Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hafa rannsóknir sýnt að andlitsgrímur komi í veg fyrir að fólk smiti og/eða smitist af COVID-19? Og skiptir þá máli hvernig grímur eru notaðar?
Stutta svarið við fyrri spurningunni er einfaldlega já. Rannsóknir hafa sýnt, án nokkurs vafa, að andlitsgrímur geta komið í veg fyrir COVID-19-smit á milli einstaklinga. Sjúkdómurinn COVID-19 verður vegna sýkingar af veirunni SARS-CoV-2 sem dreifist fyrst og fremst með dropa- eða snertismiti. Þegar við hóstum, hnerrum og tölum berst aragrúi örsmárra dropa frá öndunarfærunum. Ef einstaklingur er sýktur af SARS-CoV-2 eru þessir dropar gjarnan hlaðnir veirum. Droparnir berast síðan mislangt áfram og geta lent í munni annarra, höndum eða á yfirborði hluta í næsta nágrenni. Stærð dropa og hversu langt þeir ferðast er ýmsu háð. Til dæmis þeytast fleiri dropar og lengra þegar við hnerrum og hóstum en þegar við tölum. Nánar má lesa um það í svari við spurningunni Hvar smitast fólk helst af COVID-19? Grímur grípa yfirgnæfandi meirihluta dropa frá öndunarfærum og varna því að þeir berist lengra. Þetta þýðir að grímurnar geta bæði stöðvað dropa sem við gefum frá okkur og dropa sem berast til okkar frá vitum annarra.
Af hverju er okkur þá ekki ráðlagt að vera alltaf með grímu þegar faraldur COVID-19 geisar?
Ýmis atriði flækja málið og geta virst ruglandi. Grímur gagnast við að koma í veg fyrir smit en virkni þeirra er langmest við skilgreindar aðstæður. Ennfremur þarf að nota þær á réttan hátt til að árangur náist:
Hendur þurfa að vera hreinar áður en gríma er sett á.
Gríman þarf að hylja nef og munn.
Ekki má snerta sjálfa grímuna eftir að hún er komin á.
Ekki ætti að taka grímuna niður nema næsti einstaklingur sé í minnst tveggja metra fjarlægð.
Aðeins á að snerta böndin þegar gríma er tekin niður, henni skal fleygja á öruggan hátt og hendur þvegnar að því loknu.
Ef nota þarf grímu í langan tíma á að skipta reglulega til að koma í veg fyrir rakamettun (á sérstaklega við um einnota grímur).
Fjölnota grímur þarf að þvo daglega (aðferð fer eftir gerð grímu).
Rannsóknir hafa sýnt, án nokkurs vafa, að andlitsgrímur geta komið í veg fyrir COVID-19-smit á milli einstaklinga. Grímurnar gera þó mest gagn við ákveðnar aðstæður og þær þarf að nota á réttan hátt.
Við hvaða skilgreindu aðstæður virka grímur best?
COVID-19-smit á sér helst stað þegar einstaklingar eru í miklu návígi, það er í innan við tveggja metra fjarlægð. Smithættan eykst með tíma og er meiri í lokuðu rými en úti. Nýjar ráðleggingar um notkun gríma í samfélaginu miða við að þær séu notaðar þar sem hætta er á smiti, einkum þar sem tímabundið þarf að víkja frá tveggja metra reglunni. Smám saman hefur komið betur í ljós að einkennalitlir eða -lausir berar SARS-CoV-2 geta smitað aðra sem þýðir að einstaklingar geta verið smitandi án þess að hafa hugmynd um það. Grímur geta komið í veg fyrir slík smit. Helsti ókosturinn við almenna notkun gríma, fyrir utan ranga notkun, er að hún getur veitt falskt öryggi og leitt til þess að fólk slaki á tveggja metra reglunni. Takmörkun á fjarlægð og almenn smitgát eins og handþvottur og tillitssemi við hósta eða hnerra (í olnbogabót) er öflugasta vörnin.
Hvernig hlífðarbúnað notar heilbrigðisstarfsfólk sem annast sjúklinga með COVID-19?
Smit eru líklegust við aðhlynningu sýktra en hún krefst gjarnan mikillar nálægðar í langan tíma og í þröngu rými. Grímur og annar hlífðarbúnaður hefur því verið notaður við umönnun sjúklinga með staðfestar veirusýkingar í efri öndunarfærum eða einkenni sem benda til þeirra. Reglur Landspítala eru á þann veg að öllum sem greinast með COVID-19 skuli sinnt af heilbrigðisstarfsfólki í viðeigandi hlífðarbúnaði. Auk sérstakra veirugríma notar heilbrigðisstarfsfólk galla, hanska, hettur og gleraugu. Ástæðan er sú að dæmi eru um óbein smit við að snerta hluti sem sýktur einstaklingur hafði snert. Einnig eru þekkt undantekningartilfelli þar sem það að deila rými með sýktum einstaklingi virtist duga til smits. Þó að líkur á þessum smitleiðum séu litlar ber að sýna sérstaka varúð þar sem smithætta er veruleg eins og á heilbrigðisstofnunum.
Hvernig grímur á að nota?
Á heilbrigðisstofnunum eru notaðar sérstakar fínagnagrímur eða veirugrímur þegar um staðfest COVID-19-smit er að ræða. Slíkar grímur sía út örfínar agnir með það að markmiði að stoppa dropa af öllum stærðum og gerðum. Þær koma í veg fyrir svokallað úðasmit þar sem veirur geta dreifst með örfínum úða en hann hangir í loftinu í stað þess að falla vegna þyngdarafls. Úðasmit virðist ekki vera veigamikil dreifingarleið fyrir COVID-19 og skiptir mestu máli við ákveðin inngrip á spítölum eins og barkaþræðingu, speglanir og meðferð með ytri öndunarvél. Í samfélaginu dugar vel að nota hefðbundnar skurðgrímur. Einnig hefur notkun taugríma aukist. Slíkar grímur eru í raun efni í annað svar en í stuttu máli er gagnsemi þeirra aðeins tryggð ef viss gerð af taui er notuð og lög grímunnar í það minnsta þrjú.
Er þá ávinningur af því að nota grímur úti í samfélaginu?
Það fer eftir ýmsu, meðal annars samfélagsgerð, hegðun fólks og því hvort grímurnar eru rétt notaðar. Grímur geta verið gagnlegar en almennt er talið að svokölluð fjarlægðartakmörkun (e. physical distancing), það er að viðhalda tveggja metra reglu, fara ekki á stór mannamót og vera sem minnst í návígi við aðra sé besta leiðin til að koma í veg fyrir smit. Ef fjarlægðartakmörkunum er viðhaldið eru grímur í raun belti með axlaböndum. Þá eru þær óþarfa viðbót með tilheyrandi kostnaði og óþægindum. Notkun gríma getur þó gert tímabundna nálægð einstaklinga öruggari svo framarlega sem þær eru notaðar á réttan hátt. Margar rannsóknir hafa verið gerðar til að meta gagnsemi gríma í miðjum faraldri en niðurstöðurnar eru langt frá því að vera skýrar vegna ýmissa óvissuþátta.
Almennt er talið að svokölluð fjarlægðartakmörkun sé besta leiðin til að koma í veg fyrir smit. Ef þeim er viðhaldið eru grímurnar í raun óþarfa viðbót með tilheyrandi kostnaði og óþægindum. Notkun gríma getur þó gert tímabundna nálægð einstaklinga öruggari svo framarlega sem þær eru notaðar á réttan hátt.
Leiðbeiningar um grímunotkun hérlendis eru skýrar. Grímur eiga ekki að koma í stað tveggja metra reglunnar eða annarra leiða til að tryggja fjarlægð á milli fólks. Aðeins skal nota grímu þegar ekki er hægt að viðhalda tveggja metra reglunni. Mikilvægt er þá að nálægðin vari sem styst. Afar ólíklegt er að smitast af einstaklingi sem gengið er framhjá utandyra í örfáar sekúndur. Að sitja við hlið smitbera í strætó er hins vegar annað mál og einn hósti getur leitt til smits þó að nálægðin sé aðeins í nokkrar mínútur. Grímurnar gera okkur þannig kleift að viðhalda góðri smitgát við aðstæður sem væru annars hættulegar okkur og öðrum. Þannig getum við farið í klippingu, ferðast með strætó og verslað í matvöruverslun og verndað bæði okkur sjálf og aðra. Önnur atriði smitgátar skipta þó áfram mestu máli við smitvarnir.
Samantekt:
Grímur koma ekki í stað tveggja metra reglu, almennrar smitgátar og hreinlætis.
Grímur virka helst þar sem ekki er hægt að tryggja tveggja metra fjarlægð í nokkurn tíma.
Grímur virka til að koma í veg fyrir smit, bæði til okkar og frá okkur til annarra.
Mikilvægt er að nota grímurnar rétt, samanber leiðbeiningar að ofan.
Skurðgríma dugar vel í samfélaginu en sérstakar veirugrímur á að nota við ákveðnar aðstæður, aðallega innan heilbrigðiskerfisins.
Höfundur þakkar Snædísi Huld Björnsdóttur, sameindalíffræðingi og dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ, fyrir yfirlestur og gagnlegar athugasemdir.
Jón Magnús Jóhannesson. „Hafa rannsóknir sýnt að andlitsgrímur komi í veg fyrir að fólk smitist af COVID-19?“ Vísindavefurinn, 6. ágúst 2020, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=79815.
Jón Magnús Jóhannesson. (2020, 6. ágúst). Hafa rannsóknir sýnt að andlitsgrímur komi í veg fyrir að fólk smitist af COVID-19? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=79815
Jón Magnús Jóhannesson. „Hafa rannsóknir sýnt að andlitsgrímur komi í veg fyrir að fólk smitist af COVID-19?“ Vísindavefurinn. 6. ágú. 2020. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=79815>.