Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er best að gera til að koma í veg fyrir hæðarveiki?

Tómas Guðbjartsson, Engilbert Sigurðsson, Magnús Gottfreðsson, Ólafur Már Björnsson og Gunnar Guðmundsson

Þegar komið er upp í meira en 2500 metra yfir sjávarmáli getur hæðarveiki (e. high altitude illness) gert vart við sig. Langalgengasta birtingarform hæðarveiki er háfjallaveiki (e. acute mountain sickness, AMS) en lífshættulegir sjúkdómar eins og hæðarheilabjúgur (e. acute mountain cerebral edema, HACE) og hæðarlungnabjúgur (e. high altitude pulmonary edema, HAPE) geta einnig þróast, einkum þegar komið er yfir 3000 metra hæð.[1][2] Það eru þó ýmsar aðferðir sem má beita til að fyrirbyggja hæðarveiki, bæði almennar aðgerðir og einnig sértækari lyfjameðferð. Hér er fjallað um helstu ráðleggingar; annars vegar fyrirbyggjandi meðferð gegn háfjallaveiki og hæðarheilabjúg og hins vegar hæðarlungnabjúg.

Ýmsum aðferðum er hægt að beita til að fyrirbyggja hæðarveiki.

Hæðarveiki og hæðarheilabjúgur

Til að forðast hæðarveiki gildir enn sú gullna regla í fjallamennsku að gefa sér nægan tíma til hæðaraðlögunar.[3] Því miður gleymist þessi gamla regla oft í annríki nútímans. Varast skal að halda beint frá sjávarmáli upp í meira en 2700-3000 metra hæð. Best er að dvelja yfir nótt í meðalhæð (til dæmis 2500-2800 m) áður en lengra er haldið upp á við. Eftir það er mælt með því að hækkun sé ekki meiri en 500-600 m á dag milli svefnstaða og að taka hvíldardag fyrir hverja 1000-1200 m hækkun.[4] Oft skiptir hæð yfir sjávarmáli á næturstað meira máli en sú hæð sem gengið er upp í yfir daginn. Þannig ná flestir hæðaraðlögun með því að lækka sig í hæð í næturstað eftir dagsgöngu.[5] Gott er að ganga rólega og reyna ekki of mikið á sig. Þetta á sérstaklega við um þá sem áður hafa fengið hæðarveiki.[6]

Helstu lyf sem hægt er að nota til að fyrirbyggja eða meðhöndla háfjallaveiki og hæðarheilabjúg eru sýnd í töflu:

Lyf til að fyrirbyggja og meðhöndla hæðarveiki. Byggt á Luks AM o.fl. 2019.

LyfÁbendingInntaka
AsetasólamíðFyrirbyggja HFV, HHB
Meðferð HFV, HHB
Um munn
Um munn
DexametasónFyrirbyggja HFV, HHB
Meðferð HFV, HHB
Um munn
Um munn, í æð eða í vöðva
ÍbúprófenFyrirbyggja HFVUm munn
NífedipínFyrirbyggja HLB
Meðferð HLB
Um munn
Um munn
TadalafílFyrirbyggja HLBUm munn
SíldenafílFyrirbyggja HLBUm munn
SalmeterólFyrirbyggja HLBInnöndun
HFV: háfjallaveiki, HHB: hæðarheilabjúgur, HLB: hæðarlungnabjúgur

Parasetamól og ósérhæfðir COX-hamlar (til dæmis íbúprófen) hafa góð áhrif á háfjallahöfuðverk og er enginn afgerandi munur á virkni þeirra samkvæmt nýlegum rannsóknum.[7][8] Þeim sem ætla að ferðast frá sjávarmáli upp í meira en 3000 m hæð til næturgistingar án hæðaraðlögunar er oft ráðlagt að íhuga að taka lyf sem draga úr líkum á hæðarveiki. Langoftast er gripið til asetasólamíðs sem er karbónik-anhýdrasa hemill sem dregur úr endurupptöku bíkarbónats og natríums í nýrum. Það veldur því losun á bíkarbónati í þvagi og þar með blóðsýringu (e. metabolic acidosis). Við það eykst öndunartíðni til að leiðrétta sýrustig í blóði sem aftur eykur súrefnisupptöku í lungum.[9] Ekki er þó talið að allir sem fara í mikla hæð þurfi að taka asetasólamíð til að fyrirbyggja hæðarveiki. Þeir sem hafa áður fengið meira en aðkenningu af háfjallaveiki ættu þó að íhuga fyrirbyggjandi lyfjameðferð með lyfinu. Sömuleiðis ættu þeir sem fara mjög hratt upp án hæfilegrar hæðaraðlögunar að taka lyfið til að draga úr líkum á hæðarveiki.[10][11] Algengast er að nota asetasólamíð, 125 mg eða 250 mg, tvisvar á dag. Nýleg rannsókn sýndi að lágur skammtur, 62,5 mg tvisvar á dag, hafði ekki síðri verkun en 125 mg af asetasólamíði tvisvar á dag.[12] Byrjað er að taka lyfið sólarhring fyrir hæðaraukningu og hætt þegar aftur er komið niður fyrir 2500 m, eða ef staldrað er við í sömu hæð í meira en 4-5 sólarhringa[13] Ekki má gefa asetasólamíð þeim sem hafa ofnæmi fyrir súlfalyfjum vegna mögulegs krossofnæmis.[14] Til að ganga skugga um að lyfið þolist vel er mælt með að prófa lyfið við sjávarmál um tveimur vikum fyrir áætlaða notkun.

Sykursterinn dexametasón er talinn draga úr háræðaleka í heila og þar með minnka líkur á heilabjúg. Nota má hann í samráði við lækni sem fyrirbyggjandi meðferð ef asetasólamíð þolist ekki eða frábendingar eru fyrir notkun þess.[15][16][17] Ekki er ráðlegt að taka sykurstera í meira en 10 daga samfleytt vegna hættu á aukaverkunum og mikilvægt er að hafa í huga að einkenni hæðarveiki geta komið fram aftur þegar lyfjagjöf er hætt.[18] Ýmis önnur lyf hafa verið rannsökuð með tilliti til þess hvort þau fyrirbyggi hæðarveiki en í þeim hópi eru helst magnesíum sítrat og Ginkgo biloba. Flestar rannsóknir sem gerðar hafa verið, meðal annars safngreiningar, styðja ekki virkni þeirra.[19]

Meðal einkenna hæðarveiki eru höfuðverkur, lystarleysi, ógleði, svefntruflanir og uppköst.

Hæðarlungnabjúgur

Að jafnaði gilda sömu fyrirbyggjandi leiðbeiningar og fyrir bráða háfjallaveiki.[20] Þó er sérstaklega mælt með því að forðast of mikla áreynslu, sérstaklega hjá þeim sem eru með öndunarfærasýkingu. Ekki er mælt með kalsíumhemlinum nífedipíni til að fyrirbyggja lungnabjúg nema fyrir þá sem áður hafa fengið hæðarlungnabjúg.[21] Þeir einstaklingar ættu að hækka sig varlega og taka langvirkandi nífedipín, 30-60 mg daglega. Nífedipín veldur víkkun á lungnaslagæðum og dregur þannig úr æðaherpingnum sem súrefnisskorturinn veldur, sem aftur minnkar líkur á lungnabjúg. Fosfódíesterasa-hemlarnir tadalafíl og síldenafíl virðast hafa svipuð áhrif og nífedipín.[22] Með því að hamla fosfódíesterasa verður meira framboð af níturoxíði (NO) í lungnaslagæðum sem veldur útvíkkun þeirra án þess að hafa áhrif á kerfisblóðþrýsting. Langvirkur beta-viðtakaörvi, salmeteról, hefur verið gefinn í innúðaformi í hærri skömmtum en notaðir eru við meðferð lungnasjúkdóma eins og astma og lungnateppu. Það er talið geta flýtt fyrir að vökvi sé tekinn upp úr lungnablöðrum með því að hafa áhrif á flutning á natríum og kalíum yfir frumuhimnur.[23]

Tilvísanir:
  1. ^ Li Y, Zhang Y, Zhang Y. Research advances in pathogenesis and prophylactic measures of acute high altitude illness. Respir Med 2018; 145: 145-52.
  2. ^ Davis C, Hackett P. Advances in the Prevention and Treatment of High Altitude Illness. Emerg Med Clin North Am 2017; 35: 241-60.
  3. ^ Luks AM, Auerbach PS, Freer L, Grissom CK, Keyes LE5 McIntosh SE, et al. Wilderness Medical Society Practice Guidelines for the Prevention and Treatment of Acute Altitude Illness: 2019 Update. Wilderness Environ Med 2019; pii: S1080-6032(19)30090-0.
  4. ^ Luks AM o.fl. 2019.
  5. ^ Luks AM o.fl. 2019.
  6. ^ Luks AM, Swenson ER, Bärtsch P. Acute high-altitude sickness. Eur Respir Rev 2017; 26: pii: 160096.
  7. ^ Gertsch JH, Lipman GS, Holck PS, Merritt A, Mulcahy A, Fisher RS, et al. Prospective, double-blind, randomized, placebo-controlled comparison of acetazolamide versus ibuprofen for prophylaxis against high altitude headache: the Headache Evaluation at Altitude Trial (HEAT). Wilderness Environ Med 2010; 21: 236-43.
  8. ^ Kanaan NC, Peterson AL, Pun M, Holck PS, Starling J, Basyal B, et al. Prophylactic Acetaminophen or Ibuprofen Results in Equivalent Acute Mountain Sickness Incidence at High Altitude: A Prospective Randomized Trial. Wilderness Environ Med 2017; 28: 72-8.
  9. ^ Swenson ER. Carbonic anhydrase inhibitors and high altitude illnesses. Subcell Biochem 2014; 75: 361-86.
  10. ^ Luks AM o.fl. 2019.
  11. ^ Ritchie ND, Baggott AV, Andrew Todd WT. Acetazolamide for the prevention of acute mountain sickness--a systematic review and meta-analysis. J Travel Med 2012; 19: 298-307.
  12. ^ McIntosh SE, Hemphill M, McDevitt MC, Gurung TY, Ghale M, Knott JR, et al. Reduced Acetazolamide Dosing in Countering Altitude Illness: A Comparison of 62.5 vs 125 mg (the RADICAL Trial). Wilderness Environ Med 2019; 30: 12-21.
  13. ^ Luks AM o.fl. 2019.
  14. ^ Luks AM o.fl. 2019.
  15. ^ Luks AM o.fl. 2019.
  16. ^ Haslam NR, Garth R, Kelly N. Inappropriate Dexamethasone Use by a Trekker in Nepal: A Case Report. Wilderness Environ Med 2017; 28: 318-21.
  17. ^ O‘Hara R, Serres J, Dodson W, Wright B, Ordway J, Powell E, et al. The use of dexamethasone in support of highaltitude ground operations and physical performance: review of the literature. J Spec Oper Med 2014; 14: 53-8.
  18. ^ Subedi BH, Pokharel J, Goodman TL, Amatya S, Freer L, Banskota N et al. Complications of steroid use on Mt. Everest. Wilderness Environ Med 2010; 21: 345-8.
  19. ^ Gonzalez Garay A, Molano Franco D, Nieto Estrada VH, Marti-Carvajal AJ, Arevalo-Rodriguez I. Interventions for preventing high altitude illness: Part 2. Less commonly-used drugs. Cochrane Database Syst Rev 2018; 3: CD012983.
  20. ^ Luks AM o.fl. 2019.
  21. ^ Joyce KE, Lucas SJE, Imray CHE, Balanos GM, Wright AD. Advances in the available non-biological pharmacotherapy prevention and treatment of acute mountain sickness and high altitude cerebral and pulmonary oedema. Expert Opin Pharmacother 2018; 19: 1891-902.
  22. ^ Leshem E, Caine Y, Rosenberg E, Maaravi Y, Hermesh H, Schwartz E. Tadalafil and acetazolamide versus acetazolamide for the prevention of severe high-altitude illness. J Travel Med 2012; 19: 308-10.
  23. ^ Wang X, Chen H, Li R, Fu W, Yao C. The effects of respiratory inhaled drugs on the prevention of acute mountain sickness. Medicine (Baltimore) 2018; 97: e11788.

Myndir:


Þetta svar er hluti af lengri grein, Hæðarveiki og tengdir sjúkdómar, sem birtist í Læknablaðinu 11. tbl. 105. árg. 2019 og birt hér með góðfúslegu leyfi höfunda. Áhugasamir lesendur eru hvattir til að kynna sér greinina í heild sinni.

Höfundar

Tómas Guðbjartsson

prófessor í skurðlækningum við HÍ

Engilbert Sigurðsson

prófessor í geðlæknisfræði við HÍ og yfirlæknir á LSH

Magnús Gottfreðsson

prófessor í læknisfræði við HÍ, sérfræðingur í smitsjúkdómum

Gunnar Guðmundsson

prófessor við læknadeild HÍ

Útgáfudagur

28.9.2020

Spyrjandi

Jón H.

Tilvísun

Tómas Guðbjartsson, Engilbert Sigurðsson, Magnús Gottfreðsson, Ólafur Már Björnsson og Gunnar Guðmundsson. „Hvað er best að gera til að koma í veg fyrir hæðarveiki?“ Vísindavefurinn, 28. september 2020, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=78488.

Tómas Guðbjartsson, Engilbert Sigurðsson, Magnús Gottfreðsson, Ólafur Már Björnsson og Gunnar Guðmundsson. (2020, 28. september). Hvað er best að gera til að koma í veg fyrir hæðarveiki? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=78488

Tómas Guðbjartsson, Engilbert Sigurðsson, Magnús Gottfreðsson, Ólafur Már Björnsson og Gunnar Guðmundsson. „Hvað er best að gera til að koma í veg fyrir hæðarveiki?“ Vísindavefurinn. 28. sep. 2020. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=78488>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er best að gera til að koma í veg fyrir hæðarveiki?
Þegar komið er upp í meira en 2500 metra yfir sjávarmáli getur hæðarveiki (e. high altitude illness) gert vart við sig. Langalgengasta birtingarform hæðarveiki er háfjallaveiki (e. acute mountain sickness, AMS) en lífshættulegir sjúkdómar eins og hæðarheilabjúgur (e. acute mountain cerebral edema, HACE) og hæðarlungnabjúgur (e. high altitude pulmonary edema, HAPE) geta einnig þróast, einkum þegar komið er yfir 3000 metra hæð.[1][2] Það eru þó ýmsar aðferðir sem má beita til að fyrirbyggja hæðarveiki, bæði almennar aðgerðir og einnig sértækari lyfjameðferð. Hér er fjallað um helstu ráðleggingar; annars vegar fyrirbyggjandi meðferð gegn háfjallaveiki og hæðarheilabjúg og hins vegar hæðarlungnabjúg.

Ýmsum aðferðum er hægt að beita til að fyrirbyggja hæðarveiki.

Hæðarveiki og hæðarheilabjúgur

Til að forðast hæðarveiki gildir enn sú gullna regla í fjallamennsku að gefa sér nægan tíma til hæðaraðlögunar.[3] Því miður gleymist þessi gamla regla oft í annríki nútímans. Varast skal að halda beint frá sjávarmáli upp í meira en 2700-3000 metra hæð. Best er að dvelja yfir nótt í meðalhæð (til dæmis 2500-2800 m) áður en lengra er haldið upp á við. Eftir það er mælt með því að hækkun sé ekki meiri en 500-600 m á dag milli svefnstaða og að taka hvíldardag fyrir hverja 1000-1200 m hækkun.[4] Oft skiptir hæð yfir sjávarmáli á næturstað meira máli en sú hæð sem gengið er upp í yfir daginn. Þannig ná flestir hæðaraðlögun með því að lækka sig í hæð í næturstað eftir dagsgöngu.[5] Gott er að ganga rólega og reyna ekki of mikið á sig. Þetta á sérstaklega við um þá sem áður hafa fengið hæðarveiki.[6]

Helstu lyf sem hægt er að nota til að fyrirbyggja eða meðhöndla háfjallaveiki og hæðarheilabjúg eru sýnd í töflu:

Lyf til að fyrirbyggja og meðhöndla hæðarveiki. Byggt á Luks AM o.fl. 2019.

LyfÁbendingInntaka
AsetasólamíðFyrirbyggja HFV, HHB
Meðferð HFV, HHB
Um munn
Um munn
DexametasónFyrirbyggja HFV, HHB
Meðferð HFV, HHB
Um munn
Um munn, í æð eða í vöðva
ÍbúprófenFyrirbyggja HFVUm munn
NífedipínFyrirbyggja HLB
Meðferð HLB
Um munn
Um munn
TadalafílFyrirbyggja HLBUm munn
SíldenafílFyrirbyggja HLBUm munn
SalmeterólFyrirbyggja HLBInnöndun
HFV: háfjallaveiki, HHB: hæðarheilabjúgur, HLB: hæðarlungnabjúgur

Parasetamól og ósérhæfðir COX-hamlar (til dæmis íbúprófen) hafa góð áhrif á háfjallahöfuðverk og er enginn afgerandi munur á virkni þeirra samkvæmt nýlegum rannsóknum.[7][8] Þeim sem ætla að ferðast frá sjávarmáli upp í meira en 3000 m hæð til næturgistingar án hæðaraðlögunar er oft ráðlagt að íhuga að taka lyf sem draga úr líkum á hæðarveiki. Langoftast er gripið til asetasólamíðs sem er karbónik-anhýdrasa hemill sem dregur úr endurupptöku bíkarbónats og natríums í nýrum. Það veldur því losun á bíkarbónati í þvagi og þar með blóðsýringu (e. metabolic acidosis). Við það eykst öndunartíðni til að leiðrétta sýrustig í blóði sem aftur eykur súrefnisupptöku í lungum.[9] Ekki er þó talið að allir sem fara í mikla hæð þurfi að taka asetasólamíð til að fyrirbyggja hæðarveiki. Þeir sem hafa áður fengið meira en aðkenningu af háfjallaveiki ættu þó að íhuga fyrirbyggjandi lyfjameðferð með lyfinu. Sömuleiðis ættu þeir sem fara mjög hratt upp án hæfilegrar hæðaraðlögunar að taka lyfið til að draga úr líkum á hæðarveiki.[10][11] Algengast er að nota asetasólamíð, 125 mg eða 250 mg, tvisvar á dag. Nýleg rannsókn sýndi að lágur skammtur, 62,5 mg tvisvar á dag, hafði ekki síðri verkun en 125 mg af asetasólamíði tvisvar á dag.[12] Byrjað er að taka lyfið sólarhring fyrir hæðaraukningu og hætt þegar aftur er komið niður fyrir 2500 m, eða ef staldrað er við í sömu hæð í meira en 4-5 sólarhringa[13] Ekki má gefa asetasólamíð þeim sem hafa ofnæmi fyrir súlfalyfjum vegna mögulegs krossofnæmis.[14] Til að ganga skugga um að lyfið þolist vel er mælt með að prófa lyfið við sjávarmál um tveimur vikum fyrir áætlaða notkun.

Sykursterinn dexametasón er talinn draga úr háræðaleka í heila og þar með minnka líkur á heilabjúg. Nota má hann í samráði við lækni sem fyrirbyggjandi meðferð ef asetasólamíð þolist ekki eða frábendingar eru fyrir notkun þess.[15][16][17] Ekki er ráðlegt að taka sykurstera í meira en 10 daga samfleytt vegna hættu á aukaverkunum og mikilvægt er að hafa í huga að einkenni hæðarveiki geta komið fram aftur þegar lyfjagjöf er hætt.[18] Ýmis önnur lyf hafa verið rannsökuð með tilliti til þess hvort þau fyrirbyggi hæðarveiki en í þeim hópi eru helst magnesíum sítrat og Ginkgo biloba. Flestar rannsóknir sem gerðar hafa verið, meðal annars safngreiningar, styðja ekki virkni þeirra.[19]

Meðal einkenna hæðarveiki eru höfuðverkur, lystarleysi, ógleði, svefntruflanir og uppköst.

Hæðarlungnabjúgur

Að jafnaði gilda sömu fyrirbyggjandi leiðbeiningar og fyrir bráða háfjallaveiki.[20] Þó er sérstaklega mælt með því að forðast of mikla áreynslu, sérstaklega hjá þeim sem eru með öndunarfærasýkingu. Ekki er mælt með kalsíumhemlinum nífedipíni til að fyrirbyggja lungnabjúg nema fyrir þá sem áður hafa fengið hæðarlungnabjúg.[21] Þeir einstaklingar ættu að hækka sig varlega og taka langvirkandi nífedipín, 30-60 mg daglega. Nífedipín veldur víkkun á lungnaslagæðum og dregur þannig úr æðaherpingnum sem súrefnisskorturinn veldur, sem aftur minnkar líkur á lungnabjúg. Fosfódíesterasa-hemlarnir tadalafíl og síldenafíl virðast hafa svipuð áhrif og nífedipín.[22] Með því að hamla fosfódíesterasa verður meira framboð af níturoxíði (NO) í lungnaslagæðum sem veldur útvíkkun þeirra án þess að hafa áhrif á kerfisblóðþrýsting. Langvirkur beta-viðtakaörvi, salmeteról, hefur verið gefinn í innúðaformi í hærri skömmtum en notaðir eru við meðferð lungnasjúkdóma eins og astma og lungnateppu. Það er talið geta flýtt fyrir að vökvi sé tekinn upp úr lungnablöðrum með því að hafa áhrif á flutning á natríum og kalíum yfir frumuhimnur.[23]

Tilvísanir:
  1. ^ Li Y, Zhang Y, Zhang Y. Research advances in pathogenesis and prophylactic measures of acute high altitude illness. Respir Med 2018; 145: 145-52.
  2. ^ Davis C, Hackett P. Advances in the Prevention and Treatment of High Altitude Illness. Emerg Med Clin North Am 2017; 35: 241-60.
  3. ^ Luks AM, Auerbach PS, Freer L, Grissom CK, Keyes LE5 McIntosh SE, et al. Wilderness Medical Society Practice Guidelines for the Prevention and Treatment of Acute Altitude Illness: 2019 Update. Wilderness Environ Med 2019; pii: S1080-6032(19)30090-0.
  4. ^ Luks AM o.fl. 2019.
  5. ^ Luks AM o.fl. 2019.
  6. ^ Luks AM, Swenson ER, Bärtsch P. Acute high-altitude sickness. Eur Respir Rev 2017; 26: pii: 160096.
  7. ^ Gertsch JH, Lipman GS, Holck PS, Merritt A, Mulcahy A, Fisher RS, et al. Prospective, double-blind, randomized, placebo-controlled comparison of acetazolamide versus ibuprofen for prophylaxis against high altitude headache: the Headache Evaluation at Altitude Trial (HEAT). Wilderness Environ Med 2010; 21: 236-43.
  8. ^ Kanaan NC, Peterson AL, Pun M, Holck PS, Starling J, Basyal B, et al. Prophylactic Acetaminophen or Ibuprofen Results in Equivalent Acute Mountain Sickness Incidence at High Altitude: A Prospective Randomized Trial. Wilderness Environ Med 2017; 28: 72-8.
  9. ^ Swenson ER. Carbonic anhydrase inhibitors and high altitude illnesses. Subcell Biochem 2014; 75: 361-86.
  10. ^ Luks AM o.fl. 2019.
  11. ^ Ritchie ND, Baggott AV, Andrew Todd WT. Acetazolamide for the prevention of acute mountain sickness--a systematic review and meta-analysis. J Travel Med 2012; 19: 298-307.
  12. ^ McIntosh SE, Hemphill M, McDevitt MC, Gurung TY, Ghale M, Knott JR, et al. Reduced Acetazolamide Dosing in Countering Altitude Illness: A Comparison of 62.5 vs 125 mg (the RADICAL Trial). Wilderness Environ Med 2019; 30: 12-21.
  13. ^ Luks AM o.fl. 2019.
  14. ^ Luks AM o.fl. 2019.
  15. ^ Luks AM o.fl. 2019.
  16. ^ Haslam NR, Garth R, Kelly N. Inappropriate Dexamethasone Use by a Trekker in Nepal: A Case Report. Wilderness Environ Med 2017; 28: 318-21.
  17. ^ O‘Hara R, Serres J, Dodson W, Wright B, Ordway J, Powell E, et al. The use of dexamethasone in support of highaltitude ground operations and physical performance: review of the literature. J Spec Oper Med 2014; 14: 53-8.
  18. ^ Subedi BH, Pokharel J, Goodman TL, Amatya S, Freer L, Banskota N et al. Complications of steroid use on Mt. Everest. Wilderness Environ Med 2010; 21: 345-8.
  19. ^ Gonzalez Garay A, Molano Franco D, Nieto Estrada VH, Marti-Carvajal AJ, Arevalo-Rodriguez I. Interventions for preventing high altitude illness: Part 2. Less commonly-used drugs. Cochrane Database Syst Rev 2018; 3: CD012983.
  20. ^ Luks AM o.fl. 2019.
  21. ^ Joyce KE, Lucas SJE, Imray CHE, Balanos GM, Wright AD. Advances in the available non-biological pharmacotherapy prevention and treatment of acute mountain sickness and high altitude cerebral and pulmonary oedema. Expert Opin Pharmacother 2018; 19: 1891-902.
  22. ^ Leshem E, Caine Y, Rosenberg E, Maaravi Y, Hermesh H, Schwartz E. Tadalafil and acetazolamide versus acetazolamide for the prevention of severe high-altitude illness. J Travel Med 2012; 19: 308-10.
  23. ^ Wang X, Chen H, Li R, Fu W, Yao C. The effects of respiratory inhaled drugs on the prevention of acute mountain sickness. Medicine (Baltimore) 2018; 97: e11788.

Myndir:


Þetta svar er hluti af lengri grein, Hæðarveiki og tengdir sjúkdómar, sem birtist í Læknablaðinu 11. tbl. 105. árg. 2019 og birt hér með góðfúslegu leyfi höfunda. Áhugasamir lesendur eru hvattir til að kynna sér greinina í heild sinni....