Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í meginkafla Biblíunnar um „Boðorðin tíu“ eru þau fjórtán (svona ef þið vissuð það ekki), svo þá vaknar spurningin: Hver ákvað að kennd skyldu „bara“ þessi 10 og þá ekki síður hver ákvað hvaða 10 það skyldu vera?
Það er sannarlega rétt hjá spyrjanda að það er hægt að lesa fleiri en tíu boð eða bönn í þeim textaklasa Gamla testamentisins sem hefðbundið er kallaður „Boðorðin tíu“. Í spurningunni gætir þó þess misskilnings að þegar talað sé um tíu boðorð sé þar með verið að sleppa einhverjum boðorðum sem séu þá ekki talin með. Það er þó ekki svo. Hvort sem talað er um tíu boðorð eða fjórtán, þá er um nákvæmlega sama textann að ræða; munurinn felst einvörðungu í skiptingu textans í „boðorð“, sem sé í skilgreiningunni á því hvað telst heyra til hverju boðorði fyrir sig.
Textann, sem kallaður hefur verið Boðorðin tíu allt frá 6. ef ekki 7. öld fyrir Kristsburð (samanber 5Mós 4.13 og 5Mós 10.4), er að finna á tveimur stöðum í Mósebókum, í að mestu leyti sambærilegum útgáfum en þó ekki að öllu leyti. Muninn á þeim má skýra með staðsetningu þeirra og mismunandi hlutverki í ólíku bókmenntalegu samhengi sem á rætur að rekja til ólíkra sögulegra aðstæðna. Útgáfan í 5Mós 5.6-21 er að öllum líkindum yngri (Köckert, 1.5.) og tekur upp og vísar til boðorðanna í 2Mós 20.2-17, enda er frásögnin í 5Mós sett fram sem tilvitnun Móse til og upprifjun á atburðunum í 2Mós, hvar lýst er hvernig Drottinn talar ofan af fjallinu Sínaí til Ísraelslýðs, sem flúið hafði Egyptaland. Drottinn gerir við hann sáttmála, sem felur í sér að fólkið hlýði lögum þeim og ákvæðum sem hann flytur þeim fyrir meðalgöngu Móse, sem tilhlýðilegt endurgjald fyrir frelsunina úr þrælavistinni í Egyptalandi. Jafnframt heitir Drottinn því fyrir sitt leyti að Ísraelslýður skuli vera hans „sérstök eign umfram aðrar þjóðir“. Hagnýtt gildi þessa sáttmála fyrir Ísrael felst annars vegar í því að hann fær landsvæði til eignar og hins vegar í því að Drottinn heitir því að tryggja honum gæfuríkt líf í því landi. Í samræmi við þessa hugsun er upphafi boðorðanna („Ég er Drottinn, Guð þinn …), bæði að formi til og innihaldi, meðvitað ætlað að minna á hetitíska og ný-assýríska samninga á milli stórkonungs og lénskonunga hans, þar sem stórkonungurinn minnir á af hverju lénskonungurinn sé honum skuldbundinn (Köckert, 1.8.1.).
Í 2Mós er því lýst hvernig Drottinn talar ofan af fjallinu Sínaí til Ísraelslýðs. Myndin er af Sínaí-fjalli.
Boðorðin eru í raun inngangurinn að þeim bálki lagaákvæða og áminninga ýmiss konar sem fylgja í kjölfarið, bæði í 2Mós og 5Mós, og setja fram innihald sáttmálans. Í íslensku Biblíuþýðingunni frá 1981 er kaflafyrirsögn boðorðanna tíu í 2Mós „Stjórnarskrá sáttmálans: Boðorðin tíu“. Þessi fyrirsögn og þar með skilgreining á eðli textans er ekki úr lausi lofti gripin heldur byggir á þeirri niðurstöðu ritskýrenda að boðorðin sjálf eigi sér ekki rætur í réttarkerfinu enda geti enginn dómari kveðið upp dóm á grundvelli þeirra. Miklu frekar skal líta á boðorðin sem almennar hegðunarreglur sem eiga uppruna sinn í ættbálkaspeki og ættbálkasiðferði sem eiga sér ýmsar hliðstæður í spekibókmenntum Miðausturlanda til forna (Scharbert, 81). Þau eru sem sé siðalögmál (þ. ethischer Dekalog, Braulik, 25) frekar en lög í eiginlegum skilningi. Þetta á sannarlega við um seinni hluta boðorðanna, það er frá 2Mós 20.12 („Heiðra skaltu föður þinn og móður þína …“) til 2Mós 20.17 („Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns …“) en fyrri hluti þeirra snýst um trúfesti Ísraelsmanna gagnvart Drottni, guðinum sem frelsaði þá úr þrælavistinni, og grundvallarreglur guðsdýrkunarinnar í Ísrael (bann við dýrkun annarra guða, bann við misnotkun guðsnafnsins, helgi hvíldardagsins). Innihaldslega fjalla Boðorðin þannig annars vegar um samband manns við Guð en hins vegar um samband manns við náunga sinn.
Þar sem þekkingu og lífsspeki var fyrst og fremst miðlað á milli kynslóða í ræðu frekar en riti í ættbálkasamfélögum Miðausturlanda í fornöld var það venja að orða kennsluefnið þannig að auðvelt væri að leggja það á minnið. Þannig var það gjarnan sett fram í frekar stuttum málsgreinum með svipaða uppbyggingu sem raðað var saman í klasa í tíu til tólf liðum. Slíkrar uppbyggingar sér greinilega stað í 2Mós 20.12-17 og það er líklegast á grundvelli þessarar minnistæknilegu hefðar sem 5Mós skilgreinir textann sem „tíu orð“ eða „tíu málsatriði“ (h. ʾaśereþ haddevārīm) þó hvergi sé útskýrt nákvæmlega í 5Mós hvernig textinn skiptist í tíu „málsatriði“. Að litið sé svo á að Boðorðin séu tíu talsins er því ævaforn hefð, svo forn reyndar að það mætti kannski kalla hana „upprunalega“ jafnvel þótt við vitum ekki fyrir víst hvort þeir, sem höfðu með ritun þeirra í 2Mós 20 að gera, töldu tíu eða fleiri boðorð.
Móse og bróðir hans Aron með boðorðin 10. Olíumálverk frá um 1675 eftir hollenska málarann Aaron de Chaves.
Það er hins vegar ljóst að Boðorðin, eins og þau standa í Gamla testamentinu, bæði í 2Mós og 5Mós, eru afurð flókinnar tilurðarsögu og líkur hafa verið leiddar að því að í upprunalegri mynd sinni hafi þau í raun talið tíu boð og bönn og því sé skilgreining 5Mós viðeigandi. Kenningar hafa verið settar fram um að hvorki bannið við gerð skurðgoða né hvíldardagsákvæðið hafi verið hluti af Boðorðunum í upprunalegri mynd sinni og samanstendur þá textinn af tíu boðorðum ef inngangurinn (2Mós 20.2/5Mós 5.6: „Ég er Drottinn, Guð þinn …) er skilinn sem sjálfstætt boðorð eins og gert er í gyðinglegri hefð.
Það er ekkert rétt eða rangt í þessu máli; það fer allt eftir forsendunum sem maður gefur sér hversu mörg „boðorð“ eða málsatriði hægt er að telja í textanum, annars vegar í 20. k. 2Mós en hins vegar í 5. k. 5Mós. Því ef umsagnirnar, sem setja annað hvort fram boð eða bann, eru taldar, þá eru þær alls 16 talsins en 13 eða 14 þegar tekið er tillit setningarfræðilegrar eða merkingarlegrar tengingar á milli þeirra. Það er því ekkert fast í hendi þegar kemur að því að skilgreina með óyggjandi hætti hversu mörg „boðorð“ Boðorðin tíu hafa að geyma, svo ekki sé minnst á hvernig þau skiptust á lögmálstöflurnar tvær. Þannig eru tvær jafngildar hefðir í gyðingdómi, sem annars vegar telja 14 en hins vegar tíu boðorð. Litið er svo á í gyðingdómi að trúarlögin samanstandi af 613 lagaákvæðum og þar af innihaldi boðorðin 14 lagaákvæði. En jafnframt telur rabbínskur gyðingdómur tíu boðorð.
Masoretarnir, sem voru gyðinglegir fræðimenn og málfræðingar á miðöldum, skiptu textanum í 2Mós upp í níu merkingareiningar en í 5Mós í tíu merkingareiningar. Ástæðan fyrir þessu ósamræmi er sú að í 2Mós 20.17 er sama sögnin, „að girnast“ (h. ḥmd), notuð tvisvar og versið því skilið sem eitt boðorð en í 5Mós er notaðar tvær sagnir (h. ḥmd, ʾwh) og versið þar af leiðandi skilgreint sem tvö boðorð.
Eftir sem áður er ljóst að hvað sem allri óvissu varðandi talningu Boðorðanna tíu líður þá breytir það engu um innihald þeirra og engin ástæða er til að víkja út af þeirra hefð, sem þegar var mörkuð fyrir að minnsta kosti 2500 árum, að tala um tíu boðorð.
Eftirfarandi tafla sýnir hefðbundna skiptingu Boðorðanna tíu innan ólíkra hefða gyðingdóms og kristni á grundvelli 2Mós 20.2-17:
Heimildir og myndir:
Braulik, G., Studien zu Buch und Sprache des Deuteronomiums. SBA 63. Stuttgart 2016.
Köckert, M., „Dekalog / Zehn Gebote,“ í: Das Wissenschaftliche Bibellexikon im Internet (www.wibilex.de), 2012 (sótt 20.02.2020).
Scharbert, J., Sachbuch zum Alten Testament. Aschaffenburg 1981.
Mynd af Sínaí-fjalli: Mount Moses.jpg. Höfundur myndar: Mohammed Moussa. Birt undir CC BY-SA 3.0 leyfi. (Sótt 24.2.2020).
Jón Ásgeir Sigurvinsson. „Af hverju er talað um boðorðin tíu þegar þau eru í raun fjórtán?“ Vísindavefurinn, 10. mars 2020, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=78640.
Jón Ásgeir Sigurvinsson. (2020, 10. mars). Af hverju er talað um boðorðin tíu þegar þau eru í raun fjórtán? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=78640
Jón Ásgeir Sigurvinsson. „Af hverju er talað um boðorðin tíu þegar þau eru í raun fjórtán?“ Vísindavefurinn. 10. mar. 2020. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=78640>.