Hvað geturðu sagt okkur um smálán? :)Heitið smálán er almennt notað um lán sem nema lágum upphæðum og eru veitt til skamms tíma. Á ensku er gjarnan talað um „payday loans“ sem vísar til þess að algengt er að launþegar sem þurfa fé í aðdraganda útborgunar launa taki slík lán til að brúa bilið. Vextir á slíkum lánum eru almennt mjög háir í hlutfalli við lánsupphæð og lánstíma þótt þeir kunni að vera lágir í krónum talið. Mikið hefur borið á því að þeir sem taka slík lán lendi í vítahring þar sem þeir ráða ekki við að greiða lán á gjalddaga og taka því ný lán til að greiða gömul lán. Slíkt getur undið mjög hratt upp á sig og breytt lágri skuld í upphafi í háa skuld þegar fram líða stundir. Því líta margir veitingar slíkra lána hornauga og vissulega er rétt að þau eru mjög óhagstæð leið til fjármögnunar og hafa komið mörgum í fjárhagskröggur, sérstaklega ungu fólki. Á Íslandi og í ýmsum öðrum löndum hefur jafnframt verið tekist á um lögmæti slíkra lána og sérstaklega vaxtakjaranna. Sums staðar eru slík lán bönnuð. Heitið smálán er almennt ekki notað um lán sem veitt eru í bankakerfinu, til dæmis yfirdráttarlán eða í tengslum við krítarkort, þótt þau geti einnig numið smáum upphæðum, verið til skamms tíma og með háum vöxtum. Heitið er fyrst og fremst notað um lán sem sérhæfð fyrirtæki, „smálánafyrirtæki“, veita og á miklu hærri vöxtum en tíðkast í bankakerfinu. Mynd:
- Money to Loan | Street scene featuring the Persian Palms and… | Flickr. (Sótt 19.09.2019).