Hvernig er aldursdreifing Íslendinga í dag? T.d. hversu margir teljast eldri borgarar?Á vef Hagstofu Íslands má nálgast upplýsingar um aldursdreifingu Íslendinga og byggir þetta svar á tölum þaðan. Í upphafi árs 2020 voru Íslendingar rétt rúmlega 364.000 talsins, 51,3% karlar og 48,7% konur. Til þess að átta sig á aldursdreifingu er gott að skoða mannfjöldapýramída en hann sýnir hversu stórt hlutfall mannfjöldans er í hverjum aldurshópi en einnig sýnir hann skipting á milli kynjanna. Mannfjöldapýramídi fyrir Ísland árið 2020 sýnir vel að fjölmennustu aldurshóparnir á Íslandi eru 25-29 ára, 30-34 ára og 35-39 ára. Hins vegar eru yngstu aldurshóparnir minni sem gefur til kynna að þjóðin er að eldast og náttúrleg fólksfjölgun er ekki hröð.
- Íslendingar 60 ára og eldri alls 72.906 (20%)
- Íslendingar 65 ára og eldri alls 52.473 (14,4%)
- Íslendingar 67 ára og eldri alls 45.250 (11,6%)
- Íslendingar 70 ára og eldri alls 35.492 (9,7%)