Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju skiluðu Bretar Hong Kong aftur til Kínverja?

Geir Sigurðsson

Í stuttu máli höfðu Bretar einfaldlega ekki annarra kosta völ. Kínverjar höfðu raunar látið Bretum eftir Hong Kong-eyju „um alla eilífð“ í samningum sem gerðir voru árið 1842 í kjölfar ópíumstríðanna svokölluðu. Árið 1860 var svo gerður annar samningur sem veitti Bretum sömuleiðis eignarhald á suðurhluta Kowloon-skaga norðan við Hong Kong-eyju. Hér ber að athuga að Kínverjar litu ávallt svo á að þessir samningar hefðu verið undirritaðir undir þvingunum og hótunum og væru því ekki einungis ósanngjarnir heldur óréttmætir. Það verður að viðurkennast að þar hafa þeir talsvert til síns máls, enda gengu Vesturveldin mjög hart fram gegn Kínaveldi eftir að hafa knúið það til opnunar.

Þegar Bretar tóku yfir í Hong Kong bjuggu þar einungis um sjö þúsund manns en íbúafjöldinn var tekinn að nálgast hálfa milljón þegar leið að aldamótum. Heilsufarsvandamál og mannskæðir sjúkdómar voru helstu ástæður þess að Bretar leituðu til Kínastjórnar um að auka umfang yfirráðasvæðis síns. Niðurstaðan var sú að árið 1898 gerðu Bretar samning við keisarastjórnina um að leigja af henni um sexfalt stærra svæði en heildarsvæðið sem þeir réðu yfir á þessum tíma. Heiti þess er Nýju svæðin (New Territories) og var samningurinn gerður til 99 ára eða til ársins 1997.

Árið 1842 gerðu Bretar samning við Kínverja um yfirráð „um alla eilífð“ yfir Hong Kong-eyju. Tæpum tveimur áratugum síðar var gerður annar samningur sem veitti Bretum eignarhald á suðurhluta Kowloon-skaga. Árið 1898 gerðu Bretar svo samning við keisarastjórnina um að leigja af henni um sexfalt stærra svæði en heildarsvæðið sem þeir réðu yfir á þessum tíma. Heiti þess er Nýju svæðin og var samningurinn gerður til 99 ára eða til ársins 1997.

Sem kunnugt er átti Hong Kong eftir að verða ein mikilvægasta viðskipta- og fjármálamiðstöð heims. En eins og endranær hélt tíminn áfram að líða og á áttunda áratug 20. aldar tóku Bretar að þreifa fyrir sér um þann möguleika að endurnýja leigusamninginn. Þá bjuggu þegar um helmingur íbúa Hong Kong á Nýju svæðunum og án þeirra hefði borgin ekki verið í stakk búin til að gegna hlutverki sínu sem alþjóðleg fjármálamiðstöð. Þótt Bretar hefðu þannig strangt til tekið samningsbundinn „rétt“ á að halda Hong Kong (og hluta Kowloon-skaga) um ókomna tíð hefði engan veginn verið raunhæft fyrir þá að halda Hong Kong án þess að halda einnig Nýju svæðunum.

Í þreifingunum gagnvart Kínverska alþýðulýðveldinu um lausn þessa máls sem hófust 1979 varð fljótlega ljóst að kínverskir ráðamenn, þar á meðal sjálfur leiðtoginn Deng Xiaoping, væru með öllu ósveigjanlegir varðandi hugsanlega endurnýjun ofangreinds leigusamnings. Hún kæmi alls ekki til greina. Þar að auki áréttuðu þeir þá skoðun sína að samningurinn um eignarhald Breta á Hong Kong og Kowloon væri óréttmætur og tóku fram að þeir viðurkenndu í raun ekki yfirráð Breta yfir svæðinu. Ítrekaðar tilraunir breskra ráðamanna til að snúa Kínverjum í þessu máli með forsætisráðherrann Margaret Thatcher í fararbroddi fóru út um þúfur og við blasti að yfirráðum Breta yfir Hong Kong myndi ljúka þegar leigusamningurinn rynni út þann 1. júlí 1997.

Bretar leituðust þá við að semja um að stjórnarskiptin í Hong Kong yrðu eins sársaukalítil og kostur var á og kom Kínastjórn að nokkru leyti til móts við þær óskir, að minnsta kosti í orði. Í sameiginlegri yfirlýsingu Breta og Kínverja frá árinu 1984 var meðal annars tekið fram að Hong Kong myndi áfram njóta sérstöðu eftir 1997 og vera „sérstjórnarsvæði“ (e. Special Administrative Region eða S.A.R.) með eigin stjórn, stjórnarhætti og lagakerfi. Einnig var því lýst yfir að markaðshagkerfið og þeir lífshættir og það samfélagsskipulag sem Hong Kong-búar væru vanir myndu fá að halda velli í 50 ár, eða til ársins 2047, án afskipta stjórnvalda í Beijing. Þetta var grundvöllur hinna svonefndu tveggja kerfa innan sama lands sem Kínverjar settu á fót og gildir nú formlega í Hong Kong og hinni fyrrum portúgölsku nýlendu Macau.

Vorið 2019 hófust fjölmenn mótmæli í Hong Kong þar sem mótmælendur telja að Kinverjar hafi svikið samkomulagið sem gert var þegar Bretar afhentu yfirráðin yfir til Kína.

Þegar þessi orð eru rituð, í lok ágúst 2019, hafa mótmæli almennings í Hong Kong staðið yfir með hléum í tólf vikur en þar er því mótmælt í grundvallaratriðum að Kínverjar hafi svikið ofangreint samkomulag og að Hong Kong hafi nú þegar verið þvingað til að „aðlagast“ Kínverska alþýðulýðveldinu með alls kyns lögum og reglugerðum. Kínverskir ráðamenn hafa hins vegar látið hafa eftir sér hafa að samkomulagið frá 1984 sé einungis söguleg yfirlýsing sem hafi litla sem enga merkingu nú þegar yfir 20 ár eru liðin frá því að Hong Kong var skilað til Kína. Hér mætast því stálin stinn og langt í frá ljóst hvernig finna megi lausn á stöðunni sem deiluaðilar geta báðir sætt sig við.

Myndir:

Höfundur

Geir Sigurðsson

heimspekingur og prófessor í kínverskum fræðum

Útgáfudagur

30.8.2019

Spyrjandi

Sigurður H. Álfhildarson

Tilvísun

Geir Sigurðsson. „Af hverju skiluðu Bretar Hong Kong aftur til Kínverja?“ Vísindavefurinn, 30. ágúst 2019, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=77930.

Geir Sigurðsson. (2019, 30. ágúst). Af hverju skiluðu Bretar Hong Kong aftur til Kínverja? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=77930

Geir Sigurðsson. „Af hverju skiluðu Bretar Hong Kong aftur til Kínverja?“ Vísindavefurinn. 30. ágú. 2019. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=77930>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju skiluðu Bretar Hong Kong aftur til Kínverja?
Í stuttu máli höfðu Bretar einfaldlega ekki annarra kosta völ. Kínverjar höfðu raunar látið Bretum eftir Hong Kong-eyju „um alla eilífð“ í samningum sem gerðir voru árið 1842 í kjölfar ópíumstríðanna svokölluðu. Árið 1860 var svo gerður annar samningur sem veitti Bretum sömuleiðis eignarhald á suðurhluta Kowloon-skaga norðan við Hong Kong-eyju. Hér ber að athuga að Kínverjar litu ávallt svo á að þessir samningar hefðu verið undirritaðir undir þvingunum og hótunum og væru því ekki einungis ósanngjarnir heldur óréttmætir. Það verður að viðurkennast að þar hafa þeir talsvert til síns máls, enda gengu Vesturveldin mjög hart fram gegn Kínaveldi eftir að hafa knúið það til opnunar.

Þegar Bretar tóku yfir í Hong Kong bjuggu þar einungis um sjö þúsund manns en íbúafjöldinn var tekinn að nálgast hálfa milljón þegar leið að aldamótum. Heilsufarsvandamál og mannskæðir sjúkdómar voru helstu ástæður þess að Bretar leituðu til Kínastjórnar um að auka umfang yfirráðasvæðis síns. Niðurstaðan var sú að árið 1898 gerðu Bretar samning við keisarastjórnina um að leigja af henni um sexfalt stærra svæði en heildarsvæðið sem þeir réðu yfir á þessum tíma. Heiti þess er Nýju svæðin (New Territories) og var samningurinn gerður til 99 ára eða til ársins 1997.

Árið 1842 gerðu Bretar samning við Kínverja um yfirráð „um alla eilífð“ yfir Hong Kong-eyju. Tæpum tveimur áratugum síðar var gerður annar samningur sem veitti Bretum eignarhald á suðurhluta Kowloon-skaga. Árið 1898 gerðu Bretar svo samning við keisarastjórnina um að leigja af henni um sexfalt stærra svæði en heildarsvæðið sem þeir réðu yfir á þessum tíma. Heiti þess er Nýju svæðin og var samningurinn gerður til 99 ára eða til ársins 1997.

Sem kunnugt er átti Hong Kong eftir að verða ein mikilvægasta viðskipta- og fjármálamiðstöð heims. En eins og endranær hélt tíminn áfram að líða og á áttunda áratug 20. aldar tóku Bretar að þreifa fyrir sér um þann möguleika að endurnýja leigusamninginn. Þá bjuggu þegar um helmingur íbúa Hong Kong á Nýju svæðunum og án þeirra hefði borgin ekki verið í stakk búin til að gegna hlutverki sínu sem alþjóðleg fjármálamiðstöð. Þótt Bretar hefðu þannig strangt til tekið samningsbundinn „rétt“ á að halda Hong Kong (og hluta Kowloon-skaga) um ókomna tíð hefði engan veginn verið raunhæft fyrir þá að halda Hong Kong án þess að halda einnig Nýju svæðunum.

Í þreifingunum gagnvart Kínverska alþýðulýðveldinu um lausn þessa máls sem hófust 1979 varð fljótlega ljóst að kínverskir ráðamenn, þar á meðal sjálfur leiðtoginn Deng Xiaoping, væru með öllu ósveigjanlegir varðandi hugsanlega endurnýjun ofangreinds leigusamnings. Hún kæmi alls ekki til greina. Þar að auki áréttuðu þeir þá skoðun sína að samningurinn um eignarhald Breta á Hong Kong og Kowloon væri óréttmætur og tóku fram að þeir viðurkenndu í raun ekki yfirráð Breta yfir svæðinu. Ítrekaðar tilraunir breskra ráðamanna til að snúa Kínverjum í þessu máli með forsætisráðherrann Margaret Thatcher í fararbroddi fóru út um þúfur og við blasti að yfirráðum Breta yfir Hong Kong myndi ljúka þegar leigusamningurinn rynni út þann 1. júlí 1997.

Bretar leituðust þá við að semja um að stjórnarskiptin í Hong Kong yrðu eins sársaukalítil og kostur var á og kom Kínastjórn að nokkru leyti til móts við þær óskir, að minnsta kosti í orði. Í sameiginlegri yfirlýsingu Breta og Kínverja frá árinu 1984 var meðal annars tekið fram að Hong Kong myndi áfram njóta sérstöðu eftir 1997 og vera „sérstjórnarsvæði“ (e. Special Administrative Region eða S.A.R.) með eigin stjórn, stjórnarhætti og lagakerfi. Einnig var því lýst yfir að markaðshagkerfið og þeir lífshættir og það samfélagsskipulag sem Hong Kong-búar væru vanir myndu fá að halda velli í 50 ár, eða til ársins 2047, án afskipta stjórnvalda í Beijing. Þetta var grundvöllur hinna svonefndu tveggja kerfa innan sama lands sem Kínverjar settu á fót og gildir nú formlega í Hong Kong og hinni fyrrum portúgölsku nýlendu Macau.

Vorið 2019 hófust fjölmenn mótmæli í Hong Kong þar sem mótmælendur telja að Kinverjar hafi svikið samkomulagið sem gert var þegar Bretar afhentu yfirráðin yfir til Kína.

Þegar þessi orð eru rituð, í lok ágúst 2019, hafa mótmæli almennings í Hong Kong staðið yfir með hléum í tólf vikur en þar er því mótmælt í grundvallaratriðum að Kínverjar hafi svikið ofangreint samkomulag og að Hong Kong hafi nú þegar verið þvingað til að „aðlagast“ Kínverska alþýðulýðveldinu með alls kyns lögum og reglugerðum. Kínverskir ráðamenn hafa hins vegar látið hafa eftir sér hafa að samkomulagið frá 1984 sé einungis söguleg yfirlýsing sem hafi litla sem enga merkingu nú þegar yfir 20 ár eru liðin frá því að Hong Kong var skilað til Kína. Hér mætast því stálin stinn og langt í frá ljóst hvernig finna megi lausn á stöðunni sem deiluaðilar geta báðir sætt sig við.

Myndir:

...