Hvað þýðir að kórónuveiran sé að veikjast sem hver étur upp eftir öðrum í fjölmiðlum? Eru einhverjar vísbendingar um að hún hafi stökkbreyst í þá átt að verða minna sýkingarhæf? Er kannski verið að tala um að með hlýnandi veðri er mögulega smitmagn minna?Á upplýsingafundi Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra þann 25. maí 2020 skýrði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir frá framvindu COVID-19-faraldursins og svaraði spurningum fréttamanna. Þar sagði hann meðal annars:
Það sem er einkennandi fyrir þessa einstaklinga sem hafa greinst upp á síðkastið er að þeir eru ekki mikið veikir [...] og hvað þýðir það? Það er erfitt að segja til um það. Það gæti verið að þetta séu einstaklingar sem hafi verið búnir með sín veikindi. Það gæti líka vel verið að það sé einhver þróttur að fara úr veirunni, hugsanlega. Allavega er tilhneigingin sú að veikindin hafa minnkað eftir því sem liðið hefur frá 28. febrúar. Það gæti gefið okkur hugsanlega vísbendingu um það að veiran sé ekki eins ágeng og slæm og hún var. En tíminn verður að leiða það í ljós.

Ýmislegt bendir til þess að smit vegna COVID-19-veirunnar hafi verið vægari í maí og júní 2020 en ekki er ljóst hvað veldur því.

Engar vísbendingar eru um áhrif árstíða eða umhverfishita á veiruna sem veldur COVID-19. Hitt er líklegra, og hættulegra, að hitinn reki fólk út af heimilum og í almenningsrými þar sem smithætta er meiri vegna mannmergðar.
Við erum ekki búin að sjá fyrir endann á þessu. Og á meðan hún er að geisa í heiminum þá getur hún komið hingað [til Íslands]. Hins vegar eru alls konar spurningar með svona veiru, hvað hún gerir, hvort hún missir þróttinn þegar á líður. En það er svosem ekkert augljóst í því núna.
Samantekt
- Vísbendingar eru um smit vegna COVID-19-veirunnar hafi verið vægari í maí og júní 2020.
- Ekki er ljóst hvað veldur, breytt hegðan, verndun viðkvæmra hópa, þróun veirunnar að mildara formi?
- Þótt veirunni verði útrýmt hérlendis munu smit berast frá útlöndum meðan faraldurinn geisar þar.
- ^ Vægara smit gæti líka verið vegna þess að þær veiruagnir sem berast inn í líkaman séu veikari vegna bættra þrifa, til dæmis þannig að fólk fær skaddaðar veirur eftir handþvott. Eða að smit berist inn í líkamana eftir leiðum sem hægja á sýkingu. Fær einstaklingur til dæmis vægari sýkingu við smit um auga en um öndunarfæri?
- ^ Sjá hér: Vísindavefurinn: Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVID-19? (Sótt 3.07.2020).
- Sunna Ósk Logadóttir. 25. maí 2020. Veiran mögulega að missa þróttinn. (Sótt 3.07.2020). Kjarninn.
- Kristín Ólafsdóttir 16. Júní 2020. Í býtinu á Bylgjunni. Enn þá nóg eftir af fóðri fyrir veiruna - Vísir. (Sótt 3.07.2020).
- Maanvi Singh. 30. maí 2020. The Guardian. 'A summer unlike any other': heatwaves and Covid-19 are a deadly combination. (Sótt 3.07.2020).
- [Vincent Racaniello]. 3. júlí 2020. Facebook. Don't believe the headlines that SARS-CoV-2 is becoming more transmissible! - This Week in Virology - Facebook. (Sótt 8.07.2020).
- Vincent Racaniello. 7. maí 2020. Virology Blog. There is one, and only one strain of SARS-CoV-2. (Sótt 8.07.2020).
- © Kristinn Ingvarsson.
- https://pxhere.com/en/photo/1052282. (Sótt 3.07.2020).