
Lyfið ivermectin er sýkingarlyf með margþætta gagnsemi. Það er notað um heim allan gegn margvíslegum ormasýkingum og sníkjudýrum. Nýlegar rannsóknir um gagnsemi ivermectin gegn COVID-19 eru gjarnan settar fram á þann veg að árangur sé ótvíræður. Engin rannsókn hefur hins vegar til þessa leiðrétt fyrir líkum á fyrirliggjandi sníkjudýrasýkingu, hjá sjúklingum sem eru meðhöndlaðir með lyfinu gegn COVID-19. Þetta á sérstaklega við um sýkingu með þráðorminum Strongyloides stercoralis sem sést hér á myndinni.
Niðurstaða
Ýmsir heilbrigðisstarfsmenn víða um heim hafa hvatt til notkunar á ivermectin til varnar og meðferðar í tengslum við COVID-19, með vísun í fyrrnefndar rannsóknir[4] - hins vegar skortir gagnrýni á aðferðafræði rannsóknanna, forsendur þeirra og hversu erfitt er að túlka niðurstöðurnar sem koma frá þeim. Stundum er vísað í rannsóknir til stuðnings sem raunverulega sýna ekki marktækan mun milli hópa[5] eða eru of litlar.[6] Einnig er ein breyta sem engin rannsókn til þessa hefur leiðrétt fyrir - líkur á fyrirliggjandi sníkjudýrasýkingu. Þetta á sérstaklega við um sýkingu með þráðorminum Strongyloides stercoralis, sem finnst víða um heim og er verulega vangreindur. Algengi sýkinga með þessum þráðormi er breytilegt eftir löndum - í rannsókn Schär og félaga[7] var þetta mjög áberandi, með algengi sem náði frá 0,3% í Íran til 94,9% í Ísrael. Sömu tölur fyrir Indland og Bangladess voru 6,6% og 29,8%, hvor um sig. Ormurinn sýkir meltingarveg og veldur gjarnan langvinnum sýkingum til margra ára. Þó hann sé oftast staðsettur einungis innan meltingarvegar til lengri tíma geta lirfur ormsins farið úr meltingarveginum og yfir í önnur líffæri, og geta þannig valdið alvarlegum sýkingum. Þetta á sérstaklega við um ónæmisbælda einstaklinga; þá verður ónæmisbælingin til þess að langvinn, einkennalítil sýking breytist yfir í mun hættulegra ástand. Algengasta orsök ónæmisbælingar sem getur hleypt af stað útbreiddri, alvarlegri sýkingu með Strongyloides stercoralis er meðferð með háum skömmtum af barksterum, sem er meðal annars liður í meðferð gegn miðlungsalvarlegum og alvarlegum tilfellum COVID-19. Slíkar kerfisbundnar sýkingar geta valdið lungnabólgum, rofi á meltingarvegi, sýklasótt (e. sepsis) og heilahimnubólgu, með dánarhlutfall sem getur náð upp í 90%. Með réttum aðferðum er áreiðanlega hægt að greina sýkingar af völdum Strongyloides stercoralis. Kjörmeðferð gegn Strongyloides stercoralis er, merkilegt nokk, stakur skammtur af ivermectin. Þannig ættu allar rannsóknir sem meta virkni ivermectin gegn COVID-19 (í löndum þar sem þessi þráðormur er landlægur) að huga að þessum möguleika áður en hægt er að segja til um gagnsemi ivermectin gegn COVID-19 sérstaklega. Hins vegar bendir þetta til þess að notkun ivermectin væri réttlætanleg ef grunur er um undirliggjandi sýkingu með Strongyloides stercoralis, sérstaklega ef verið er að hefja meðferð með barksterum.[8] Af öllu ofangreindu ætti að vera ljóst að áfram er talsverð óvissa til staðar í umræðunni um ivermectin og COVID-19. Óháð því hvort ivermectin reynist virka eða ekki í sjúklingum með COVID-19 mun bólusetning vera nauðsynlegur liður í viðbragði okkar gegn þessum heimsfaraldri. Hins vegar getur núverandi framboð af bóluefni ekki mætt þeirri gífurlegri eftirspurn sem er til staðar um allan heim – þannig myndi árangursrík, örugg meðferð gagnast verulega í að takmarka þann skaða sem COVID-19 getur valdið. Ef ivermectin uppfyllti þau skilyrði væri það ómetanleg viðbót samhliða bólusetningum og samfélagslegum inngripum. Því miður skortir okkur gögnin til að segja til um slíkt en vonandi verður ráðin bót á því á næstu mánuðum. Tilvísanir:- ^ Sjá heimild 3, 5, 6 og 14.
- ^ Sjá heimild 1 og 2.
- ^ Sjá heimild 30.
- ^ Sjá heimild 4.
- ^ Sjá heimild 26.
- ^ Sjá heimild 27.
- ^ Sjá heimild 28.
- ^ Sjá heimild 28-29.
- File:Strongyloides stercoralis.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 15.01.2021). Myndin er eftir notandann Blueiridium og hún er birt undir leyfinu Creative Commons — Attribution-ShareAlike 3.0 Unported — CC BY-SA 3.0.
- FLCCC Alliance. Ivermectin. (Sótt 14.1.2021).
- TratamientoTemprano. Tratamiento Temprano Covid-19. (Sótt 14.1.2021).
- Heidary, F. & Gharebaghi, R. (2020). Ivermectin: a systematic review from antiviral effects to COVID-19 complementary regimen. J Antibiot 73, 593–602. (Sótt 14.1.2021).
- Kory, P. o.fl. (2020, 13. nóvember). Review of the Emerging Evidence Demonstrating the Efficacy of Ivermectin in the Prophylaxis and Treatment of COVID-19. (Sótt 14.1.2021).
- National Institutes of Health. Ivermectin. (Sótt 14.1.2021).
- Omura, S. & Crump, A. (2014). Ivermectin: panacea for resource-poor communities? Trends in parasitology, 30(9), 445–455. (Sótt 14.1.2021).
- Caly L. o.fl. (2020). The FDA-approved drug ivermectin inhibits the replication of SARS-CoV-2 in vitro. Antiviral research, 178:104787. (Sótt 14.1.2021).
- Schmith, V. D, Zhou, J. & Lohmer, L. R. L. (2020, 7. maí). The Approved Dose of Ivermectin Alone is not the Ideal Dose for the Treatment of COVID-19. Clinical pharmacology & therapeutics. (Sótt 14.1.2021).
- Jermain, B. o.fl. (2020). Development of a Minimal Physiologically-Based Pharmacokinetic Model to Simulate Lung Exposure in Humans Following Oral Administration of Ivermectin for COVID-19 Drug Repurposing. Journal of Pharmaceutical Sciences, 109(12), 3574-3578. (Sótt 14.1.2021).
- Momekov G. & Momekova D. (2020). Ivermectin as a potential COVID-19 treatment from the pharmacokinetic point of view: antiviral levels are not likely attainable with known dosing regimens. Biotechnology & biotechnological Equipment, 34:1, 469-474. (Sótt 14.1.2021).
- Chaccour, C. o.fl. (2020). Ivermectin and COVID-19: Keeping Rigor in Times of Urgency. The American journal of tropical medicine and hygiene, 102(6), 1156–1157. (Sótt 14.1.2021).
- Arshad, U. o.fl. (2020). Prioritization of Anti-SARS-Cov-2 Drug Repurposing Opportunities Based on Plasma and Target Site Concentrations Derived from their Established Human Pharmacokinetics. Clinical pharmacology and therapeutics, 108(4), 775–790. (Sótt 14.1.2021).
- Bray, M. o.fl. (2020). Ivermectin and COVID-19: A report in Antiviral Research, widespread interest, an FDA warning, two letters to the editor and the authors' responses. Antiviral research, 178, 104805. (Sótt 14.1.2021).
- Guzzo, C. A. o.fl. (2002). Safety, tolerability, and pharmacokinetics of escalating high doses of ivermectin in healthy adult subjects. Journal of clinical pharmacology, 42(10), 1122–1133. (Sótt 14.1.2021).
- de Melo, G. D. o.fl. (2020, 22. nóvember). Anti-COVID-19 efficacy of ivermectin in the golden hamster. bioRxiv. (Sótt 14.1.2021).
- Rajter, J. C. o.fl. (2021). Use of Ivermectin Is Associated With Lower Mortality in Hospitalized Patients With Coronavirus Disease 2019: The Ivermectin in COVID Nineteen Study. Chest, 159(1), 85-92. (Sótt 14.1.2021).
- Behera, P. o.fl. (2020, 3. nóvember). Role of ivermectin in the prevention of COVID-19 infection among healthcare workers in India: A matched case-control study. medRxiv. (Sótt 14.1.2021).
- Elgazzar, A. o.fl. (2020, 28. desember). Efficacy and Safety of Ivermectin for Treatment and prophylaxis of COVID-19 Pandemic. Research Square. (Sótt 14.1.2021).
- Chowdhury, A. T. o.fl. (2020, 14. júlí). A Randomized Trial of Ivermectin-Doxycycline and Hydroxychloroquine-Azithromycin therapy on COVID19 patients. Research Square. (Sótt 14.1.2021).
- Hashim, H. A. o.fl. (2020, 27. október). Controlled randomized clinical trial on using Ivermectin with Doxycycline for treating COVID-19 patients in Baghdad, Iraq. medRxiv. (Sótt 14.1.2021).
- Niaee, M. S. o.fl. (2020, 24. nóvember). Ivermectin as an adjunct treatment for hospitalized adult COVID-19 patients: A randomized multi-center clinical trial. Research Square. (Sótt 14.1.2021).
- Spoorthi, V. & Sasank, S. (2020). Utility of Ivermectin and Doxycycline combination for the treatment of SARSCoV-2. International Archives of Integrated Medicine, 7(10), 177-182. (Sótt 14.1.2021).
- Ahmed, S. o.fl. (2020, 2. desember). A five-day course of ivermectin for the treatment of COVID-19 may reduce the duration of illness. Intermational Journal of Infectious Diseases. (Sótt 14.1.2021).
- ClinicalTrials.gov. (2020, 27. ágúst). Prophylactic Ivermectin in COVID-19 Contacts. (Sótt 14.1.2021).
- ClinicalTrials.gov. (2020, 9. október). Clinical Trial of Ivermectin Plus Doxycycline for the Treatment of Confirmed Covid-19 Infection. (Sótt 14.1.2021).
- Podder, C. S. o.fl. (2020). Outcome of ivermectin treated mild to moderate COVID-19 cases: a single-centre, open-label, randomised controlled study. IMC Journal of Medical Science, 14(2). (Sótt 14.1.2021).
- Chaccour, C. o.fl. (2020, 7. desember). The effect of early treatment with ivermectin on viral load, symptoms and humoral response in patients with mild COVID-19: a pilot, double-blind, placebo-controlled, randomized clinical trial. Research Square. (Sótt 14.1.2021).
- Schär, F. o.fl. (2020). Strongyloides stercoralis: Global Distribution and Risk Factors. PLoS Neglected Tropical Diseases, 7(7): e2288. (Sótt 14.1.2021).
- Centers for Disease Control and Prevention. Resources for Health Professionals. (Sótt 14.1.2021).
- Crump, A. (2017, 15. febrúar). Ivermectin: enigmatic multifaceted ‘wonder’ drug continues to surprise and exceed expectations. The Journal of Antibiotics, 70, 495-505. (Sótt 25.01.2021).