Sá hjá ykkur svar við aðgengi almennings að sjó á eignalandi. Langar að vita með lóðir eins og á Arnarnesinu. Hafa húseigendur leyfi til að banna gerð göngu-og hjólastígs meðfram ströndinni? Ná eignalóðir alveg niður að sjó?Eins og fram kemur í svari við spurningunni Hvaða lög gilda um almannarétt að aðgengi að sjó og vötnum? er almenningi frjáls för um fjörur og lönd sem liggja að vötnum. Í deiliskipulögum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu er gert ráð fyrir fjöru- eða strandsvæði sem er aðgengilegt almenningi. Íbúðalóðir ná í langflestum tilfellum ekki niður sjó heldur er landspila í eigu sveitarfélagsins látin skilja þar á milli. Þessi lönd eru ýmist kölluð útivistarsvæði eða strandsvæði og þar er almenningi frjálst að spóka sig. Í tilfelli Arnarness er þetta nefnt útivistarsvæði og fjaran þar er einnig friðuð samkvæmt auglýsingu 878/2009. Ef Garðarbær hyggðist leggja hjólreiðastíg meðfram strandlengjunni á Arnarnesinu sem færi yfir íbúðalóðir, þyrfti að fá samþykki rétthafa lóðanna. Ef það næðist ekki yrði eignarnám að fara fram. Eignarnám er aðeins samþykkt ef viss skilyrði eru uppfyll, það er lagafyrirmæli, almenningsþörf og greiðsla á fullum bótum fyrir landið sem tekið er eignarnámi. Í þessu samhengi er vert að skoða dóm Hæstaréttar 173/2015 þar sem leggja átti sérstakan reiðveg í gegnum jörð í einkaeigu. Þar hafði áður farið fram eignarnám til lagningar þjóðvegar og taldi Hæstiréttur þá ekki ástæðu til þess að framkvæma annað eignarnám í sama landi til þess að leggja reiðveg ef sá möguleiki var fyrir hendi að leggja reiðveginn meðfram þjóðveginum. Verður því að telja afar hæpið að fallist yrði á eignarnám á hluta íbúðarlóðar til að leggja hjólastíg þegar deiliskipulagið hefur þegar gert ráð fyrir vegum fyrir bílaumferð. Garðarbæjarkaupstaður er bundinn af meðalhófsreglu stjórnsýslulaga, nánar tiltekið 12. gr. þeirra sem leggur þá skyldu á herðar stjórnvalda að ákvarðanir íþyngi ekki borgurum nema því lögmæta markmiði sem að er stefnt verði ekki náð með vægara móti. Í þessu tilfelli væri líklega hægt að leggja reiðhjólastíg meðfram götu eða annari stofnbraut í stað þess að taka hluta íbúðarlóðar eignarnámi. Í ljósi þess að eignarrétturinn er friðhelgur skv. 72. gr. stjórnarskrárinnar og með hliðsjón af ofangreindu dómi Hæstaréttar yrði að öllum líkindum fallist á seinni kostinn. Flestar íbúðarlóðir í þéttbýlum eru í eigu sveitarfélaganna[1] sem leigja borgurum þær með lóðarleigusamningum en leigulóðirnar eru þá afmarkaðar á grundvelli deiliskipulags sem sveitastjórnirnar hyggjast þá fylgja. Af ofangreindum ástæðum er einstaklega ólíklegt að sveitarfélag myndi ákveða leggja hjólreiðastíg í gegnum íbúðarlóð einstaklings þar sem mörk lóðarinnar eru ákveðnar af sveitarfélaginu og því ættu sveitarfélögin, með allan sinn mannauð, að hafa afmarkað lóðina þannig að hún nái ekki alveg niður að sjó og loki ekki fyrir samgöngur í hverfinu. Tilvísun:
- ^ Erna Ágústsdóttir. Lóðarleigusamningar, í upphafi skal endinn skoða. (2012). Háskóli Ísland. Sótt 21.14.20 af Skemman.is
- Wikimedia Commons. (Sótt 13.05.2020). Myndin er birt undir leyfinu C.C.BY-SA4.0.