Er ekki hægt að leysa deilu góðra félaga um sveitarnafnið Kaldakinn? Er nafnið Kaldakinn, samanber norðankaldi t.d. og væri þá Kaldakinn um Kaldakinn o.s.frv. Eða Kaldakinn, um Köldukinn, frá Köldukinn o.s.frv. Gott væri að nokkur rökstuðningur væri með lausn þessarar deilu.Fjölmörg íslensk örnefni hafa lýsingarorð sem fyrri lið. Dimmugljúfur og Ljósavatn, Fornhagi og Nýhöfn, Háikambur og Lágafell, Hvítanes og Rauðá, Mjóifjörður og Breiðdalur. Stundum er jafnvel prjónað við forskeyttu lýsingarorði framan við annað lýsingarorð, samanber Ytri-Djúpidalur eða Syðra-Háafell. Stundum er ekki alveg ljóst hvort forliður örnefna er lýsingarorð eða nafnorð og sumt getur verið alveg tvírætt, eins og til dæmis Brúnavík. Örnefnið gæti verið dregið af lit og haft lýsingarorð sem fyrri lið (þótt þessi tiltekni litur sé einhverra hluta vegna ekki algengur í örnefnum) eða dregið af öðru einkenni í landslagi, nefnilega brún eða brúnum og þannig verið með nafnorð í fyrri lið. Í þessu tiltekna dæmi telja menn líklegar að nafnið sé dregið af fjallsbrúnum sem umkringja víkina. Íslensk örnefni eru mörg hver ævaforn og eiga sér rætur allt aftur á landnámsöld. Sum þeirra hafa tekið breytingum frá því að þau urðu fyrst til og þær breytingar geta stundum ruglað okkur í ríminu við túlkun þeirra. Erfitt getur þá í sumum tilfellum að sjá hvort forliður örnefnis er nafnorð eða lýsingarorð. Stundum er það hreinlega ómögulegt því við getum ekki vitað hvað nafngjafi var að hugsa þegar hann benti í fyrndinni á fjall og sagði: „Þú skalt Kaldakinn heita.“ Er „kalda“ í Kaldakinn lýsingarorð eða nafnorð? Nefnifallsmyndin Kaldakinn gefur engar upplýsingar um það.

Kaldakinn í Þingeyjarsveit. Horft til suðausturs eftir Út-Kinn en svo nefnist norðurhluti þess svæðis sem Kaldakinn nær yfir.
- Útkinn view to the south.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 11.11.2019).