Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:23 • sest 16:05 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:04 • Sest 15:29 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:18 • Síðdegis: 25:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:51 • Síðdegis: 18:50 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaða dillidó er þetta í barnagælum?

Una Margrét Jónsdóttir

Orðið „dillidó“ er að líkindum komið af sögninni „dilla“ sem þýðir „að vagga“ (til dæmis barni).[1] Þetta er orð sem var notað í barnagælum svipað og „bí bí“ og „korríró“. Sumar gamlar vögguvísur eru kallaðar „dillur“ svo sem „Ljúflingsdilla“.[2]

Líklega merkir endingin „dó“ ekki neitt sérstakt, en hefur verið sett fyrir aftan „dilli“ svo að þægilegra væri að raula orðið. Það er samt skemmtileg tilviljun að í frönsku er orðið „dodo“ barnamál yfir það „að sofa“, til dæmis í frönsku vögguvísunni „Fais dodo, Colas, mon p´tit frère“ (Lúllaðu, Colas, litli bróðir minn).[3] En í frönsku er „dodo“ dregið af sögninni „dormir“ sem þýðir „að sofa“. Slík tenging var ekki fyrir hendi í íslensku.

Orðið dillidó kemur meðal annars fyrir í þjóðsögunni um nátttröllið sem kom á glugga. Myndin er riss eftir Ásgrím Jónsson, án ártals.

Orðið „dillidó“ kemur fyrir í ýmsum kvæðum, en þekktast er dæmið úr þjóðsögunni um nátttröllið sem kom á glugga þar sem stúlka sat fyrir innan og kvað: „Fögur þykir mér hönd þín/ snör mín en snarpa og dillidó“. Stúlkan svaraði með öðru barnagæluorði: „Hún hefur aldrei saur sópað/ ári minn kári og korriró“.[4] Þess hefur verið getið til að „korríró“ sé afbökun af orðunum „kúrðu í ró“.[5]

Á Íslandi varð hins vegar til skemmtileg alþýðuskýring á orðinu „dillidó“ og öðru gæluorði: „dumma“ sem stundum var notað með því. Hana má finna í handriti frá 1846 og er hún prentuð í bókinni Íslenzkar þulur og þjóðkvæði sem út kom 1898.

Foríngjar Heródesar hétu Dillir og Dumma og stóðu þeir fyrir barnamorðinu í Betlehem. Þessvegna verður börnum ekki betra gjört en þegar þeim er sagt lát þeirra og þetta raulað fyrir þeim:

Dillir dó og Dumma
Sástu hvergi hvítan blett
á bakinu á honum krumma?
Dillir dó og dumma.[6]

Tilvísanir:
  1. ^ Íslensk orðabók, ritstjóri Mörður Árnason, útg. 2007, bls. 146. Íslensk orðsifjabók eftir Ásgeir Blöndal Magnússon, útg. 1989, bls. 114.
  2. ^ Íslenzkar þulur og þjóðkvæði eftir Ólaf Davíðsson, útg. 1898, bls. 255-257. (Hluti IV af ritverkinu Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur eftir Jón Árnason og Ólaf Davíðsson.)
  3. ^ Florilège de la chanson française eftir Jean-Claude Klein, útg. 1990, bls. 88.
  4. ^ Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri I (Jón Árnason safnaði), útg. 1862, bls. 209.
  5. ^ Íslensk orðsifjabók, bls. 496.
  6. ^ Íslenzkar þulur og þjóðkvæði bls. 173.

Mynd:

Lina Elisabet spurði:
Orðið dillidó sem kemur fyrir í barnavísum, -kvæðum og -þulum eins og í Bíum bíum bambaló eða Náttröllið - hefur það einhverja sérstaka merkingu og hvaðan kemur það?

Höfundur

Una Margrét Jónsdóttir

dagskrárgerðarmaður á Rás 1

Útgáfudagur

29.10.2019

Spyrjandi

Lina Elisabet Hallberg, Rebekka Sif Gunnþórsdóttir

Tilvísun

Una Margrét Jónsdóttir. „Hvaða dillidó er þetta í barnagælum?“ Vísindavefurinn, 29. október 2019, sótt 23. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=77675.

Una Margrét Jónsdóttir. (2019, 29. október). Hvaða dillidó er þetta í barnagælum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=77675

Una Margrét Jónsdóttir. „Hvaða dillidó er þetta í barnagælum?“ Vísindavefurinn. 29. okt. 2019. Vefsíða. 23. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=77675>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvaða dillidó er þetta í barnagælum?
Orðið „dillidó“ er að líkindum komið af sögninni „dilla“ sem þýðir „að vagga“ (til dæmis barni).[1] Þetta er orð sem var notað í barnagælum svipað og „bí bí“ og „korríró“. Sumar gamlar vögguvísur eru kallaðar „dillur“ svo sem „Ljúflingsdilla“.[2]

Líklega merkir endingin „dó“ ekki neitt sérstakt, en hefur verið sett fyrir aftan „dilli“ svo að þægilegra væri að raula orðið. Það er samt skemmtileg tilviljun að í frönsku er orðið „dodo“ barnamál yfir það „að sofa“, til dæmis í frönsku vögguvísunni „Fais dodo, Colas, mon p´tit frère“ (Lúllaðu, Colas, litli bróðir minn).[3] En í frönsku er „dodo“ dregið af sögninni „dormir“ sem þýðir „að sofa“. Slík tenging var ekki fyrir hendi í íslensku.

Orðið dillidó kemur meðal annars fyrir í þjóðsögunni um nátttröllið sem kom á glugga. Myndin er riss eftir Ásgrím Jónsson, án ártals.

Orðið „dillidó“ kemur fyrir í ýmsum kvæðum, en þekktast er dæmið úr þjóðsögunni um nátttröllið sem kom á glugga þar sem stúlka sat fyrir innan og kvað: „Fögur þykir mér hönd þín/ snör mín en snarpa og dillidó“. Stúlkan svaraði með öðru barnagæluorði: „Hún hefur aldrei saur sópað/ ári minn kári og korriró“.[4] Þess hefur verið getið til að „korríró“ sé afbökun af orðunum „kúrðu í ró“.[5]

Á Íslandi varð hins vegar til skemmtileg alþýðuskýring á orðinu „dillidó“ og öðru gæluorði: „dumma“ sem stundum var notað með því. Hana má finna í handriti frá 1846 og er hún prentuð í bókinni Íslenzkar þulur og þjóðkvæði sem út kom 1898.

Foríngjar Heródesar hétu Dillir og Dumma og stóðu þeir fyrir barnamorðinu í Betlehem. Þessvegna verður börnum ekki betra gjört en þegar þeim er sagt lát þeirra og þetta raulað fyrir þeim:

Dillir dó og Dumma
Sástu hvergi hvítan blett
á bakinu á honum krumma?
Dillir dó og dumma.[6]

Tilvísanir:
  1. ^ Íslensk orðabók, ritstjóri Mörður Árnason, útg. 2007, bls. 146. Íslensk orðsifjabók eftir Ásgeir Blöndal Magnússon, útg. 1989, bls. 114.
  2. ^ Íslenzkar þulur og þjóðkvæði eftir Ólaf Davíðsson, útg. 1898, bls. 255-257. (Hluti IV af ritverkinu Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur eftir Jón Árnason og Ólaf Davíðsson.)
  3. ^ Florilège de la chanson française eftir Jean-Claude Klein, útg. 1990, bls. 88.
  4. ^ Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri I (Jón Árnason safnaði), útg. 1862, bls. 209.
  5. ^ Íslensk orðsifjabók, bls. 496.
  6. ^ Íslenzkar þulur og þjóðkvæði bls. 173.

Mynd:

Lina Elisabet spurði:
Orðið dillidó sem kemur fyrir í barnavísum, -kvæðum og -þulum eins og í Bíum bíum bambaló eða Náttröllið - hefur það einhverja sérstaka merkingu og hvaðan kemur það?
...