Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Nú eru þetta helgirit sem að mínu áliti ættu ekki að fara í pappírsgámana. Mér er kunnugt um gamla Guðbrandsbiblíu sem ekki er talið neitt annað við að gera en að eyða henni.
Það er rétt að Biblían er helgirit kristinna manna og Gamla testamentið auk þess trúarrit Gyðinga. Flestar biblíuútgáfur bera einnig undirtitilinn Heilög ritning og á ensku er titillinn gjarna The Holy Bible. En spyrja má í hverju heilagleiki Biblíunnar sé fólginn.
Hér skal ekki mælt fyrir þeim skilningi að prentgripurinn Biblían sé heilagur þótt ytra útlit hans sé oft þannig úr garði gert að það ýti undir slíkt álit. Það er líka ríkt í hugum margra að bókin sjálf sé í raun og veru heilög. Ýmsum brá þannig í brún þegar þeir uppgötvuðu að við guðfræðideild HÍ voru til Biblíur sem heil rit eða að minnsta kosti einstakir kaflar höfðu verið skornir úr. Þetta voru eintök sem stúdentar máttu hafa við höndina í prófum án þess að geta slegið upp á sjálfum úrlausnarefnunum. Ýmsum þótti þó óvarlega að farið!
Engar skráðar eða óskráðar reglur eru til um förgun Biblíunnar.
Hér er heldur ekki litið svo á að textinn sem prentaður er í Biblíunni sé heilagur. Hann tekur oft miklum breytingum milli þýðinga eftir því sem þekkingu í biblíufræðum fleytir fram eða þýðingarviðhorf breytast. Sumir álíta þó að texti eldri þýðinga sé á einhvern hátt heilagur og að hann hljóti að „saurgast“ við breytingar. Til er saga af íhaldssömum trúarleiðtoga sem keypti upp gamalt upplag af Biblíunni til að nota í söfnuði sínum. Hann gerði sér á hinn bóginn ekki ljóst að gamla þýðingin var mótuð af biblíuskilningi sem stangaðist mjög á við hans eigin skoðanir og að nýja þýðingin hefði hugsanlega þjónað hjörð hans betur.
Allt um þetta nýtur Biblían sérstakrar helgi í hugum flestra sem játa kristna trú og fólk hefur leitast við að sýna að svo sé með ýmsu móti. Áður fyrr áttu mörg íslensk heimili nokkurn bókakost þar sem bæði gátu verið prentaðar bækur og handskrifuð pappírskver. Þeim var oft skipt í tvennt: veraldleg rit, til dæmis Íslendingasögur og rímur, og andleg eða trúarleg rit öðru nafni guðsorðabækur. Það voru hugvekjusöfn, postillur og bæna- og sálmakver sem notuð voru við heimilisguðræknina. Biblíueign var aftur á móti lengi takmörkuð vegna þess hve dýr Biblían var. Guðsorðabækurnar voru oft geymdar í sérstakri hillu en ekki látnar blandast við veraldlegu ritin. Þetta sýnir að þær þóttu búa yfir sérstakri helgi eða heilagleika sem standa þyrfti vörð um. Í hugum margra var heilagleikinn svo mikill að bækurnar áttu að geta bægt hættu og böli, hinu illa í sérhverri mynd, frá eiganda sínum. Þess vegna voru þær oft lagðar í kistu með látnum eða notuð sem verndargripir á annan hátt. Enn í dag er mörgum ríkt í huga að Biblía sé á heimilinu þótt hún sé ef til vill ekki mikið lesin. Allt er þetta gott og gilt þótt sérstök guðfræði liggi þar ekki að baki.
Fyrir þeim sem játa kristna trú og þá ekki síst í lútherskum anda er það mikilvæg trúarsannindi að í Biblíunni sé Guðs orð að finna á sérstakan hátt þótt ekki þurfi það álit að koma fram í bókstafstrú. Af þeim sökum má líta svo á að bókin sé eins konar hliðstæða skrínis er varðveitir dýrgripi eða helga dóma og sé því heilög þótt helgin felist ekki í gripnum sjálfum eða hinum prentaða texta hans. Fyrir þeim sem þannig hugsa er ekki saman hvernig Biblíum er fargað þegar að því kemur að enginn vill eiga þær lengur eða þegar þær eru orðnar laskaðar og snjáðar.
Er þá komið að svarinu við spurningunni: Engar skráðar eða óskráðar reglur eru til um förgun Biblíunnar. Þó er æskilegt að það sé gert á verðugan hátt og að gripnum sé sýnd virðing til hins síðasta. Ein aðferð væri að eyða bókinni á sama hátt og íslenska fánanum en hann skal brenna þegar hann er ekki lengur nothæfur. Í nútímasamfélagi þegar fólk fer ekki með opinn eld í sama mæli og áður mætti líka hugsa sér að afhenda Biblíuna einhverjum sem tekur að sér „örugga eyðingu gagna“ og fara þá með hana á sama hátt og skjöl sem efnisins vegna má ekki henda í ruslið eða láta liggja á glámbekk.
Opna úr svonefndri Guðbrandsbiblíu sem er afar fágæt í dag.
Að lokum skal svo á það bent að enginn ætti að eyða gömlum Biblíum nema að vel yfirlögðu ráði og eftir að hafa reynt að koma þeim í hendur einhvers sem haft getur gagn eða gaman af gripnum. Margar biblíuútgáfur eru til að mynda fágætar nú á dögum og geta búið yfir miklu menningar- og söfnunargildi og jafnvel verið verðmætar. Svo er til dæmis um íslenskar Biblíur sem gefnar eru út fyrir 1800 og áður en ódýrar alþýðuútgáfur tóku að koma á markað. Sama máli getur vel gegnt um yngri útgáfur og jafnvel einstök eintök af Biblíunni sem til dæmis hafa gengið milli kynslóða og bera hugsanlega eigendasögu sinni vitni með áritunum, undirstrikunum eða öðrum persónulegum ummerkjum eftir fyrri eigendur.
Óháð því hvaða afstöðu við höfum til helgi Ritningarinnar sem trúarrits ættu allri að velta því fyrir sér hvort ekki sé mögulegt að gefa bókinni framhaldslíf í höndum einhvers annars áður en henni er brennt eða hún sett í gagnaeyðingu.
Myndir:
Hjalti Hugason. „Eru einhverjar reglur til um hvernig eigi að eyða gömlum, skemmdum Biblíum?“ Vísindavefurinn, 21. febrúar 2020, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=78371.
Hjalti Hugason. (2020, 21. febrúar). Eru einhverjar reglur til um hvernig eigi að eyða gömlum, skemmdum Biblíum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=78371
Hjalti Hugason. „Eru einhverjar reglur til um hvernig eigi að eyða gömlum, skemmdum Biblíum?“ Vísindavefurinn. 21. feb. 2020. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=78371>.