Það er því ljóst, að lausn hverrar sögu verður að felast í henni sjálfri og á ekki, eins og í Medeiu, að þurfa neinnar vélar við né íhlutunar eins og i Ilíonskviðu í brottsiglingaratriðinu. En vélina er ágætt að nota til að skýra það sem er utan leiksins, annaðhvort það sem fer á undan honum og er ekki í mannlegu valdi að vita eða það sem síðar gerist og þarf að boðast og kunngerast, því við eignum guðunum þá gáfu að geta fylgzt með öllu. Í atburðarásinni má ekkert það vera sem er fjarstæðukennt, og ef það er, þá verður það að vera utan leiksins sjálfs, eins og í Oídípúsi Sófóklesar.[1]Þarna mælir Aristóteles sem sagt aðeins með aðferðinni til að skýra eitthvað sem er utan leiksins en ekki til þess að leysa úr atriðum sem eru eiginlegur hluti framvindunnar. Í helgileikjum miðalda var María mey stundum notuð sem ígildi deus ex machina og þýska leikritaskáldið Bertolt Brecht beitti aðferðinni í leikritinu Túskildingsóperan (þ. Die Dreigroschenoper), en þá sem meðvitaðri parodíu. Í nútíma skáldskap, hvort sem það eru leiksýningar, sögur, sjónvarpsþættir eða annað skáldað efni, er víða hægt að finna merki um deus ex machina. Ekki þó endilega í eiginlegri merkingu, heldur sem einfaldri aðferð til að leysa flækjur á lítt sannfærandi hátt. Deus ex machina er til að mynda oft notað í svonefndu melódrama, en það eru verk sem byggja á einfaldri persónusköpun og æsilegri atburðarás sem oftar en ekki hlýtur farsælan endi, þrátt fyrir að slíkt sé ekki endilega trúverðugt. Tilvísun:
- ^ Aristóteles, Um skáldskaparlistina (þýð. Kristján Árnason), Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík 1976, bls. 70.
- The mechanism reconstruction of the Athens theater. (Sótt 3.02.2023).