Í pönnukökur er tekinn rjómi eður góð mjólk, saman við hana vel hrærð fáein egg, eður í þeirra stað lítið eitt af broddmjólk, og þar ofan í sigtað hveiti og jafnóðt með sleif samanhrært, uns orðið, er sem þunnur vellingur; þá er enn saman við hrært, ef til er, lítið af smá steyttum Cardemommun, nockuð af þvegnum Kórennum, síðan velgd steikara-panna yfir eldi, rjóðruð vel innan með smjöri, deigið vel upphrært og af því í senn tekin ein væn mat-sleif með Kórennum nockrum í, og dreift yfir pönnu-botninn, pönnunni svo alla vega tilhallað að það um allan botninn saman-renni og verði ecki mjög þunnt.[1]Þessi lýsing passar ekki alveg við pönnukökuuppeldi höfundar þessa svars, fyrir tæplega hálfri öld. Þá var aðalmálið að ná pönnukökunni sem næfurþynnstri án þess að hún rifnaði. Þetta er kúnst sem sumir vilja kalla „íslenska.“ Hins vegar er ekkert séríslenskt við pönnukökurnar sjálfar. Steiktar eggja– og mjölkökur, þunnar eða þykkar eru og hafa verið á hverju strái í okkar menningarheimi frá fornu fari. Þær eru til sætar og ósætar, fylltar með alls kyns fyllingum, tómar, sykraðar, stórar og smáar. Eitt enn mætti ef til vill setja undir hatt „íslensku“ pönnukökunnar, nefnilega stærðin á pönnukökupönnunni, sem er 21 - 25 cm í þvermál með lágum kanti. Það er á almanna vitorði að pannan er alfa og ómega í bakstrinum. Það má alls ekki þvo hana og alls ekki spæla á henni egg.
- ^ Einfalt matreiðsluvasakver - Bækur.is. (Sótt 8.09.2020).
- Mynd af pönnukökum: Sólveig Ólafsdóttir.
- Fyrsta útrásin endaði með hörmungum | RÚV. (Sótt 8.09.2020). Mynd: Þorsteinn J.
Hvað getur þú sagt mér um íslenskar pönnukökur?