Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver væri dánartíðni inflúensu ef ekki væri bólusett fyrir henni?

Jón Magnús Jóhannesson

Inflúensa (eða flensa) er veirusýking af völdum fjölskyldu veira sem kallast inflúensuveirur. Þessum veirum má skipta í fjóra flokka: A, B, C og D. Inflúensa C veldur vægum veikindum og inflúensa D veldur ekki sjúkdómi í mönnum. Þannig er mesta áherslan lögð á inflúensu A og B. Inflúensa A er algengasti orsakavaldur inflúensu á heimsvísu og hún hefur einnig valdið heimsfaröldrum, síðast árið 2009. Inflúensa B veldur um 20-25% tilfella á heimsvísu.

Almennt er talið að um 3-5 milljón alvarleg tilfelli inflúensu eigi sér stað á hverju ári um allan heim, með 290.000-650.000 dauðsföllum. Þar að auki veldur flensan miklu álagi á heilbrigðiskerfi þjóða og verulegum kostnaði vegna vinnutaps.[1]

Heimsfaraldur insflúensu árið 2009. Svarti liturinn táknar lönd með staðfestum tilvik og dauðsföllum í kjölfarið. Rauði liturinn táknar lönd með staðfestum tilvikum.

Stökkbreytingar í erfðaefni inflúensuveira eru algengar og valda breytingum á eiginleikum veiranna (kallað á ensku „antigenic drift“). Einnig geta stærri breytingar orðið á samsetningu erfðaefnisins þegar bútar af erfðaefni skiptast á milli mismunandi inflúensuveira – þetta getur valdið miklum breytingum á eiginleikum, en aðeins hjá inflúensu A (kallað á ensku „antigenic shift“). Vegna tíðra breytinga á erfðaefninu verða nægilegar breytingar á veirunni með tímanum þannig að ónæmiskerfi mannsins þekkir hana ekki lengur. Það er meðal annars ástæðan fyrir því að hægt er að fá flensu endurtekið og faraldrar koma upp árlega.[2]

Inflúensa lýsir sér aðallega með einkennum frá efri öndunarfærum (hósti, hálsbólga, nefrennsli og -stíflur) ásamt almennum einkennum sýkinga (hiti, hrollur, höfuðverkir, vöðvaverkir, slappleiki). Í sjaldgæfari tilfellum geta alvarleg veikindi komið fram. Alvarleg veikindi og dauðsföll eru líklegri í vissum áhættuhópum – þeir helstu eru þungaðar konur, börn undir 5 ára, aldraðir, ónæmisbældir og einstaklingar með vissa langvinna sjúkdóma (til dæmis hjarta-, lungna-, nýrna-, tauga-, lifrar-, blóð- og efnaskiptasjúkdóma).

Samantektarrannsókn í Bandaríkjunum sem tók til 30 ára tímabils sýndi að einstaklingar 65 ára og eldri voru um 90% af þeim sem létust úr inflúensu. Hins vegar, þar sem að stór hluti tilfella inflúensu er ekki greindur með formlegum hætti, getur verið erfitt að reikna út nákvæmlega hversu margir deyja ef þeir fá inflúensu. Áætlað er að dánarhlutfall sé í kringum 0,05-0,1% á heimsvísu en þetta er mjög breytilegt eftir aldurshópum og áhættuþáttum.[3]

Fjöldi staðfestra inflúensusýkinga á heimsvísu eftir vikum, frá 12. viku 2019 til 11 viku 2020. Bláu litirnir tákna inflúensu A og rauðu og appelsínugulu inflúensu B.

Það er þannig mikilvægt að hafa eitt í huga þegar kemur að dánarhlutfalli. Í núverandi heimsfaraldri COVID-19 (sem vert er að taka fram að er ekki inflúensufaraldur) er mikið talað um dánarhlutfallið, sérstaklega mun milli landa. Það eru ótalmargar breytur sem hafa hér áhrif. Álag á heilbrigðiskerfið, aldursdreifing í samfélögum, aðgengi að heilbrigðisþjónustu, rannsóknaraðstaða, vangreining tilfella ásamt ýmsu fleiru sem skekkir myndina. Þannig ber að fara mjög varlega að oftúlka þessa tölu, enda er hún ekki fasti.[4]

Inflúensubólusetning er besta leiðin til að minnka hættu á inflúensu og fylgikvillum hennar, sérstaklega hjá einstaklingum sem eru viðkvæmir fyrir alvarlegri veikindum tengdum flensunni. Þetta er sérstaklega gert til að minnka hættu á alvarlegum fylgikvillum inflúensu en einnig til að minnka dreifingu hennar innan samfélagsins. Hérlendis er í boði bóluefni sem beinist að tveimur undirflokkum inflúensu A og tveimur kynslóðum inflúensu B. Í ljósi þess að veirurnar eru stöðugt að breytast og vörnin frá bóluefninu varir aðeins í nokkur ár að jafnaði þarf að búa til nýtt bóluefni árlega. Einnig er ekki hægt að spá að fullu fyrir um hvaða gerðir inflúensuveira verða mest áberandi á hverju ári og því er gerð bóluefnis ákvörðuð út frá besta mati hverju sinni. Þetta þýðir að árangur bóluefnisins er breytilegur eftir árum. Á Íslandi er lögð sérstök áhersla á bólusetningu áhættuhópa (allir 60 ára og eldri, allir með langvinna sjúkdóma, þungaðar konur) og heilbrigðisstarfsfólks.[5]

Þó árangurinn sé breytilegur er hins vegar enginn vafi á að inflúensubólusetning minnkar líkur á að fá inflúensu – þetta hefur endurtekið komið í ljós í mjög áreiðanlegum rannsóknum. Ef góð samsvörun er á milli bóluefnisins og faraldurs kemur bóluefnið í veg fyrir 50-60% inflúensutilfella en líklegast enn fleiri meðal einstaklinga yngri en 60 ára. Um leið minnkar þetta veikindi vegna inflúensu, vinnutap og kostnað við greiningu og meðferð. Enn fremur hefur verið sýnt fram á að ef einstaklingur fær inflúensu eru einkenni vægari ef hann er bólusettur. Þessar sömu rannsóknir hafa sýnt fram á frábært öryggi bóluefnisins – aukaverkanir eru sárafáar, aðallega vægur hiti og eymsli á stungustað.[6]

Í ljósi þess hversu erfitt er að meta dánartíðni og einnig breytileika bóluefnisins milli ára getur verið mjög erfitt að meta áhrif bóluefnisins á dánartíðni. Margar rannsóknir hafa verið gerðar en aðferðafræði þeirra hefur verið breytileg og niðurstöður einnig. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (e. World Health Organization) metur ótvírætt að bólusetningin minnki líkur á dauðsföllum vegna inflúensu – helsti ágreiningurinn er það um hversu mikið.

Stór rannsókn í Brasilíu ályktaði að inflúensubólusetning hafi dregið úr inflúensutengdum dauðsföllum um 26% og aðrar rannsóknir hafa gefið hlutföll upp í 50%. Því miður liggja ekki fyrir áreiðanlegar tölur á heimsvísu um þetta en án vafa er hægt að fullyrða eitt – inflúensubólusetning virkar.[7]

Tilvísanir:
  1. ^ Sjá heimild 2, 3 og 4.
  2. ^ Sjá heimild 3.
  3. ^ Sjá heimild 3, 4 og 6.
  4. ^ Sjá heimild 7.
  5. ^ Sjá heimild 2, 3, 4 og 5.
  6. ^ Sjá heimild 1, 2, 3, 4, og 5.
  7. ^ Sjá heimild 1, 2, 3, 4 og 5.

Heimildir:

  1. Influenza vaccination in the elderly: Is a trial on mortality ethically acceptable? - ScienceDirect. (Sótt 16.03.2020).
  2. Quadrivalent influenza vaccine: a new opportunity to reduce the influenza burden. (Sótt 16.03.2020).
  3. Influenza (Seasonal). (Sótt 16.03.2020).
  4. Questions and Answers: Vaccine effectiveness estimates for seasonal influenza vaccines. (Sótt 16.03.2020).
  5. Weekly epidemilogical record. (Sótt 16.03.2020).
  6. Disease Burden of Influenza - CDC. (Sótt 16.03.2020).
  7. Coronavirus Disease (COVID-19) – Statistics and Research - Our World in Data. (Sótt 16.03.2020).

Myndir:

Höfundur

Jón Magnús Jóhannesson

læknir og rannsakandi

Útgáfudagur

17.3.2020

Spyrjandi

Sigurður Jóhannesson

Tilvísun

Jón Magnús Jóhannesson. „Hver væri dánartíðni inflúensu ef ekki væri bólusett fyrir henni?“ Vísindavefurinn, 17. mars 2020, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=78843.

Jón Magnús Jóhannesson. (2020, 17. mars). Hver væri dánartíðni inflúensu ef ekki væri bólusett fyrir henni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=78843

Jón Magnús Jóhannesson. „Hver væri dánartíðni inflúensu ef ekki væri bólusett fyrir henni?“ Vísindavefurinn. 17. mar. 2020. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=78843>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver væri dánartíðni inflúensu ef ekki væri bólusett fyrir henni?

Inflúensa (eða flensa) er veirusýking af völdum fjölskyldu veira sem kallast inflúensuveirur. Þessum veirum má skipta í fjóra flokka: A, B, C og D. Inflúensa C veldur vægum veikindum og inflúensa D veldur ekki sjúkdómi í mönnum. Þannig er mesta áherslan lögð á inflúensu A og B. Inflúensa A er algengasti orsakavaldur inflúensu á heimsvísu og hún hefur einnig valdið heimsfaröldrum, síðast árið 2009. Inflúensa B veldur um 20-25% tilfella á heimsvísu.

Almennt er talið að um 3-5 milljón alvarleg tilfelli inflúensu eigi sér stað á hverju ári um allan heim, með 290.000-650.000 dauðsföllum. Þar að auki veldur flensan miklu álagi á heilbrigðiskerfi þjóða og verulegum kostnaði vegna vinnutaps.[1]

Heimsfaraldur insflúensu árið 2009. Svarti liturinn táknar lönd með staðfestum tilvik og dauðsföllum í kjölfarið. Rauði liturinn táknar lönd með staðfestum tilvikum.

Stökkbreytingar í erfðaefni inflúensuveira eru algengar og valda breytingum á eiginleikum veiranna (kallað á ensku „antigenic drift“). Einnig geta stærri breytingar orðið á samsetningu erfðaefnisins þegar bútar af erfðaefni skiptast á milli mismunandi inflúensuveira – þetta getur valdið miklum breytingum á eiginleikum, en aðeins hjá inflúensu A (kallað á ensku „antigenic shift“). Vegna tíðra breytinga á erfðaefninu verða nægilegar breytingar á veirunni með tímanum þannig að ónæmiskerfi mannsins þekkir hana ekki lengur. Það er meðal annars ástæðan fyrir því að hægt er að fá flensu endurtekið og faraldrar koma upp árlega.[2]

Inflúensa lýsir sér aðallega með einkennum frá efri öndunarfærum (hósti, hálsbólga, nefrennsli og -stíflur) ásamt almennum einkennum sýkinga (hiti, hrollur, höfuðverkir, vöðvaverkir, slappleiki). Í sjaldgæfari tilfellum geta alvarleg veikindi komið fram. Alvarleg veikindi og dauðsföll eru líklegri í vissum áhættuhópum – þeir helstu eru þungaðar konur, börn undir 5 ára, aldraðir, ónæmisbældir og einstaklingar með vissa langvinna sjúkdóma (til dæmis hjarta-, lungna-, nýrna-, tauga-, lifrar-, blóð- og efnaskiptasjúkdóma).

Samantektarrannsókn í Bandaríkjunum sem tók til 30 ára tímabils sýndi að einstaklingar 65 ára og eldri voru um 90% af þeim sem létust úr inflúensu. Hins vegar, þar sem að stór hluti tilfella inflúensu er ekki greindur með formlegum hætti, getur verið erfitt að reikna út nákvæmlega hversu margir deyja ef þeir fá inflúensu. Áætlað er að dánarhlutfall sé í kringum 0,05-0,1% á heimsvísu en þetta er mjög breytilegt eftir aldurshópum og áhættuþáttum.[3]

Fjöldi staðfestra inflúensusýkinga á heimsvísu eftir vikum, frá 12. viku 2019 til 11 viku 2020. Bláu litirnir tákna inflúensu A og rauðu og appelsínugulu inflúensu B.

Það er þannig mikilvægt að hafa eitt í huga þegar kemur að dánarhlutfalli. Í núverandi heimsfaraldri COVID-19 (sem vert er að taka fram að er ekki inflúensufaraldur) er mikið talað um dánarhlutfallið, sérstaklega mun milli landa. Það eru ótalmargar breytur sem hafa hér áhrif. Álag á heilbrigðiskerfið, aldursdreifing í samfélögum, aðgengi að heilbrigðisþjónustu, rannsóknaraðstaða, vangreining tilfella ásamt ýmsu fleiru sem skekkir myndina. Þannig ber að fara mjög varlega að oftúlka þessa tölu, enda er hún ekki fasti.[4]

Inflúensubólusetning er besta leiðin til að minnka hættu á inflúensu og fylgikvillum hennar, sérstaklega hjá einstaklingum sem eru viðkvæmir fyrir alvarlegri veikindum tengdum flensunni. Þetta er sérstaklega gert til að minnka hættu á alvarlegum fylgikvillum inflúensu en einnig til að minnka dreifingu hennar innan samfélagsins. Hérlendis er í boði bóluefni sem beinist að tveimur undirflokkum inflúensu A og tveimur kynslóðum inflúensu B. Í ljósi þess að veirurnar eru stöðugt að breytast og vörnin frá bóluefninu varir aðeins í nokkur ár að jafnaði þarf að búa til nýtt bóluefni árlega. Einnig er ekki hægt að spá að fullu fyrir um hvaða gerðir inflúensuveira verða mest áberandi á hverju ári og því er gerð bóluefnis ákvörðuð út frá besta mati hverju sinni. Þetta þýðir að árangur bóluefnisins er breytilegur eftir árum. Á Íslandi er lögð sérstök áhersla á bólusetningu áhættuhópa (allir 60 ára og eldri, allir með langvinna sjúkdóma, þungaðar konur) og heilbrigðisstarfsfólks.[5]

Þó árangurinn sé breytilegur er hins vegar enginn vafi á að inflúensubólusetning minnkar líkur á að fá inflúensu – þetta hefur endurtekið komið í ljós í mjög áreiðanlegum rannsóknum. Ef góð samsvörun er á milli bóluefnisins og faraldurs kemur bóluefnið í veg fyrir 50-60% inflúensutilfella en líklegast enn fleiri meðal einstaklinga yngri en 60 ára. Um leið minnkar þetta veikindi vegna inflúensu, vinnutap og kostnað við greiningu og meðferð. Enn fremur hefur verið sýnt fram á að ef einstaklingur fær inflúensu eru einkenni vægari ef hann er bólusettur. Þessar sömu rannsóknir hafa sýnt fram á frábært öryggi bóluefnisins – aukaverkanir eru sárafáar, aðallega vægur hiti og eymsli á stungustað.[6]

Í ljósi þess hversu erfitt er að meta dánartíðni og einnig breytileika bóluefnisins milli ára getur verið mjög erfitt að meta áhrif bóluefnisins á dánartíðni. Margar rannsóknir hafa verið gerðar en aðferðafræði þeirra hefur verið breytileg og niðurstöður einnig. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (e. World Health Organization) metur ótvírætt að bólusetningin minnki líkur á dauðsföllum vegna inflúensu – helsti ágreiningurinn er það um hversu mikið.

Stór rannsókn í Brasilíu ályktaði að inflúensubólusetning hafi dregið úr inflúensutengdum dauðsföllum um 26% og aðrar rannsóknir hafa gefið hlutföll upp í 50%. Því miður liggja ekki fyrir áreiðanlegar tölur á heimsvísu um þetta en án vafa er hægt að fullyrða eitt – inflúensubólusetning virkar.[7]

Tilvísanir:
  1. ^ Sjá heimild 2, 3 og 4.
  2. ^ Sjá heimild 3.
  3. ^ Sjá heimild 3, 4 og 6.
  4. ^ Sjá heimild 7.
  5. ^ Sjá heimild 2, 3, 4 og 5.
  6. ^ Sjá heimild 1, 2, 3, 4, og 5.
  7. ^ Sjá heimild 1, 2, 3, 4 og 5.

Heimildir:

  1. Influenza vaccination in the elderly: Is a trial on mortality ethically acceptable? - ScienceDirect. (Sótt 16.03.2020).
  2. Quadrivalent influenza vaccine: a new opportunity to reduce the influenza burden. (Sótt 16.03.2020).
  3. Influenza (Seasonal). (Sótt 16.03.2020).
  4. Questions and Answers: Vaccine effectiveness estimates for seasonal influenza vaccines. (Sótt 16.03.2020).
  5. Weekly epidemilogical record. (Sótt 16.03.2020).
  6. Disease Burden of Influenza - CDC. (Sótt 16.03.2020).
  7. Coronavirus Disease (COVID-19) – Statistics and Research - Our World in Data. (Sótt 16.03.2020).

Myndir:...