Geta erfðaþættir tengst mismunandi næmi fyrir sýkingu veirunnar sem veldur COVID-19 eða því hversu alvarleg veikindi verða?Sjúkdómurinn COVID-19 orsakast af veirusýkingu og telst því umhverfissjúkdómur. Veirusýking er forsenda sjúkdómsins, en eins og í tilfelli margra smitsjúkdóma geta erfðaþættir tengst hluta breytileikans í smitnæmi, alvarleika sýkingar og dánartíðni, auk annarra þátta. Erfðafræðingar geta metið arfgengi eiginleika, það er að segja hlutfallslegt vægi erfðaþátta, umhverfis, samspils gena og umhverfisþátta og áhrif tilviljana. Um þetta má lesa meira í svari við spurningunni Hafa erfðaþættir áhrif á veirusýkingar? Í ljós hefur komið að veiran SARS-CoV-2 leggst misjafnlega alvarlega á fólk. Dæmi um þetta kemur fram í enskri rannsókn sem sýndi að karlar eru í meiri hættu en konur, og að dánartíðni hækkar mikið með aldri. Hægt er að lesa meira um þetta í svari við spurningunni Hefur COVID-19 lagst harðar á karla en konur og hvað gæti skýrt það? Þótt erfðaþættir geti skipt máli er ljóst að aldur hefur veigameiri áhrif á dánartíðni vegna COVID-19. Ef við ímyndum okkur tvo karla með nákvæmlega sama erfðamengi, annar tvítugur en hinn sjötugur, þá er sá síðarnefndi í rúmlega tífalt meiri áhættu en sá yngri. Einnig eru vísbendingar um að dánartíðni sé breytileg eftir uppruna fólks, en þau áhrif eru veik og líklegt að þau skýrist að umtalsverðu leyti af fátækt, félagslegum þáttum og mismunandi aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Frá því að faraldurinn hófst hafa erfðafræðingar velt fyrir sér hvort erfðabreytileiki hafi áhrif á líkurnar á smiti eða alvarleika sjúkdómsins. Hér verða tilgreindar niðurstöður úr tveimur nýlegum rannsóknum á erfðum og COVID-19. Þeim ber að taka með varnagla því þegar þetta er skrifað í júní 2020 hafa þær ekki verið ritrýndar og niðurstöðurnar þarf að staðfesta með frekari rannsóknum. Einnig er vert að hafa í huga að rannsóknirnar kanna ólíka þætti sjúkdómsins, tvíburarannsóknin skoðar væg einkenni meðal smitaðra en seinni greinin lýsir kortlagningu erfðaþátta sem tengjast alvarlegum vandkvæðum við öndun.
Tvíburar eru heppilegir til að meta arfgengi eiginleika.

Breytileiki innan gensins sem skráir fyrir ABO-blóðflokkunum tengdist öndunarbilun hjá sjúklingum með COVID-19.
Samantekt
- Veirusýking úr umhverfinu er forsenda sjúkdómsins.
- Tvíburarannsókn bendir til arfgengis vægra einkenna COVID-19.
- Aukin áhætta á alvarlegum einkennum er tengd breytileika í genum A-blóðflokks og á litningi 3.
- Margt er á huldu varðandi möguleg áhrif gena á sjúkdóminn.
- ^ Arfgengi er stærð á bilinu 0 til 1. Eiginleikar með lágt arfgengi, við 0 eða 0,1 mótast af litlu leyti af erfðasamsetningu fólks, en einkenni með hátt arfgengi, til dæmis 0,8 má útskýra að mestu með genum.
- Williams, F.M.K. o.fl. (2020). Self-reported symptoms of covid-19 including symptoms most predictive of SARS-CoV-2 infection, are heritable. Handrit á medRxiv. Handritið er í yfirlestri hjá sérfræðingum sem þýðir að taka ber því með fyrirvara. (Sótt 8.6.2020).
- Ellinghaus D. o.fl. 2020. The ABO blood group locus and a chromosome 3 gene cluster associate with SARS-CoV-2 respiratory failure in an Italian-Spanish genome-wide association analysis. Handrit á medRxiv. Handritið er í yfirlestri hjá sérfræðingum sem þýðir að taka ber því með fyrirvara. (Sótt 8.6.2020).
- Zimmer, C. (2020, 3. júní). Genes May Leave Some People More Vulnerable to Severe Covid-19. The New York Times. (Sótt 8.6.2020).
- Jón Magnús Jóhannesson. (2020, 22. maí). Verða varanlegar skemmdir á lungum eftir COVID-19-veikindi? Vísindavefurinn. (Sótt 8.6.2020).
- Arnar Pálsson. (2020, 12. maí). Hefur COVID-19 lagst harðar á karla en konur og hvað gæti skýrt það? Vísindavefurinn. (Sótt 8.6.2020).
- Twins celebrate a half century of service > U.S. Air Force > Article Display. (Sótt 8.6.2020).
- Sailors transport the last patient off the hospital ship U… | Flickr. (Sótt 9.06.2020). Myndin er birt undir leyfinu Creative Commons — Attribution 2.0 Generic — CC BY 2.0.