Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Á Vísindavefnum hefur áður verið fjallað sérstaklega um andlitsgrímur og COVID-19 og bendum við lesendum á að lesa fyrst svar við spurningunni Hafa rannsóknir sýnt að andlitsgrímur komi í veg fyrir að fólk smitist af COVID-19?
Í kjölfarið vaknar auðvitað spurningin: hvað með taugrímur? Í stuttu máli vitum við að taugrímur virka ekki eins vel og skurðgrímur eða veirugrímur. Hins vegar geta þær verið betra en ekki neitt ef aðstæður leyfa ekki annað.
Fyrst er rétt að skilgreina taugrímur og útskýra muninn á þeim og hefðbundnum skurðgrímum og veirugrímum. Taugrímur eru einfaldlega fjölnota grímur gerðar úr hverskonar taui, gjarnan bómull. Skurðgrímur eru hins vegar einnota grímur hugsaðar sérstaklega fyrir notkun í heilbrigðiskerfinu. Veirugrímur eru síðan fínagnagrímur, gjarnan með ventli, sem eru aðallega notaðar í byggingariðnaði og í heilbrigðiskerfinu í vissum sýkingarvörnum.
Taugrímur hafa náð að festa sig í sessi víða í Asíu, enda saga um skæða faraldra öndunarfærasýkinga í álfunni.
Notkun taugríma á sér langa sögu bæði innan og utan heilbrigðiskerfisins. Þær hafa náð að festa sig í sessi víða í Asíu, enda saga um skæða faraldra öndunarfærasýkinga í álfunni. Því hafa taugrímur nú þegar verið rannsakaðar í einhverjum mæli, þó lítið sé. Fyrsta slembiraðaða rannsóknin sem bar saman skurðgrímur og taugrímur var framkvæmd árið 2015. Í þeirri rannsókn var heilbrigðisstarfsfólki skipt í þrjá hópa: þeir sem notuðu taugrímur öllum stundum, þeir sem notuðu skurðgrímur alltaf og þeir sem stundum notuðu grímur. Sú rannsókn sýndi með mjög sannfærandi hætti að skurðgrímur veita mun meiri vernd gegn öndunarfærasýkingum en taugrímur. Erfiðara var þó að meta hvort taugrímur gerðu meira gagn en engin gríma, eða hvort þær ollu mögulega meiri skaða. Hafa ber í huga að sjúkdómurinn COVID-19 var að sjálfsögðu ekki til á þeim tíma og hver veira hefur sína sérstæðu dreifingareiginleika. Langalgengasta veiran sem barst á milli manna í þessari rannsókn var rhinoveira - sem er almenn kvefveira og afar smitandi, en hún dreifist líklegast betur með minni dropum og úða en aðrar kvefveirur.
Einungis ein gerð taugríma var notuð í ofangreindri rannsókn - tveggja laga gríma úr bómull. Gagnsemi taugríma er því mismikil eftir gerð þeirra. Skurðgrímur eru oftast þriggja-laga með tveimur taulögum og milli þeirra lag af þéttri, bræddri fjölliðu (oftast polypropylene og skyld efni). Í eðli sínu samanstanda taugrímur einungis af taulögum. Þannig geta nokkrir þættir haft áhrif á gagnsemi taugríma:
Efnið sem notað er
Til að gera gagn þarf tau að draga í sig dropa og sía þá út - þannig komast þeir ekki að eða frá vitum okkar. Margir þættir skipta hér máli en sérstaklega ber að nefna nákvæma taugerð og síðan þéttni efnisins. Bómull er algengasta efnið í fjölnota grímum - en þéttni bómullar er nokkuð breytileg. Þá er gjarnan talað um fjölda þráða (e. thread count): því fleiri þræðir, því þéttara efni. Rannsóknir hingað til eru mjög skýrar og sýna fram á að því fleiri þræðir, því betur gagnast bómull til að hindra dreifingu dropa. Önnur efni eru einnig notuð í taugrímur, til dæmis silki, pólýester, flónel (blanda af bómull og pólýester) og siffon (blanda af pólýester og spandexi). Silki hefur betri eiginleika til að koma í veg fyrir dreifingu örfínna dropa og blöndur virðast ná að hámarka síunargetu gríma (sjá síðar). Almennt ætti að forðast teygjanlegt efni, sem getur verið með breytilega síunargetu og þolir illa þvott.
Fjöldi laga
Líkt og á við um skurðgrímur hefur fjöldi laga sitt að segja um gagnsemi taugríma. Almennt séð gildir að fleiri lög eru betri, enda fleiri tækifæri fyrir hvert lag til að sía út dropa. Gott er að miða við að minnsta kosti 3 lög og helst 4 lög til að hámarka virkni taugríma. Síðan skiptir gerð hvers lags einnig máli - til dæmis er hægt að blanda saman bómull og silki, eða silki og pólýester. Einföld blanda af bómull og silki (til dæmis samsetningin bómull-silki-bómull) virðist hafa síunargetu sem er ekki ýkja langt frá skurðgrímum.
Mát grímunnar
Mjög vanmetinn hluti af notkun gríma er hversu vel hún þekur andlit okkar, og þá aðallega nef og munn. Lítið gat getur skipt sköpum í síunargetu gríma, sérstaklega ef um er að ræða fínni dropa sem koma frá okkur. Þess vegna eru skurðgrímur sveigjanlegar til að gera ráð fyrir mismunandi andlitsstærðum. Best er að mynda sem mest innsigli milli grímunnar og andlitsins, þó þetta sé vissulega ekki alltaf möguleiki.
Notkun grímunnar
Eins og farið er yfir í svari um almenna notkun gríma skiptir miklu máli að þær séu notaðar rétt. Um taugrímur gildir margt það sama og um skurðgrímur:
Hendur þurfa að vera hreinar áður en gríma er sett á.
Gríman þarf að hylja nef og munn, og liggja þétt að andliti.
Ekki má snerta sjálfa grímuna eftir að hún er komin á.
Ekki ætti að taka grímuna niður nema næsti einstaklingur sé í minnst tveggja metra fjarlægð.
Aðeins á að snerta böndin þegar gríma er tekin niður. Þvo skal hendur eftir að gríman hefur verið tekin niður.
Taugrímur þarf að þvo daglega. Nákvæm aðferð fer eftir gerð grímu en í flestum tilfellum er hefðbundinn þvottur í þvottavél ásættanlegur.
Allar taugrímur eru síðri kostur en hefðbundnar skurðgrímur, og ætti því einungis að nota þær þegar hvorki er hægt að viðhalda tveggja metra fjarlægð né nota skurðgrímur.
Eins og sjá má hér að ofan er mikill breytileiki í þessum þáttum: samsetningu, gerð, máti og fjölda laga. Lykilatriðið er þó að skortur er á rannsóknum á gagnsemi taugríma, sérstaklega þar sem þær geta verið svo breytilegar í gerð og samsetningu. Þannig eru þær ekki staðgenglar aðferða sem við vitum að virka betur: halda tveggja metra fjarlægð, handþvottur, almenn smitgát og forðast margmenni. Þar að auki er deginum ljósara að nær allar taugrímur eru síðri kostur en hefðbundnar skurðgrímur, og ætti því einungis að nota þær þegar hvorki er hægt að viðhalda tveggja metra fjarlægð né nota skurðgrímur.
Samantekt
Þetta er flókin umræða svo mikilvægt er að einfalda hana: hvaða reglur ættu að gilda um taugrímur? Öll eftirfarandi atriði ættu að gilda:
Aðeins nota þegar ekki er hægt að viðhalda tveggja metra reglunni.
Aðeins nota þegar ekki er hægt að nálgast einnota skurðgrímur.
Þær þurfa að vera að minnsta kosti þriggja laga, helst með einu lagi úr þéttri bómull (innsta lagið) og tvö lög úr öðru, þéttu efni (til dæmis pólýester).
Nota á réttan hátt, samanber reglur að ofan.
Engin samnýting á grímum - hver á sína grímu.
Þvo daglega.
Þvo hendur reglulega með sápu og vatni.
Taugrímur á aldrei að nota í stað skurðgríma í hááhættuaðstæðum (til dæmis á spítölum eða hjúkrunarheimilum).
Að lokum er rétt að leggja áherslu á þá samfélagslegu skyldu okkar allra að takmarka dreifingu COVID-19 eftir fremsta megni. Ef ekki er hægt að tryggja tveggja metra regluna ætti að nota grímur í samræmi við leiðbeiningar sóttvarnalæknis. Þetta mun bæði vernda okkur og ekki síður aðra!
Hér fyrir neðan fylgja leiðbeiningar um gerð á eigin taugríma, annars vegur sem texti og hins vegar sem myndband, hvort tveggja er á ensku:
Jón Magnús Jóhannesson. „Duga taugrímur til að verjast COVID-19?“ Vísindavefurinn, 13. ágúst 2020, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=79881.
Jón Magnús Jóhannesson. (2020, 13. ágúst). Duga taugrímur til að verjast COVID-19? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=79881
Jón Magnús Jóhannesson. „Duga taugrímur til að verjast COVID-19?“ Vísindavefurinn. 13. ágú. 2020. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=79881>.