Hagamúsin heldur til í holum og þar hefur hún hreiður til að ala upp unga sína og forðabúr. Annað hvort grefur hún sjálf holur í brekkur, bakka eða þúfur eða kemur sér fyrir undir steinum. Helsta fæða hagamúsa hérlendis eru einkum grasfræ, ber og fræ ýmissa blóma. Hagamúsin étur líka öll þau smádýr sem hún kemst í tæri við og hræ. Hún er mest á ferli á næturnar. Helstu óvinir hagamúsarinnar eru refir og minkar. Ránfuglar eins og smyrill, fálki, brandugla og kjói veiða einnig töluvert af músum. Auk þess veiða kettir mikið af hagamúsum í grennd við heimili. Hagamýs geta valdið talsverðum skemmdum í híbýlum manna, meðal annars skemma þær matvæli og víða í Evrópu eyðileggja þær tómata-, blómlauks- og matbaunarækt. Skemmdir sem hagamýs valda eru þó frekar litlar. Margir náttúruskoðendur hafa velt því fyrir sér hvernig best sé að greina í sundur húsa- og hagamýs. Fyrir utan litinn - en hagamýs hafa ljósari kvið - eru hagamýs með stærri augu og frammjórra trýni. Öruggasta leiðin er þó að greina þær á framtönnunum. Húsamúsin hefur hak upp í slitflöt á framtönnum í efri skolti en hagamúsin er ekki með slíkt hak. Mynd og heimildir
- Páll Hersteinsson og Guttormur Sigbjarnarson (ritstj.), Villt íslensk spendýr, Hið íslenska náttúrufræðifélag, Reykjavík, 1993.
- Norsk Zoologisk Forening
- The Mammal Society
- Apodemus sylvaticus 03 by-dpc.jpg - Wikimedia Commons. Höfundur myndar: David Perez. Birt undir Attribution 3.0 Unported (CC BY 3.0) leyfi. (Sótt 27.3.2023).