Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvað þýða dauð atkvæði í kosningum? Hvaða áhrif hafa dauð atkvæði á kosningaúrslit? Græða einhverjir flokkar á dauðum atkvæðum?
Hugtakið dauð atkvæði (e. wasted votes) er venjulega notað um þau atkvæði sem falla á flokka eða framboð sem ekki fá neina fulltrúa kjörna til þings eða annarra fulltrúasamkundna. Víðari skilgreining nær einnig til umframatkvæða flokka sem fá fulltrúa kjörna – atkvæða sem ekki eru beinlínis nauðsynleg til þess að tryggja flokki þá fulltrúa sem hann fær. Hér er fjallað um dauð atkvæði í fyrri merkingunni.
Á Íslandi hefur fjöldi dauðra atkvæða á landsvísu oftast verið lítill í þingkosningum síðustu 90 ár.
Í hlutfallskosningum (e. proportional representation) er fjöldi dauðra atkvæða jafnan miklu minni en í einföldum meirihlutakosningum (e. simple majority eða first-past-the-post). Í hlutfallskerfum skiptir miklu hversu hár þröskuldur er notaður við úthlutun jöfnunarsæta. Á Íslandi er þessi þröskuldur til dæmis 5% á landsvísu, í Noregi og Svíþjóð 4% og í Danmörku 2%. Í Hollandi er enginn formlegur þröskuldur, en 150 þingsætum er úthlutað samkvæmt úrslitum á landsvísu. Raunverulegur þröskuldur þar er þannig 0,67%. Sú atkvæðatala nægir flokki til að hljóta þingsæti. Að öðru jöfnu fækkar dauðum atkvæðum með lægri þröskuldi.
Á Íslandi hefur fjöldi dauðra atkvæða á landsvísu oftast verið lítill í þingkosningum síðustu 90 ár. Á árunum 1931-2017 fóru fram 29 alþingiskosningar. Í 13 skipti voru dauð atkvæði innan við 2%, í átta skipti 2-4%, í sex skipti 4-6% og tvisvar yfir 6%. Í 93% tilvika voru dauð atkvæði þannig innan við 6%, í 72% tilvika innan við 4% og í 45% tilvika innan við 2%.
Í kosningunum 2013 voru dauð atkvæði tæp 12%. Þá buðu 15 flokkar fram. Níu þeirra náðu ekki 5%-þröskuldnum á landsvísu, sem er skilyrði fyrir því að hljóta jöfnunarsæti. Þeir fengu því engan þingmann.
Í kosningunum 1933 voru dauðu atkvæðin tæplega 8%. Þetta voru síðustu kosningarnar áður en jöfnunarsæti (uppbótarsæti) voru tekin upp. Jöfnunarsæti auka möguleika lítilla flokka á því að fá þingmenn.
Séu dauð atkvæði mörg hagnast þeir flokkar sem ná inn á þing – í svipuðum mæli séu jöfnunarsæti nógu mörg til að jafna milli þingflokka (eins og þau voru 1987-2009, en ekki 2013, 2016 og 2017 þegar Framsóknarflokkur eða Sjálfstæðisflokkur fengu einum manni of mikið í hvert skipti). Séu engin atkvæði dauð þarf um 50% atkvæða til þess að fá meirihluta þingmanna. Séu dauð atkvæði hins vegar 12% – eins og 2013 – duga um 44% atkvæða til að hljóta meirihluta þingmanna. Eftir kosningarnar 2013 mynduðu Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur ríkisstjórn. Samanlagt fengu þeir 51% atkvæða en 60% þingsæta – vegna dauðu atkvæðanna.
Í einföldum meirihlutakosningum (til dæmis í Bretlandi og Bandaríkjunum) er fjöldi dauðra atkvæða mjög mikill. Hvert kjördæmi kýs einn þingmann – þann sem flest atkvæði fær. Öll atkvæði sem aðrir flokkar fá í kjördæminu eru dauð. Í Bretlandi dugar oft að fá um 40% atkvæða til þess að vinna í kjördæmi. Í slíku tilviki eru 60% atkvæðanna dauð – 3/5 kjósenda fá engan fulltrúa á þing.
Séu engin atkvæði dauð þarf um 50% atkvæða til þess að fá meirihluta þingmanna. Myndin er úr seinni atkvæðagreiðslu í forsetakosningum Frakklands 2017 og tengist ekki efni svarsins.
Í einmenningskjördæmakerfum er hægt að auka fjölda dauðra atkvæða tiltekins flokks í kjördæmi með því að draga kjördæmamörk á hlutdrægan hátt (e. gerrymandering). Sá sem ákveður kjördæmamörkin í tveggja flokka kerfi getur búið til mörg kjördæmi þar sem hans flokkur vinnur með tiltölulega litlum meirihluta og færri kjördæmi þar sem andstæðingurinn vinnur með miklum meirihluta. Í slíku kerfi fengi fyrrnefndi flokkurinn meirihluta á þingi þó andstæðingurinn fengi jafn mörg eða jafnvel fleiri atkvæði á landsvísu.
Í Bretlandi og Bandaríkjunum er mörkum kjördæma í kosningum til Neðri málstofunnar og Fulltrúadeildarinnar breytt með reglubundnum hætti í samræmi við fólksfjöldaþróun. Í Bandaríkjunum ræður meirihlutaflokkur í fylki nýjum kjördæmamörkum. Þar eru fjölmörg dæmi um pólitíska misnotkun til þess að hygla eigin flokki. Í Bretlandi er breyting kjördæmamarka hins vegar fagleg.
Myndir:
Ólafur Þ. Harðarson. „Hvað eru dauð atkvæði og hafa þau einhver áhrif á úrslit kosninga?“ Vísindavefurinn, 26. mars 2021, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=80917.
Ólafur Þ. Harðarson. (2021, 26. mars). Hvað eru dauð atkvæði og hafa þau einhver áhrif á úrslit kosninga? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=80917
Ólafur Þ. Harðarson. „Hvað eru dauð atkvæði og hafa þau einhver áhrif á úrslit kosninga?“ Vísindavefurinn. 26. mar. 2021. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=80917>.