Er í alvörunni leyfilegt að keyra á 5 km hraða þar sem hámarkshraði er 30 eða 50 og stífla alla götuna? Gilda engin umferðarlög um það?Í 3. málsgrein 36. greinar hinna nýju umferðarlaga nr. 77/2019 segir þetta um hægan akstur að óþörfu og snögghemlun:
Ökumaður má eigi að óþörfu aka svo hægt eða hemla svo snögglega að tefji eðlilegan akstur annarra eða skapi hættu.Refsing við þessu lagabroti er tilgreind í reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum. Sektin er 20.000 kr. en 25% afsláttur veittur ef ökumaður greiðir sektina innan 30 daga. Ekki hefur ennþá reynt á þessa tilteknu réttarreglu fyrir dómstólum og rétt er að hafa í huga að ýmsar ástæður geta verið fyrir því að ökumenn keyri stundum langt undir hámarkshraða. Í þessu samhengi má einnig benda á athyglisverðan dóm Hæstaréttar nr. 298/2012. Þar var maður sakfelldur fyrir líkamsárás eftir að hafa ráðist á bílstjóra bifreiðar sem hann keyrði aftan á. Hinn sakfelldi bar fyrir sig að hinn ökumaðurinn hefði keyrt allt of hægt á vinstri akrein og gert sér að leik að tipla á helmunum fyrir framan ákærða. Þess vegna fór sá sakfelldi út úr bíl sínum og réðst á brotaþola. Héraðsdómur sagði í því máli: „Aksturslag brotaþola getur ekki réttlætt árás ákærða“. Þrátt fyrir hina nýju réttarreglu í 3. málsgrein 36. greinar yrði niðurstaðan líklega sú sama í dag. Heimildir og mynd:
- Hæstiréttur – Mál nr. 298/2012. (Sótt 15.01.2021).
- Alþingi - Frumvarp til umferðarlaga nr. 50/1987. (Sótt 21.10.2020 ).
- Alþingi - Frumvarp til umferðarlaga nr. 77/2019. (Sótt 21.10.2020).
- Ducks Crossing Road - Wilmington, North Carolina. (Sótt 15.01.2021). Myndina tók notandinn jshyun og hún er birt undir leyfinu BY-NC-ND 2.0.
- Reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim nr. 1240/2019. (Sótt 21.10.2020).