Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Lyfið sem hér um ræðir heitir ivermectin og er flókið sýkingarlyf með margþætta gagnsemi. Það var uppgötvað 1975 og er notað um heim allan gegn margvíslegum ormasýkingum en einnig gegn öðrum sníkjudýrum á borð við kláðamaur. Notkunin einskorðast ekki við menn heldur er lyfið einnig gefið öðrum dýrum, til að mynda hundum. Algengast er að gefa ivermectin í töfluformi um munn og aukaverkanir eru að jafnaði sáralitlar.[1] Ivermectin er meðal annars kjörmeðferð gegn litlum ormi sem nefnist Strongyloides stercoralis. Þessi ormur finnst víða um heim og veldur langvinnum sýkingum í meltingarvegi manna, en þegar sýktir einstaklingar eru meðhöndlaðir með sterum geta alvarlegar sýkingar komið fram, eins og farið verður nánar út í á eftir.
Nýlega hefur ivermectin fengið aukna athygli sem möguleg meðferð gegn COVID-19 (sem orsakast af veirunni SARS-CoV-2). Það er meðal annars byggt á niðurstöðum nýlegra rannsókna sem benda hugsanlega til gagnsemi þess. Enn fremur hefur notkun á ivermectin í sjúklingu með COVID-19 aukist verulega á síðustu mánuðum, gjarnan án samþykkis til slíkrar notkunar.[2] Um langa hríð hefur einnig verið talsverður áhugi á ivermectin fyrir hugsanlega virkni gegn bakteríum, veirum og meðal annars krabbameinum, þó það vanti fleiri og stærri rannsóknir til að geta sagt nákvæmlega til um hvort virkni sé raunverulega til staðar.[3]
Mikilvægt er að hafa í huga þann vísindalega bakgrunn sem nú liggur fyrir um meðferðir gegn COVID-19. Þrátt fyrir hundruð rannsókna um allan heim hefur fátt reynst gagnast sem lyfjameðferð gegn COVID-19 - ljóst er að barksterameðferð (til dæmis meðferð með barksteranum dexametasón) getur gagnast hjá vissum hópi sjúklinga með COVID-19. Aðrar meðferðir hafa, í besta falli, mögulega jákvæða verkun í ákveðnum undirhópum við vissar aðstæður.
Lyfið ivermectin er sýkingarlyf með margþætta gagnsemi. Það er notað um heim allan gegn margvíslegum ormasýkingum og sníkjudýrum. Nýlegar rannsóknir um gagnsemi ivermectin gegn COVID-19 eru gjarnan settar fram á þann veg að árangur sé ótvíræður. Engin rannsókn hefur hins vegar til þessa leiðrétt fyrir líkum á fyrirliggjandi sníkjudýrasýkingu, hjá sjúklingum sem eru meðhöndlaðir með lyfinu gegn COVID-19. Þetta á sérstaklega við um sýkingu með þráðorminum Strongyloides stercoralis sem sést hér á myndinni.
Í ljósi þessa væri kjörið að geta notast við ódýra, einfalda meðferð sem við þekkjum vel til að glíma við COVID-19. Því miður reyndist það ekki eiga við um lyfið hýdroxíklórókín, en hvað segja gögnin okkur um ivermectin? Þó rannsóknir um ivermectin og COVID-19 séu gjarnan settar fram á þann veg að árangur sé ótvíræður er það einfaldlega ekki rétt - fjöldi annmarka er til staðar á þeim rannsóknum sem liggja fyrir og þörf er á stærri og ítarlegri rannsóknum áður en hægt er að staðfesta með vissu árangur ivermectin gegn COVID-19. Í sérstöku svari á Vísindavefnum við spurningunni Hvaða rannsóknir hafa verið gerðar á gagnsemi lyfsins ivermectin við COVID-19 og hvað hafa þær leitt í ljós? er nánari greining á þeim rannsóknum sem hingað til hafa verið framkvæmdar. Við bendum lesendum sem vilja kynna sér efnið vel að lesa það svar einnig.
Niðurstaða
Ýmsir heilbrigðisstarfsmenn víða um heim hafa hvatt til notkunar á ivermectin til varnar og meðferðar í tengslum við COVID-19, með vísun í fyrrnefndar rannsóknir[4] - hins vegar skortir gagnrýni á aðferðafræði rannsóknanna, forsendur þeirra og hversu erfitt er að túlka niðurstöðurnar sem koma frá þeim. Stundum er vísað í rannsóknir til stuðnings sem raunverulega sýna ekki marktækan mun milli hópa[5] eða eru of litlar.[6]
Einnig er ein breyta sem engin rannsókn til þessa hefur leiðrétt fyrir - líkur á fyrirliggjandi sníkjudýrasýkingu. Þetta á sérstaklega við um sýkingu með þráðorminum Strongyloides stercoralis, sem finnst víða um heim og er verulega vangreindur. Algengi sýkinga með þessum þráðormi er breytilegt eftir löndum - í rannsókn Schär og félaga[7] var þetta mjög áberandi, með algengi sem náði frá 0,3% í Íran til 94,9% í Ísrael. Sömu tölur fyrir Indland og Bangladess voru 6,6% og 29,8%, hvor um sig. Ormurinn sýkir meltingarveg og veldur gjarnan langvinnum sýkingum til margra ára. Þó hann sé oftast staðsettur einungis innan meltingarvegar til lengri tíma geta lirfur ormsins farið úr meltingarveginum og yfir í önnur líffæri, og geta þannig valdið alvarlegum sýkingum. Þetta á sérstaklega við um ónæmisbælda einstaklinga; þá verður ónæmisbælingin til þess að langvinn, einkennalítil sýking breytist yfir í mun hættulegra ástand.
Algengasta orsök ónæmisbælingar sem getur hleypt af stað útbreiddri, alvarlegri sýkingu með Strongyloides stercoralis er meðferð með háum skömmtum af barksterum, sem er meðal annars liður í meðferð gegn miðlungsalvarlegum og alvarlegum tilfellum COVID-19. Slíkar kerfisbundnar sýkingar geta valdið lungnabólgum, rofi á meltingarvegi, sýklasótt (e. sepsis) og heilahimnubólgu, með dánarhlutfall sem getur náð upp í 90%. Með réttum aðferðum er áreiðanlega hægt að greina sýkingar af völdum Strongyloides stercoralis. Kjörmeðferð gegn Strongyloides stercoralis er, merkilegt nokk, stakur skammtur af ivermectin. Þannig ættu allar rannsóknir sem meta virkni ivermectin gegn COVID-19 (í löndum þar sem þessi þráðormur er landlægur) að huga að þessum möguleika áður en hægt er að segja til um gagnsemi ivermectin gegn COVID-19 sérstaklega. Hins vegar bendir þetta til þess að notkun ivermectin væri réttlætanleg ef grunur er um undirliggjandi sýkingu með Strongyloides stercoralis, sérstaklega ef verið er að hefja meðferð með barksterum.[8]
Af öllu ofangreindu ætti að vera ljóst að áfram er talsverð óvissa til staðar í umræðunni um ivermectin og COVID-19. Óháð því hvort ivermectin reynist virka eða ekki í sjúklingum með COVID-19 mun bólusetning vera nauðsynlegur liður í viðbragði okkar gegn þessum heimsfaraldri. Hins vegar getur núverandi framboð af bóluefni ekki mætt þeirri gífurlegri eftirspurn sem er til staðar um allan heim – þannig myndi árangursrík, örugg meðferð gagnast verulega í að takmarka þann skaða sem COVID-19 getur valdið. Ef ivermectin uppfyllti þau skilyrði væri það ómetanleg viðbót samhliða bólusetningum og samfélagslegum inngripum. Því miður skortir okkur gögnin til að segja til um slíkt en vonandi verður ráðin bót á því á næstu mánuðum.
Tilvísanir:
Höfundur þakkar Ingibjörgu Hilmarsdóttur, sérfræðilækni í sýkla- og veirufræði og Vigdísi Víglundsdóttir lífeindafræðingi, fyrir yfirlestur og gagnlegar athugasemdir.
Mynd:
Jón Magnús Jóhannesson. „Gæti gamalt lyf við sníkjudýrum gagnast gegn COVID-19?“ Vísindavefurinn, 19. janúar 2021, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=80949.
Jón Magnús Jóhannesson. (2021, 19. janúar). Gæti gamalt lyf við sníkjudýrum gagnast gegn COVID-19? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=80949
Jón Magnús Jóhannesson. „Gæti gamalt lyf við sníkjudýrum gagnast gegn COVID-19?“ Vísindavefurinn. 19. jan. 2021. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=80949>.