Hvers vegna eru sungnar vögguvísur? Er eitthvað vitað um uppruna vögguvísna og hvort þær virki raunverulega við svæfingu?Vögguvísur hafa verið sungnar frá því í fornöld. Ein elsta vögguvísa sem varðveist hefur er rist á 4000 ára gamla leirtöflu frá Babýlon sem geymd er á British Museum í London. Þar segir: „Litla barn, af hverju ertu að gráta? Þú hefur truflað guð hússins.“ Einnig er til vögguljóð frá Rómaveldi til forna með viðkvæðinu „Lalla lalla lalla aut dormi aut lacte“ (Lúlla lúlla lúlla, farðu að sofa eða drekktu mjólk). Höfundur hennar er sagður vera skáldið Persius sem var uppi á 1. öld. e.Kr. Tilgangur vögguvísu er að svæfa barn og þess vegna dregur bæði tónlist og texti dám af tilgangi sínum. Vögguvísur eru yfirleitt sungnar hægt, og oft í þrískiptum takti eða 6/8 sem minnir á ruggandi hreyfingu. Talið er að hrynjandi vögguvísna minni barnið líka á hreyfinguna í móðurkviði. Lögin eru oft einföld og tónbilin ómblíð þar sem ungbörn missa athyglina ef mikið er um ómstríð tónbil. Oft eru viðkvæði þar sem endurtekin eru stutt orð sem merkja ekki neitt, en eiga að hafa róandi áhrif á barnið, á íslensku er til dæmis sungið „ró ró“, „bí bí“, „dó dó og dumma“, „dillidó“, „lúllubía“. Enska orðið yfir vögguvísu: „lullaby“ er einmitt skylt síðastnefnda orðinu. Í enskum vögguvísum má finna orð eins og „bye bye“ eða „lullay“, í sænskum vögguvísum „vyss vyss“ og „ro ro“, í frönskum vögguvísum „do do“, í ítölskum vögguvísum „ninna nanna“ og svo framvegis. Gerðar hafa verið rannsóknir sem sýna fram á svæfandi áhrif vögguvísna og jafnvel góð áhrif þeirra á heilsu barna. Rannsóknir dr. Jeffereys Perlman, læknis í New York, benda til þess að róandi tónlist hafi jákvæð áhrif á svefn og næringu barna sem fæðast fyrir tímann og gagnsemi vögguvísna kemur einnig fram í rannsóknum Jayne M. Standley við Háskóla Florida-fylkis (Florida State University). Þó að tilgangur vögguvísna sé að svæfa barnið geta þær líka haft annan tilgang. Skoskir fræðimenn hafa sett fram þá kenningu að vögguvísur hafi til forna jafnframt verið töfraþulur til þess að vernda barnið fyrir illum öndum eða álfum. Þeir telja að merkingarlausu orðin þegar barninu er bíað (til dæmis „hwi hwi“ eða „baloo baloo“ í skoskum vögguvísum) hafi upprunalega verið sungin sem töfraorð. Sú kenning heyrist líka stundum að enska orðið „lullaby“ sé komið af hebresku orðunum „Lilith abi“ sem þýðir „Lilith, farðu“, vögguvísan hafi átt að vernda ungbörnin fyrir Lilith sem var fyrsta kona Adams samkvæmt Gyðinglegum trúarritum og talin hættuleg norn. Orðsifjabækur styðja hins vegar ekki þessa kenningu.

Sú kenning heyrist líka stundum að enska orðið „lullaby“ sé komið af hebresku orðunum „Lilith abi“ sem þýðir „Lilith, farðu“, vögguvísan hafi átt að vernda ungbörnin fyrir Lilith sem var fyrsta kona Adams samkvæmt Gyðinglegum trúarritum og talin hættuleg norn. Málverk af Lilith frá 19.öld eftir Dante Gabriel Rossetti.

Erlendir jólasöngvar miðalda voru oft vögguvísur sem lagðar voru í munn Maríu mey þegar hún vaggaði Jesúbarninu.
- Lullaby - Wikipedia. Sótt 25.10. 2017.
- Barnesanger - Lalla, Lalla, aut dormi, aut lacte. Sótt 26.10. 2017.
- Lilith as the Origin of the Lullaby – Jeannie Musick. Sótt 26.10. 2017.
- Íslensk þjóðlög. Bjarni Þorsteinsson safnaði. Kaupmannahöfn 1906-9.
- Jón Árnason og Ólafur Davíðsson. Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur I-II. Kaupmannahöfn 1887-1892.
- Jón Samsonarson. Kvæði og dansleikir I-II. Reykjavík 1964.
- The New Grove Dictionary of Music and Musicians. 2001.
- Ninna Nanna, geisladiskur með Montserrat Figueras. 2002.
- Purser, John. Scotland´s Music. Edinborg og London 1992.
- Tureson, Gunnar. Värmlandska kulturtraditioner. IV. Gamla vaggvisor. Stokkhólmi 1966.
- Örvar Odds saga. Reykjavík 1954.
- Babylonian lullaby: Little baby in the dark house - BBC News. (Sótt 6.11.2017).
- File:Lady-Lilith.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 27.10.2017).
- Free photo Statue Christianity Faith Jesus Maria Fig Santon - Max Pixel. (Sótt 30.10.2017).