Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:52 • sest 15:43 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:25 • Síðdegis: 19:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:09 • Síðdegis: 13:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Voru ísbirnir á Íslandi fyrir landnám?

Ester Rut Unnsteinsdóttir

Hafís er undirstaða þess að lífvænlegt sé fyrir hvítabirni en þeir eru útbreiddir með ströndum og á hafís allt umhverfis norðurheimskautið.[1] Suðurmörk útbreiðslu þeirra ráðast af því hversu langt vetrarísinn nær. Þar sem ekki er stöðugur hafís, til dæmis umhverfis Ísland, geta hvítabirnir ekki búið þó þeir rambi endrum og sinnum til landsins.

Hvítabirnir fylgja árstíðabundnum hreyfingum á hafísnum og fara á staði þar sem selir, sem er aðal fæða þeirra, safnast saman til tímgunar og fæðuöflunar. Hvítabirnir geta ferðast langar vegalengdir í leit að æti en vegna þess hve birnirnir þurfa að fara yfir stór svæði til að afla sér fæðu er ómögulegt fyrir þá að helga sér óðul eða yfirráðasvæði. Birna með fangi þarf að fita sig allt sumarið og haustið en í desember grefur hún sig inn í skafl og liggur þar í hálfgerðum dvala næstu 2-3 mánuðina. Meðgangan er um tveggja mánaða löng en afkvæmin (1-3 húnar) fæðast um miðjan vetur, hárlausir og blindir, og vega minna en eitt kíló. Til að birnan og húnar hennar lifi þennan tíma af þurfa snjóalög að vera stöðug og nægilega þykk til að holan hennar sé örugg mánuðum saman.

Hafís er undirstaða þess að lífvænlegt sé fyrir hvítabirni en þeir eru útbreiddir með ströndum og á hafís allt umhverfis norðurheimskautið. Hér sést hvítabjörn á hafís og selur sem hann er nýbúinn að veiða.

Húnarnir dvelja með móður sinni í og við bæli hennar til vors en þá eru þeir orðnir um 10 kg. Birnan hefur þá ekki étið í allt að sex mánuði og hefur tapað mestum orkuforða sínum. Hún fer þá af stað með húnana til sjávar á veiðar en forðast að hitta aðra birni, sérstaklega meðan húnarnir eru litlir. Þeir fylgja móður sinni næstu tvö árin og læra af henni að veiða og bjarga sér.

Þegar birna kemur úr híði með unga húna sína eru þau mjög soltin og hún nánast aðframkomin eftir meðgöngu, fæðingu og næringu húna svo mánuðum skiptir, án fæðu. Til að þau finni fljótt æti og fái nægilega orku til að lifa af, þarf að vera hafís í nánd þar sem selir koma saman. Þessar aðstæður eru ekki fyrir hendi þar sem enginn er hafísinn.

Þar sem talið er að loftslag hafi verið tiltölulega hlýtt við landnám er ekki líklegt að hafís hafi umlukið landið þá. Miklu fyrr, þegar ísaldarjökullinn var farinn að hopa en enn var lagnaðarís á hafinu milli Íslands og Grænlands, er líklegt að hvítabirnir hafi átt hér heimkynni. Þá hafa aðstæður við landið áreiðanlega verið hvítabjörnum í vil, ólíkt því sem nú er.

Skýringarmynd sem sýnir ystu mörk ísaldarjökulsins hér á landi við hámark síðasta jökulskeiðs. Þegar ísaldarjökullinn var farinn að hopa en enn var lagnaðarís á hafinu milli Íslands og Grænlands, er líklegt að hvítabirnir hafi átt hér heimkynni. Við landnám var hins vegar tiltölulega hlýtt og aðstæður ekki hentugar fyrir hvítabirni.

Nú eru þekktir 20 stofnar hvítabjarna, sem þó eru ekki erfðafræðilega einangraðir því dýrin eru svo hreyfanleg. Vandi tegundarinnar er einna helst tengd röskun búsvæða vegna breytinga á hafísnum sem hefur áhrif á fæðuskilyrði og tímgunarárangur. Ef ísþekjan rofnar eða verður of veik til að hvítabirnir geti farið yfir jafn stór svæði og áður munu stofnar líklega einangrast vegna hindrunar á genaflæði.

Tilvísun:
  1. ^ Ein þekkt undantekning frá þessu eru hvítabirnir við Hudsonflóa í Kanada. Þeir hafa komist upp á lag með að lifa stóran hluta ársins á landi en þar myndast líka líka lagnaðarís og snjóalög eru miklu stöðugri en hér.

Gagnlegar heimildir:

  • Amstrup, S.C. 2003. The Polar Bear: Ursus maritimus Biology, Management, and Conservation. Í Feldhamer, G.A., B.C. Thompson og J.A. Chapman, ritstj. Wild Mammals of North America, second edition, 27. kafli. Baltimore: Johns Hopkins University Press.
  • Derocher, A.E., J. Aars, S.C. Amstrup, A. Cutting, N.J. Lunn, P.K. Molnár, M.E. Obbard, I. Stirling, G.W. Thiemann, D. Vongraven, Ø. Wiig og G. York 2013. Rapid ecosystem change and polar bear conservation. Conservation Letters 6: 368-375.
  • Malcolm A. Ramsay, Ian Stirling. On the mating system of polar bears. Canadian Journal of Zoology, 1986, 64(10): 2142-2151.
  • Þórir Haraldsson og Páll Hersteinsson 2004. Hvítabjörn. Í Páll Hersteinsson, ritstj. Íslensk spendýr. Reykjavík: Vaka-Helgafell.
  • Wiig, Ø., Amstrup, S., Atwood, T., Laidre, K., Lunn, N., Obbard, M., Regehr, E. & Thiemann, G. 2015. Ursus maritimus. The IUCN Red List of Threatened Species 2015: e.T22823A14871490. IUCN Red List of Threatened Species. (Sótt 11.03.2021).

Mynd:

Upprunalega spurningin barst Vísindavefnum á ensku og hljóðaði svona:

I know that since Settlement times people have killed polar bears that drifted across from Greenland. But pre-settlement, would they have survived and have a population in Iceland?

Höfundur

Ester Rut Unnsteinsdóttir

spendýravistfræðingur - Náttúrufræðistofnun Íslands

Útgáfudagur

29.3.2021

Síðast uppfært

21.9.2021

Spyrjandi

Scott David Frank

Tilvísun

Ester Rut Unnsteinsdóttir. „Voru ísbirnir á Íslandi fyrir landnám?“ Vísindavefurinn, 29. mars 2021, sótt 3. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=81302.

Ester Rut Unnsteinsdóttir. (2021, 29. mars). Voru ísbirnir á Íslandi fyrir landnám? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=81302

Ester Rut Unnsteinsdóttir. „Voru ísbirnir á Íslandi fyrir landnám?“ Vísindavefurinn. 29. mar. 2021. Vefsíða. 3. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=81302>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Voru ísbirnir á Íslandi fyrir landnám?
Hafís er undirstaða þess að lífvænlegt sé fyrir hvítabirni en þeir eru útbreiddir með ströndum og á hafís allt umhverfis norðurheimskautið.[1] Suðurmörk útbreiðslu þeirra ráðast af því hversu langt vetrarísinn nær. Þar sem ekki er stöðugur hafís, til dæmis umhverfis Ísland, geta hvítabirnir ekki búið þó þeir rambi endrum og sinnum til landsins.

Hvítabirnir fylgja árstíðabundnum hreyfingum á hafísnum og fara á staði þar sem selir, sem er aðal fæða þeirra, safnast saman til tímgunar og fæðuöflunar. Hvítabirnir geta ferðast langar vegalengdir í leit að æti en vegna þess hve birnirnir þurfa að fara yfir stór svæði til að afla sér fæðu er ómögulegt fyrir þá að helga sér óðul eða yfirráðasvæði. Birna með fangi þarf að fita sig allt sumarið og haustið en í desember grefur hún sig inn í skafl og liggur þar í hálfgerðum dvala næstu 2-3 mánuðina. Meðgangan er um tveggja mánaða löng en afkvæmin (1-3 húnar) fæðast um miðjan vetur, hárlausir og blindir, og vega minna en eitt kíló. Til að birnan og húnar hennar lifi þennan tíma af þurfa snjóalög að vera stöðug og nægilega þykk til að holan hennar sé örugg mánuðum saman.

Hafís er undirstaða þess að lífvænlegt sé fyrir hvítabirni en þeir eru útbreiddir með ströndum og á hafís allt umhverfis norðurheimskautið. Hér sést hvítabjörn á hafís og selur sem hann er nýbúinn að veiða.

Húnarnir dvelja með móður sinni í og við bæli hennar til vors en þá eru þeir orðnir um 10 kg. Birnan hefur þá ekki étið í allt að sex mánuði og hefur tapað mestum orkuforða sínum. Hún fer þá af stað með húnana til sjávar á veiðar en forðast að hitta aðra birni, sérstaklega meðan húnarnir eru litlir. Þeir fylgja móður sinni næstu tvö árin og læra af henni að veiða og bjarga sér.

Þegar birna kemur úr híði með unga húna sína eru þau mjög soltin og hún nánast aðframkomin eftir meðgöngu, fæðingu og næringu húna svo mánuðum skiptir, án fæðu. Til að þau finni fljótt æti og fái nægilega orku til að lifa af, þarf að vera hafís í nánd þar sem selir koma saman. Þessar aðstæður eru ekki fyrir hendi þar sem enginn er hafísinn.

Þar sem talið er að loftslag hafi verið tiltölulega hlýtt við landnám er ekki líklegt að hafís hafi umlukið landið þá. Miklu fyrr, þegar ísaldarjökullinn var farinn að hopa en enn var lagnaðarís á hafinu milli Íslands og Grænlands, er líklegt að hvítabirnir hafi átt hér heimkynni. Þá hafa aðstæður við landið áreiðanlega verið hvítabjörnum í vil, ólíkt því sem nú er.

Skýringarmynd sem sýnir ystu mörk ísaldarjökulsins hér á landi við hámark síðasta jökulskeiðs. Þegar ísaldarjökullinn var farinn að hopa en enn var lagnaðarís á hafinu milli Íslands og Grænlands, er líklegt að hvítabirnir hafi átt hér heimkynni. Við landnám var hins vegar tiltölulega hlýtt og aðstæður ekki hentugar fyrir hvítabirni.

Nú eru þekktir 20 stofnar hvítabjarna, sem þó eru ekki erfðafræðilega einangraðir því dýrin eru svo hreyfanleg. Vandi tegundarinnar er einna helst tengd röskun búsvæða vegna breytinga á hafísnum sem hefur áhrif á fæðuskilyrði og tímgunarárangur. Ef ísþekjan rofnar eða verður of veik til að hvítabirnir geti farið yfir jafn stór svæði og áður munu stofnar líklega einangrast vegna hindrunar á genaflæði.

Tilvísun:
  1. ^ Ein þekkt undantekning frá þessu eru hvítabirnir við Hudsonflóa í Kanada. Þeir hafa komist upp á lag með að lifa stóran hluta ársins á landi en þar myndast líka líka lagnaðarís og snjóalög eru miklu stöðugri en hér.

Gagnlegar heimildir:

  • Amstrup, S.C. 2003. The Polar Bear: Ursus maritimus Biology, Management, and Conservation. Í Feldhamer, G.A., B.C. Thompson og J.A. Chapman, ritstj. Wild Mammals of North America, second edition, 27. kafli. Baltimore: Johns Hopkins University Press.
  • Derocher, A.E., J. Aars, S.C. Amstrup, A. Cutting, N.J. Lunn, P.K. Molnár, M.E. Obbard, I. Stirling, G.W. Thiemann, D. Vongraven, Ø. Wiig og G. York 2013. Rapid ecosystem change and polar bear conservation. Conservation Letters 6: 368-375.
  • Malcolm A. Ramsay, Ian Stirling. On the mating system of polar bears. Canadian Journal of Zoology, 1986, 64(10): 2142-2151.
  • Þórir Haraldsson og Páll Hersteinsson 2004. Hvítabjörn. Í Páll Hersteinsson, ritstj. Íslensk spendýr. Reykjavík: Vaka-Helgafell.
  • Wiig, Ø., Amstrup, S., Atwood, T., Laidre, K., Lunn, N., Obbard, M., Regehr, E. & Thiemann, G. 2015. Ursus maritimus. The IUCN Red List of Threatened Species 2015: e.T22823A14871490. IUCN Red List of Threatened Species. (Sótt 11.03.2021).

Mynd:

Upprunalega spurningin barst Vísindavefnum á ensku og hljóðaði svona:

I know that since Settlement times people have killed polar bears that drifted across from Greenland. But pre-settlement, would they have survived and have a population in Iceland?
...