Íslenskar kirkjur eru almennt frekar snauðar af myndlist og trúartáknum. Þó má í mörgum þeirra sjá táknið í ýmsum útfærslum. Oft birtist það þá með alfa (Α) og ómega (Ω), fyrsta og síðasta bókstaf gríska stafrófsins sem algengt er að nota sem tákn fyrir upphaf og endi. Táknið sem um er rætt kallast oft chi-rho eða kí-hró en það er samsett úr tveimur bókstöfum úr gríska stafrófinu: Χ (kí) og Ρ (hró). Þetta eru tveir fyrstu stafirnir í orðinu Kristur eða á grísku með latnesku letri: XPICTOC og með grísku letri ΧΡΙΣΤΟΣ. Þess vegna kallast táknið kristogram á ýmsum málum og er nokkurs konar fangamark Krists.
Kristur er gríska orðið fyrir Messías á hebresku og merkir hinn smurði. Merking kristogramsins er þá: Jesús er Kristur, það er sá Messías sem Gyðingar væntu um daga Krists. Það er því myndræn eða táknræn framsetning á trúarjátningu kristninnar í sinni einföldustu og frumlægustu mynd.
Táknið er eldfornt og keisarinn Konstantínus mikli (272–337) sem veitti kristnum mönnum trúfrelsi í rómverska heimsveldinu notaði það sem verndar- og sigurtákn sitt. Til eru helgisögur um hvernig það birtist honum á himni með fyrirheiti um að undir merki þess mundi hann vinna sigur í orustu sé stóð fyrir dyrum. Í sögu þess fléttast því saman játning trúar og blóðug stríð eins og því miður er raunum um mörg helgitákn.
Mynd:- A XP O | Old stones of the ground in the San Miniato al Mont… | Flickr. (Sótt 20.02.2020). Myndin er birt undir leyfinu Creative Commons Attribution 2.0 Generic (CC BY 2.0)