Samkvæmt NASA þá eru allar pláneturnar „satellite“ því þær snúast kringum sólina. En eina orðið fyrir „satellite“ á íslensku er gervitungl en það er eitthvað sem er gervi og mannkynið bjó til. En við erum ekki með almennilegt orð fyrir satellite á íslensku því að satellite þarf ekki að vera gervi. Hvaða íslenska orð er hægt að nota fyrir náttúrulegan „satellite“?Svarið við þessari spurningu er einfalt. Í raun og veru eru til nokkur orð yfir það sem spyrjendur kalla náttúrulegan „satellite“. Þetta eru til dæmis orð eins og hnöttur, fylgihnöttur, reikistjarna, fylgitungl og tungl. Í stjarnvísindum er hugtakið satellite stundum notað um alla þá hluti sem snúast í kringum stærri hluti. Sú skýring er til dæmis notuð á þessari síðu hjá NASA sem spyrjendur eru væntanlega að vísa til. En þar er einnig gerður greinarmunur á náttúrulegum og manngerðum „satellite“. Tunglið og jörðin eru dæmi um náttúruleg fyrirbæri sem snúast í kringum stærri fyrirbæri, en gervihnettir eða veðurtungl eru manngerðir hlutir. Á síðunni hjá NASA segir einnig að nú á dögum sé orðið „satellite“ aðallega notað um manngerða hluti sem komið er út í geim og á braut umhverfis jörðina eða hugsanlega annan hnött í geimnum.[1]
- ^ "A satellite is a moon, planet or machine that orbits a planet or star. For example, Earth is a satellite because it orbits the sun. Likewise, the moon is a satellite because it orbits Earth. Usually, the word "satellite" refers to a machine that is launched into space and moves around Earth or another body in space." What Is a Satellite?
- Europa's Stunning Surface | NASA Solar System Exploration. (Sótt 24.02.2020).