Með því að stökkva ítrekað upp í lyftu er hins vegar hægt að koma lyftunni á sveifluhreyfingu. Þá er lyftan „léttust“ (togkraftur í köplum minnstur) þegar hún er efst í sveiflu og „þyngst“ þegar þegar hún er neðst í sveiflunni. Það er þess vegna ekki ráðlegt að hoppa i í lyftu, sérstaklega ef hún er full. Lesendur geta auðveldlega sannfærst um þau áhrif sem hér hefur verið lýst með því að stíga á vog. Krafturinn sem vogin mælir er að miklu leyti hliðstæður kraftinum í köplum lyftunnar. Þess vegna breytist aflesturinn ef stokkið er upp af voginni. Svoleiðis æfingar fara þó heldur illa með vogir og þess vegna mælum við hér á Vísindavefnum ekki með iðkun þeirra, enda dugir í rauninni að spyrna léttilega í vogina. Fróðlegt er að bera þetta saman við svar Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Ef fluga er á mælaborði flugvélar og flýgur svo á loft, léttist flugvélin þá sem nemur þyngd flugunnar? Munurinn á þessum tveimur tilvikum er tvenns konar. Í fyrsta lagi er flugan svo miklu léttari en flugvélin að áhrif hennar á flugvélarskrokkinn eru hverfandi, en áhrif farþegans á lyftuna þurfa ekki að vera það, til dæmis ef farþeginn spyrnir hraustlega í gólfið. Í öðru lagi er flugan gædd þeim hæfileika að geta flogið um án afláts, það er að segja látið loftið í flugvélinni halda sér uppi. Flug hennar er ekki tímabundið og flugvélin „léttist“ ekki á meðan, né heldur kemur fram nein sveifla í lóðréttri hreyfingu hennar. Farþeginn í lyftunni getur hins vegar ekki látið loftið halda sér uppi, stökk hans tekur stutta stund og tiltæki hans veldur sveiflum í sýndarþyngd lyftunnar. Að lokum er rétt að árétta að maður getur ekki skapað viðbótarkraft til lengdar á kyrrstætt gólf með því að þrýsta á það af eigin rammleik; hann getur aðeins valdið tímabundnum sveiflum í kraftinum, sem verður hins vegar að meðaltali jafn þyngd mannsins. Mynd:
- Wikimedia Commons. Sótt 5. 8. 2011.