Hver er meðalævilengd hagamúsar? Hvað lifir húsamús lengi?Hagamýs (Apodemus sylvaticus) lifa yfirleitt ekki lengur en eitt ár og margar lifa styttra. Hagamýs tímgast bara yfir hlýjustu mánuði ársins. Meðgöngutíminn er breytilegur eftir aðstæðum en er oft um þrjár vikur. Ungarnir hætta á spena 18-22 daga gamlir og getur ný meðganga hafist á meðan kvendýrið er enn með unga á spena. Það geta því verið fleiri en eitt got yfir sumarið. Fyrstu músaungar fara að sjást í maí á svæðum þar sem veður er mildara en annars í júní. Ungar sem fæðast að vori geta orðið kynþroska síðla sumars og þá tekið þátt í að viðhalda stofninum. Veturinn reynist mörgum hagamúsum erfiður og eru lífslíkur þeirra lágar. Þær mýs sem komast af taka til við að fjölga sér þegar vorar á ný en ekki þarf að gera ráð fyrir að þær lifi af annan vetur.
- Hagamús. Náttúrufræðistofnun Íslands.
- Wood mouse (field mouse). Woodland Trust.
- iNaturalist © suffolk_jim. Birt undir CC BY-NC 4.0 DEED leyfi. (Sótt 14.5.2024).