Ég var að lesa grein um það af hverju má ekki taka upp ný ættarnöfn og langar í framhaldinu til að spyrja af hverju maður má ekki taka upp ættarnafn ættar sinnar þegar það hefur ekki verið nýtt af 2 ættliðum? Hvaða rök eru fyrir því?Í stuttu máli má segja að rökin fyrir því að banna endurupptöku ættarnafna séu sjónarmið um hvort tveggja vernd ættarnafna og stuðningur við siðinn að kenna sig við annað hvort foreldri. Sérstaða ættarnafna felst í því að þau eru síðasta nafn nafnberans. Thoroddsen er ættarnafn hjá Gunnari Pálssyni Thoroddsen en millinafn hjá Gunnari Thoroddsen Pálssyni. Núgildandi mannanafnalög öðluðust gildi árið 1997. Í athugasemdum við lögin er lögð áhersla á að ættarnöfn eigi að „njóta ríkari nafnverndar en eiginnöfn“ enda sé það „ríkjandi skoðun í persónurétti, bæði íslenskum og erlendum“.[1] Meðal markmiða hinna nýju laga var að vernda ættarnöfnin og styðja þann sið að kenna fólk við annað hvort foreldri enda nýtur Ísland sérstöðu að þessu leiti þar sem þessi siður er jafn gamall og landið sjálft.
Ættarnöfnin eru „ekta“ og fágæti þeirra er varið með lögum en millinöfnin eru einungis „ódýr eftirlíking“ sem enginn lítur við eigi hann kost á öðru – enda eru þau ekki varin gegn offramboði og geta því ekki náð því verðgildi sem sum ættarnöfn kannski ná. Löggjöfin viðheldur vinsældum ættarnafna. Með því að verja fágæti þeirra skapa yfirvöld ákveðnum hópum samfélagsins aðstæður til að gera sitt ættarnafn að vernduðu vörumerki.Í áformum um ný mannanafnalög sem birt voru á samráðsgátt er ætlunin að heimila upptöku nýrra og gamalla ættarnafna sem síðasta nafn. Þessar hugmyndir koma í kjölfar mikillar umræðu um eldri lög og gagnrýni sem úrskurðir mannanafnanefndar hafa sætt. Því hefur verið haldið fram að lögin séu of ströng og að hlutverk mannanafnanefndar sé úrelt í nútímasamfélagi. Rétturinn til nafns nýtur verndar ákvæða um friðhelgi heimilis og einkalífs í 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Tilvísun:
- ^ Frumvarp til laga um mannanöfn - Alþingi. (Sótt 24.01.2020).
- Benný Sif Ísleifsdóttir. „Það er nefnilega fínna að vera sen en dóttir.“ Ættarnöfn í íslensku samfélagi. (Sótt 16.04.2020). Lokaverkefni til BA-gráðu í þjóðfræði.
- Frumvarp til laga um mannanöfn - Alþingi. (Sótt 24.01.2020).
- Ættarnöfn á Íslandi. Árnastofnun. (Sótt 02.03.20).
- File:Ættarmót Karlsskála 1944 no4.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 16.04.2020).