Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað lásu Íslendingar á 18. öld?

Már Jónsson

Ætla má að um 1740 hafi rúmlega þriðjungur fullorðinna Íslending getað lesið sér til gagns á bók, nokkru færri konur en karlar. Árin 1741–1745 fóru Ludvig Harboe, síðar biskup á Sjálandi, og Jón Þorkelsson, fyrrum rektor Skálholtsskóla, um landið á vegum konungs og ræddu við presta, sem margir hverjir voru illa að sér og því ófærir um að búa börn undir fermingu eða sjá til þess að þau lærðu að lesa. Þannig voru aðeins sjö börn af tuttugu læs í Rípursókn í Skagafirði en í sóknum Hvamms og Ketu flestir drengir læsir en stúlkur færri. Víða var þó ástandið betra, til að mynda í Fljótum þar sem flest af 53 börnum voru læs og óvenjulega vel að sér í kristnum fræðum.

Fyrir kemur að þess er getið að foreldrar séu ekki læsir og því vanmegnug um að kenna börnum sínum. Í Gullbringu- og Kjósarsýslum voru að sögn presta 863 íbúar læsir af 3068 og séu börn yngri en tíu ára dregin frá, líklega þriðji hluti hópsins, má gera ráð fyrir að 43% hinna hafi kunnað að lesa. Meðal ráðstafana sem gripið var til að lokinni heimsókn Harboes til landsins var svonefnd húsagatilskipun 3. júní 1746, þar sem í fyrsta sinn var kveðið á um skyldu foreldra til að kenna börnum að lesa, væru þeir læsir sjálfir, en annars einhverjir á heimilinu sem voru það: „eiga þeir foreldrar sem eru læsir eður eitthvört þeirra hjúa er læst, so fljótt börnin eru fimm til sex ára gömul, að láta þau taka til að læra að lesa á bók“. Á hverju heimili „hvar nokkur er læs“ átti að minnsta kosti einu sinni á dag að lesa úr biblíunni eða „annari andríkri bók“. Væri enginn læs átti fólk að fara til næsta bæjar „þangað sem læst fólk er“. Yrði því ekki viðkomið eða fjarlægðir voru miklar átti sá heimilismaður sem mesta þekkingu hafði dag hvern að fara með það sem hann kunni af barnalærdómi sínum eða sálmum.

Svonefnd húsagatilskipun var gefin út 3. júní 1746. Í henni var kveðið á um skyldu foreldra til að kenna börnum að lesa. Samkvæmt tilskipuninni átti að lesa að minnsta kosti einu sinni á dag úr biblíunni eða annarri andríkri bók. Myndin sýnir húslestur og er eftir danska portrettmálarann August Schiøtt (1823-1895).

Prestar áttu framvegis að fylgjast grannt með heimilum í prestakallinu, meta kunnáttu sóknarbarna sinna og skrá það sem til var af guðsorðabókum. Nokkuð er til af húsvitjanabókum (sóknarmannatölum) frá næstu áratugum og má um fyrra atriðið tilgreina sýnishorn úr Myrkársókn í Hörgárdal, en þar voru 24 börn árið 1742 og fá þeirra læs, enda kvartaði prestur undan því að foreldrar vanræktu að koma með börn sín til uppfræðslu. Árið 1757 var ástandið mun betra, því börn 10 ára og eldri voru nú upp til hópa læs, til dæmis nöfnurnar Guðrún Halldórsdóttir og Guðrún Pétursdóttir, báðar 11 ára; sú fyrri „nokkuð læs“ og hin „lesandi“. Undantekningar voru vissulega á þessu og nægir að nefna Einar Árnason 13 ára sem ekki var læs en kunni þó undirstöðuatriði kristindómsins: „tornæmur, lifir á sveitinni“.

Mynd af blaðsíðu í sóknarmannatali Myrkársóknar, 1757-1765.

Af fullorðnum voru fleiri ólæsir, sem þá höfðu ekki notið lestrarkennsluátaks undanfarinna árs, svo sem húsfreyjurnar Kristín Ásmundsdóttir 41 árs og Kristín Bjarnadóttir 49 ára, á meðan Eiríkur Hallgrímsson bóndi, 44 ára, taldist „allæs“. Ef marka má athuganir Hallgríms Hallgrímssonar var svo komið litlu fyrir aldamótin 1800 að það heyrði til undantekninga að nokkur væri ólæs. Væri vert að kanna það efni til hlítar, sem og það hvað fólk las, hvenær það las og hvernig, að teknu tilliti til þröngra og dimmra húsakynna með afar takmarkaða lýsingu frá daufum og fáum kolum eða lömpum.

Sóknarmannatöl gefa ófullnægjandi mynd af bókakosti landsmanna og þar eru uppskriftir dánarbúa betri heimild, því þær ná til allra bóka sem fólk átti við andlátið, ekki bara guðsorðabóka. Reyndar kemur í ljós að slík rit voru nálægt því einráð á heimilum bænda. Þannig átti Bæring Bæringsson bóndi í Emburhöfða í Dalasýslu, sem lést 69 ára gamall árið 1793, einungis grallara (sálmasöngsbók), hugvekjubók og svonefndar Þórðarbænir sem komu út í ótal útgáfum á öldinni og geymdu bænir fyrir ýmis tilefni, svo sem vetrarkomu og barnsfæðingar. Ári fyrr átti Guðrún Steingrímsdóttir, 64 ára húsfreyja á Hellu í Bervík á Snæfellsnesi, sömu bækur og Bæring, en að auki Vídalínspostillu og Passíusálmana.

Lítið var um önnur rit en guðsorðabækur á heimilum bænda á 18. öld. Atli eftir Björn Halldórsson er eitt fárra útgefinna verka á 18. öld sem ekki flokkast sem guðsorðabók. Myndin sýnir kápu Atla.

Á flestum heimilum voru bækurnar þó fleiri eða 8,6 að meðaltali samkvæmt úttekt Sólrúnar Jensdóttur á 1149 dánarbúum alþýðufólks frá síðari helmingi 18. aldar. Samanlagt fundust í þeim skrám 9925 bækur og af þeim voru 9298 guðsorðabækur eða 94%. Framboð var líka langmest af trúarlegum ritum og varla annað gefið út á prenti á Íslandi fyrr en tvö bindi Íslendingasagna komu út að Hólum í Hjaltadal árið 1756 og Egils saga í Hrappsey árið 1782. Þar voru líka gefin út ýmis rit til leiðbeiningar um búskap sem rötuðu inn á heimili, til dæmis að Krossi á Skarðsströnd árið 1791. Þá lét Helgi Helgason, 33 ára bóndi, eftir sig „Hólasögur í 4to, lasnar“ og Atla séra Björns Halldórssonar sem kom út í Hrappsey árið 1783, með undirtitli sem segir allt um efnið: „Ráðagjörðir yngismanns um búnað sinn, helst um jarðar- og kvikfjárrækt, aðferð og ágóða, með andsvari gamals bónda, samanskrifað fyrir fátækis frumbýlinga, einkanlega þá sem reisa bú á eyðjörðum“.

Óprentaðar heimildir:
  • Þjóðskjalasafn Íslands. Sýsluskjalasafn.
  • Dalasýsla ED1/3, 4. Skiptabók 1782–1804.
  • Snæfellsnessýsla ED2/130. Dánarbú 1785–1812.

Prentaðar heimildir:
  • Alþingisbækur Íslands XIII (Reykjavík 1973), bls. 563–577 (húsagatilskipunin).
  • Gísli Ágúst Gunnlaugsson, „Ljós, lestur og félagslegt taumhald“, Ný saga 5 (1991), bls. 62–66.
  • Hallgrímur Hallgrímsson, Íslensk alþýðumentun á 18. öld. Reykjavík 1925.
  • Loftur Guttormsson, „Læsi“, Íslensk þjóðmenning VI (Reykjavík 1989), bls. 117–144.
  • Sólrún Jensdóttir, „Books owned by ordinary people in Iceland 1750–1830“, Saga-Book 19 (1974–1977), bls. 264–292.

Myndir:

Höfundur

Már Jónsson

prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

3.12.2015

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Már Jónsson. „Hvað lásu Íslendingar á 18. öld?“ Vísindavefurinn, 3. desember 2015, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=71233.

Már Jónsson. (2015, 3. desember). Hvað lásu Íslendingar á 18. öld? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=71233

Már Jónsson. „Hvað lásu Íslendingar á 18. öld?“ Vísindavefurinn. 3. des. 2015. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=71233>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað lásu Íslendingar á 18. öld?
Ætla má að um 1740 hafi rúmlega þriðjungur fullorðinna Íslending getað lesið sér til gagns á bók, nokkru færri konur en karlar. Árin 1741–1745 fóru Ludvig Harboe, síðar biskup á Sjálandi, og Jón Þorkelsson, fyrrum rektor Skálholtsskóla, um landið á vegum konungs og ræddu við presta, sem margir hverjir voru illa að sér og því ófærir um að búa börn undir fermingu eða sjá til þess að þau lærðu að lesa. Þannig voru aðeins sjö börn af tuttugu læs í Rípursókn í Skagafirði en í sóknum Hvamms og Ketu flestir drengir læsir en stúlkur færri. Víða var þó ástandið betra, til að mynda í Fljótum þar sem flest af 53 börnum voru læs og óvenjulega vel að sér í kristnum fræðum.

Fyrir kemur að þess er getið að foreldrar séu ekki læsir og því vanmegnug um að kenna börnum sínum. Í Gullbringu- og Kjósarsýslum voru að sögn presta 863 íbúar læsir af 3068 og séu börn yngri en tíu ára dregin frá, líklega þriðji hluti hópsins, má gera ráð fyrir að 43% hinna hafi kunnað að lesa. Meðal ráðstafana sem gripið var til að lokinni heimsókn Harboes til landsins var svonefnd húsagatilskipun 3. júní 1746, þar sem í fyrsta sinn var kveðið á um skyldu foreldra til að kenna börnum að lesa, væru þeir læsir sjálfir, en annars einhverjir á heimilinu sem voru það: „eiga þeir foreldrar sem eru læsir eður eitthvört þeirra hjúa er læst, so fljótt börnin eru fimm til sex ára gömul, að láta þau taka til að læra að lesa á bók“. Á hverju heimili „hvar nokkur er læs“ átti að minnsta kosti einu sinni á dag að lesa úr biblíunni eða „annari andríkri bók“. Væri enginn læs átti fólk að fara til næsta bæjar „þangað sem læst fólk er“. Yrði því ekki viðkomið eða fjarlægðir voru miklar átti sá heimilismaður sem mesta þekkingu hafði dag hvern að fara með það sem hann kunni af barnalærdómi sínum eða sálmum.

Svonefnd húsagatilskipun var gefin út 3. júní 1746. Í henni var kveðið á um skyldu foreldra til að kenna börnum að lesa. Samkvæmt tilskipuninni átti að lesa að minnsta kosti einu sinni á dag úr biblíunni eða annarri andríkri bók. Myndin sýnir húslestur og er eftir danska portrettmálarann August Schiøtt (1823-1895).

Prestar áttu framvegis að fylgjast grannt með heimilum í prestakallinu, meta kunnáttu sóknarbarna sinna og skrá það sem til var af guðsorðabókum. Nokkuð er til af húsvitjanabókum (sóknarmannatölum) frá næstu áratugum og má um fyrra atriðið tilgreina sýnishorn úr Myrkársókn í Hörgárdal, en þar voru 24 börn árið 1742 og fá þeirra læs, enda kvartaði prestur undan því að foreldrar vanræktu að koma með börn sín til uppfræðslu. Árið 1757 var ástandið mun betra, því börn 10 ára og eldri voru nú upp til hópa læs, til dæmis nöfnurnar Guðrún Halldórsdóttir og Guðrún Pétursdóttir, báðar 11 ára; sú fyrri „nokkuð læs“ og hin „lesandi“. Undantekningar voru vissulega á þessu og nægir að nefna Einar Árnason 13 ára sem ekki var læs en kunni þó undirstöðuatriði kristindómsins: „tornæmur, lifir á sveitinni“.

Mynd af blaðsíðu í sóknarmannatali Myrkársóknar, 1757-1765.

Af fullorðnum voru fleiri ólæsir, sem þá höfðu ekki notið lestrarkennsluátaks undanfarinna árs, svo sem húsfreyjurnar Kristín Ásmundsdóttir 41 árs og Kristín Bjarnadóttir 49 ára, á meðan Eiríkur Hallgrímsson bóndi, 44 ára, taldist „allæs“. Ef marka má athuganir Hallgríms Hallgrímssonar var svo komið litlu fyrir aldamótin 1800 að það heyrði til undantekninga að nokkur væri ólæs. Væri vert að kanna það efni til hlítar, sem og það hvað fólk las, hvenær það las og hvernig, að teknu tilliti til þröngra og dimmra húsakynna með afar takmarkaða lýsingu frá daufum og fáum kolum eða lömpum.

Sóknarmannatöl gefa ófullnægjandi mynd af bókakosti landsmanna og þar eru uppskriftir dánarbúa betri heimild, því þær ná til allra bóka sem fólk átti við andlátið, ekki bara guðsorðabóka. Reyndar kemur í ljós að slík rit voru nálægt því einráð á heimilum bænda. Þannig átti Bæring Bæringsson bóndi í Emburhöfða í Dalasýslu, sem lést 69 ára gamall árið 1793, einungis grallara (sálmasöngsbók), hugvekjubók og svonefndar Þórðarbænir sem komu út í ótal útgáfum á öldinni og geymdu bænir fyrir ýmis tilefni, svo sem vetrarkomu og barnsfæðingar. Ári fyrr átti Guðrún Steingrímsdóttir, 64 ára húsfreyja á Hellu í Bervík á Snæfellsnesi, sömu bækur og Bæring, en að auki Vídalínspostillu og Passíusálmana.

Lítið var um önnur rit en guðsorðabækur á heimilum bænda á 18. öld. Atli eftir Björn Halldórsson er eitt fárra útgefinna verka á 18. öld sem ekki flokkast sem guðsorðabók. Myndin sýnir kápu Atla.

Á flestum heimilum voru bækurnar þó fleiri eða 8,6 að meðaltali samkvæmt úttekt Sólrúnar Jensdóttur á 1149 dánarbúum alþýðufólks frá síðari helmingi 18. aldar. Samanlagt fundust í þeim skrám 9925 bækur og af þeim voru 9298 guðsorðabækur eða 94%. Framboð var líka langmest af trúarlegum ritum og varla annað gefið út á prenti á Íslandi fyrr en tvö bindi Íslendingasagna komu út að Hólum í Hjaltadal árið 1756 og Egils saga í Hrappsey árið 1782. Þar voru líka gefin út ýmis rit til leiðbeiningar um búskap sem rötuðu inn á heimili, til dæmis að Krossi á Skarðsströnd árið 1791. Þá lét Helgi Helgason, 33 ára bóndi, eftir sig „Hólasögur í 4to, lasnar“ og Atla séra Björns Halldórssonar sem kom út í Hrappsey árið 1783, með undirtitli sem segir allt um efnið: „Ráðagjörðir yngismanns um búnað sinn, helst um jarðar- og kvikfjárrækt, aðferð og ágóða, með andsvari gamals bónda, samanskrifað fyrir fátækis frumbýlinga, einkanlega þá sem reisa bú á eyðjörðum“.

Óprentaðar heimildir:
  • Þjóðskjalasafn Íslands. Sýsluskjalasafn.
  • Dalasýsla ED1/3, 4. Skiptabók 1782–1804.
  • Snæfellsnessýsla ED2/130. Dánarbú 1785–1812.

Prentaðar heimildir:
  • Alþingisbækur Íslands XIII (Reykjavík 1973), bls. 563–577 (húsagatilskipunin).
  • Gísli Ágúst Gunnlaugsson, „Ljós, lestur og félagslegt taumhald“, Ný saga 5 (1991), bls. 62–66.
  • Hallgrímur Hallgrímsson, Íslensk alþýðumentun á 18. öld. Reykjavík 1925.
  • Loftur Guttormsson, „Læsi“, Íslensk þjóðmenning VI (Reykjavík 1989), bls. 117–144.
  • Sólrún Jensdóttir, „Books owned by ordinary people in Iceland 1750–1830“, Saga-Book 19 (1974–1977), bls. 264–292.

Myndir:

...