudýri. Frekari rannsókna er þörf til að meta þessa tilgátu en mögulega fáum við ekki svör. Óvissan er grundvallareiginleiki veraldarinnar og vísindin geta ekki gefið okkur óyggjandi svör við öllum spurningunum. Hins vegar eru niðurstöður japanska vísindafólksins sannarlega spennandi og mikilvægt að fyrirbærið sé rannsakað frekar og kannski staðfest í fleiri tegundum.

Samantekt:

  • Vissar tegundir sæsnigla geta losað hausinn frá líkamanum.
  • Hausarnir lifa og geta endurmyndað líkama.
  • Líkamarnir geta ekki endurmyndað hausa.
  • Ekki er vitað hvernig þetta gagnast sniglunum.

Heimild og mynd:

Spurningu Olgu er hér svarað að hluta.

Höfundur

Arnar Pálsson

erfðafræðingur og prófessor í lífupplýsingafræði við HÍ

Útgáfudagur

12.4.2021

Síðast uppfært

14.4.2021

Spyrjandi

Olga Friðriksdóttir

Tilvísun

Arnar Pálsson. „Geta sniglar lifað það af að missa hausinn?“ Vísindavefurinn, 12. apríl 2021, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=81368.

Arnar Pálsson. (2021, 12. apríl). Geta sniglar lifað það af að missa hausinn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=81368

Arnar Pálsson. „Geta sniglar lifað það af að missa hausinn?“ Vísindavefurinn. 12. apr. 2021. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=81368>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Geta sniglar lifað það af að missa hausinn?
Stutta svarið er já, vissar tegundir sæsnigla lifa þetta af. Eða réttara sagt, hausinn lifir af og endurmyndar nýjan líkama.

Þekkt er að tré missa lauf og greinar án vandræða en dýr missa yfirleitt ekki líkamsparta án aukaverkana. Undantekningarnar eru reyndar nokkrir hópar dýra sem missa líffæri, til dæmis detta halar af vissum eðlutegundum þegar afræningjar ná í þær. Krossfiskar geta einnig misst arma og lifað án þeirra.

Búklausir hausar sæsnigla komust í sviðsljósið í kjölfar greinar sem birtist 8. mars 2021 í tímaritinu Current Biology. Höfundar greinarinnar eru Sayaka Mitoh doktorsnemi og leiðbeinandi hennar Yoichi Yusa við Nara Women’s University í Japan en verkefni þeirra snýr að því að rannsaka lífssögu og eiginleika sæsnigla. Þegar Sayaka var að fylgjast með sniglunum í tönkum inni á rannsóknarstofu tók hún eftir því að hausinn datt af einum sniglinum. Því næst skreið hausinn af stað!

Sæsnigill af tegundinni Elysia marginata.

Eðlilega vakna nokkrar spurningar um fallandi hausa sæsniglanna. Gera þeir þetta af sjálfsdáðun? Hversu lengi lifir hausinn/búkurinn? Hvað gerist næst? Geta allir sniglarnir gert þetta? Hvernig lifir hausinn af? Hvers vegna gerist þetta?

Það voru vísbendingar um að snigillinn hafi afhöfðað sig af sjálfsdáðum með því að melta á sér hálsinn. Sayaka og Yoichi gerðu nokkrar athuganir á tveimur náskyldum tegundum (Elysia marginata og Elysia atroviridis) til að kanna hvort sama atferli væri að finna hjá þeim. Af 15 sniglum tegundarinnar E. marginata sýndu fimm þetta sérkennilega atferli og þrír af 82 einstaklingum af tegundinni E. atroviridis.

Eftir að höfuð skildist frá búk gréru sárin mjög fljótt, á innan við sólarhring. Flestir hausarnir skriðu af stað og fengu sér að eta. Það hlýtur að teljast mjög sérkennilegt því þá vantaði maga og meltingarveg, hjarta og flest annað. Endurmyndun á líkama hófst nokkuð fljótt, eftir viku hafði hjarta endurmyndast og að meðaltali var kominn heillegur líkami eftir 20 daga. Hauslausu búkarnir sýndu lífsmörk eftir afhöfðun en endurmynduðu hins vegar ekki hausa.

Hæfileikinn til að endurmynda vefi er þekktur meðal sæsnigla, sumir þeirra geta endurmyndað stilka, hluta fótarins og hala. Aðrir hópar dýra sem geta misst líkamsparta og endurmyndað þá eru áðurnefndir krossfiskar, flatormar og nokkrar tegundir froskdýra. Ef vissar gerðir flatorma detta í tvennt (eða eru skornir) geta þeir endurmyndað bæði fram- og afturhluta úr hinum partinum. Meðal froskdýra er þekktast að þau endurmyndi hala eða útlimi en einnig er vitað um tilfelli endurmyndunar auga og hluta hjartans.

Afhöfðun og endurmyndin líkama Elysia marginata. Á mynd A hefur búkur og höfuð skilist að, örin bendir á hjartað. Mynd B er 7 dögum seinna, mynd C er 14 dögum seinna og mynd D 22 dögum síðar, þá er endurmyndin lokið.

Það er ekki ljóst hvort allir búklausir sniglahausar geti endurmyndað líkama. Því miður var rannsóknin frekar smá í sniðum og erfitt að draga sterkar ályktanir. Það voru vísbendingar um að þessi hæfileiki sé algengari hjá yngri sniglum, mögulega vegna þess að líkamar þeirra voru enn að þroskast og hægt að endurræsa kerfi sem mynda vefi og form. Einn af þeim losaði sig tvisvar við kroppinn og endurmyndaði líkama í kjölfarið.

Það er eðlilegt að spyrja hvernig hausinn getur þraukað í 1-3 vikur án næringar (fyrst að hann er ekki með meltingarveg eða maga). Lykill að þessu virðist vera sérstök líffræði þessa hóps sæsnigla. Þeir nærast á ljóstillífandi þörungum, en ræna einnig grænukornum þörunganna (grænukorn mynda orku úr sólarljósi) og setja í sérstakt líffæri sem teygir sig um allan líkama þeirra. Ein tegundin Elysia chlorotica étur næstum aldrei heldur treystir alfarið á orku úr ljóstillífun. Tegundirnar sem Sayaka og Yoichi skoðuðu geta tekið upp grænukorn og er talið að það geri stökum hausum kleift að þrauka þær vikur sem það tekur að endurmynda kroppana.

Meðal tegunda sem missa útlimi, til dæmis gekkóa sem missa hala þegar rándýr grípa í þá, er þekkt að líkamspartarnir sem losna frá hangi á einhvers konar lið. Svipað og „opnist hér” hlutinn á umbúðum eins og mjólkurfernum, er tengingin milli höfuðsins og líkamans veikari (auðbrjótanlegri) en aðrir hlutar líkamans. Sayaka sá vísbendingar um slíkt í hálsum beggja Elysia-tegundanna.

Lífverur sem missa líkamshluta og endurmynda gera það yfirleitt af illri nauðsyn. Spyrja má hver sé kveikjan eða þróunarfræðilegi ávinningurinn af því að slíta hausinn frá líkamanum og endurmynda nýjan líkama. Í grein sinni telja Sayaka og Yoichi ólíklegt að þetta sé flótti frá rándýri. Hausinn fer ekki hratt yfir og er ekki til stórræða. Þau viðurkenna að ástæðan sé ekki þekkt en tiltaka að mögulega sé þetta leið fyrir snigilinn að sleppa úr þangflækju eða hrista af sér kroppinn ef hann er fullur af eiturefnum. Sennilegasta skýringin sé að þetta sé leið til að losna við uppsöfnuð sníkjudýr. Margar gerðir sníkjudýra herja á þessar tegundir og mikil sníkjudýrasýking getur leitt dýr til dauða. Í annarri tegundinni var staðfest að þeir einstaklingar sem iðkuðu afhausun voru sýktir af tilteknu sníkjudýri. Frekari rannsókna er þörf til að meta þessa tilgátu en mögulega fáum við ekki svör. Óvissan er grundvallareiginleiki veraldarinnar og vísindin geta ekki gefið okkur óyggjandi svör við öllum spurningunum. Hins vegar eru niðurstöður japanska vísindafólksins sannarlega spennandi og mikilvægt að fyrirbærið sé rannsakað frekar og kannski staðfest í fleiri tegundum.

Samantekt:

  • Vissar tegundir sæsnigla geta losað hausinn frá líkamanum.
  • Hausarnir lifa og geta endurmyndað líkama.
  • Líkamarnir geta ekki endurmyndað hausa.
  • Ekki er vitað hvernig þetta gagnast sniglunum.

Heimild og mynd:

Spurningu Olgu er hér svarað að hluta....