
Taugrímur hafa náð að festa sig í sessi víða í Asíu, enda saga um skæða faraldra öndunarfærasýkinga í álfunni.
Efnið sem notað er
Til að gera gagn þarf tau að draga í sig dropa og sía þá út - þannig komast þeir ekki að eða frá vitum okkar. Margir þættir skipta hér máli en sérstaklega ber að nefna nákvæma taugerð og síðan þéttni efnisins. Bómull er algengasta efnið í fjölnota grímum - en þéttni bómullar er nokkuð breytileg. Þá er gjarnan talað um fjölda þráða (e. thread count): því fleiri þræðir, því þéttara efni. Rannsóknir hingað til eru mjög skýrar og sýna fram á að því fleiri þræðir, því betur gagnast bómull til að hindra dreifingu dropa. Önnur efni eru einnig notuð í taugrímur, til dæmis silki, pólýester, flónel (blanda af bómull og pólýester) og siffon (blanda af pólýester og spandexi). Silki hefur betri eiginleika til að koma í veg fyrir dreifingu örfínna dropa og blöndur virðast ná að hámarka síunargetu gríma (sjá síðar). Almennt ætti að forðast teygjanlegt efni, sem getur verið með breytilega síunargetu og þolir illa þvott.Fjöldi laga
Líkt og á við um skurðgrímur hefur fjöldi laga sitt að segja um gagnsemi taugríma. Almennt séð gildir að fleiri lög eru betri, enda fleiri tækifæri fyrir hvert lag til að sía út dropa. Gott er að miða við að minnsta kosti 3 lög og helst 4 lög til að hámarka virkni taugríma. Síðan skiptir gerð hvers lags einnig máli - til dæmis er hægt að blanda saman bómull og silki, eða silki og pólýester. Einföld blanda af bómull og silki (til dæmis samsetningin bómull-silki-bómull) virðist hafa síunargetu sem er ekki ýkja langt frá skurðgrímum.Mát grímunnar
Mjög vanmetinn hluti af notkun gríma er hversu vel hún þekur andlit okkar, og þá aðallega nef og munn. Lítið gat getur skipt sköpum í síunargetu gríma, sérstaklega ef um er að ræða fínni dropa sem koma frá okkur. Þess vegna eru skurðgrímur sveigjanlegar til að gera ráð fyrir mismunandi andlitsstærðum. Best er að mynda sem mest innsigli milli grímunnar og andlitsins, þó þetta sé vissulega ekki alltaf möguleiki.Notkun grímunnar
Eins og farið er yfir í svari um almenna notkun gríma skiptir miklu máli að þær séu notaðar rétt. Um taugrímur gildir margt það sama og um skurðgrímur:- Hendur þurfa að vera hreinar áður en gríma er sett á.
- Gríman þarf að hylja nef og munn, og liggja þétt að andliti.
- Ekki má snerta sjálfa grímuna eftir að hún er komin á.
- Ekki ætti að taka grímuna niður nema næsti einstaklingur sé í minnst tveggja metra fjarlægð.
- Aðeins á að snerta böndin þegar gríma er tekin niður. Þvo skal hendur eftir að gríman hefur verið tekin niður.
- Taugrímur þarf að þvo daglega. Nákvæm aðferð fer eftir gerð grímu en í flestum tilfellum er hefðbundinn þvottur í þvottavél ásættanlegur.

Allar taugrímur eru síðri kostur en hefðbundnar skurðgrímur, og ætti því einungis að nota þær þegar hvorki er hægt að viðhalda tveggja metra fjarlægð né nota skurðgrímur.
Samantekt
Þetta er flókin umræða svo mikilvægt er að einfalda hana: hvaða reglur ættu að gilda um taugrímur? Öll eftirfarandi atriði ættu að gilda:- Aðeins nota þegar ekki er hægt að viðhalda tveggja metra reglunni.
- Aðeins nota þegar ekki er hægt að nálgast einnota skurðgrímur.
- Þær þurfa að vera að minnsta kosti þriggja laga, helst með einu lagi úr þéttri bómull (innsta lagið) og tvö lög úr öðru, þéttu efni (til dæmis pólýester).
- Nota á réttan hátt, samanber reglur að ofan.
- Engin samnýting á grímum - hver á sína grímu.
- Þvo daglega.
- Þvo hendur reglulega með sápu og vatni.
- Taugrímur á aldrei að nota í stað skurðgríma í hááhættuaðstæðum (til dæmis á spítölum eða hjúkrunarheimilum).
- How to Make Cloth Face Coverings to Help Slow Spread - CDC. (Sótt 12.08.2020).
- How to Make Your Own Face Covering - YouTube. (Sótt 12.08.2020).
- A cluster randomised trial of cloth masks compared with medical masks in healthcare workers. (Sótt 12.08.2020).
- Facemasks for the prevention of infection in healthcare and community settings -- The BMJ. (Sótt 12.08.2020).
- Aerosol Filtration Efficiency of Common Fabrics Used in Respiratory Cloth Masks. (Sótt 12.08.2020).
- How Surgical Masks are Made, Tested and Used. (Sótt 12.08.2020).
- How to Safely Wear and Take Of a Cloth Face Covering. (Sótt 12.08.2020).
- Advice on the use of masks in the community, during home care and in healthcare settings in the context of the novel coronavirus (COVID-19) outbreak. (Sótt 12.08.2020).
- Asian, Child, Covid-19, Pandemic, Face Mask, Chinese - Pikist. (Sótt 12.08.2020).
- File:Watson queue for face masks 20200130 DSCF2199 (49464278376).jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 12.08.2020). Myndin er birt undir leyfinu Creative Commons — Attribution 2.0 Generic — CC BY 2.0