Hvers vegna krumpast lokaða plastflaskan saman (líkist lofttæmingu) ef hún stendur tóm í ísskápnum en ekki ef ég set þó ekki væri nema smávegis vökva í hana (né heldur ef smá op er á henni)?Svarið hefur með þéttingu lofts að gera þegar það er kælt niður. Loftið í kringum okkur er afar gljúpt, það er sameindir í loftinu taka hlutfallslega lítið pláss og megnið af rýminu inniheldur því ekkert efni. Vegna þessa er hægt að þétta loft gríðarlega mikið, það er að segja færa sameindirnar nær hver annarri og minnka þannig rúmmál loftsins. Þegar gas/loft er hitað eykst hreyfiorka sameindanna og þær rekast oftar og harðar á aðrar sameindir. Ef loftið er í lokuðu íláti mun þrýstingurinn í ílátinu aukast og það mun þenjast út (ef það getur, til dæmis ef um blöðru er að ræða) þar til þrýstingurinn inni í ílátinu er jafn mikill og fyrir utan eða þar til ílátið getur ekki þanist meira út. Þessu er öfugt farið þegar gas er kælt, þá minnkar hreyfiorka sameindanna, þrýstingurinn inni í ílátinu minnkar og það dregst saman (ef eiginleikar ílátsins bjóða upp á það) þar til þrýstingurinn er jafn mikill og fyrir utan ílátið eða þar til það getur ekki dregist meira saman.
- Gaslögmálið - Efnafræði.is. (Sótt 16.3.2022).
- Mynd: EDS.