Hvað eru til margar tegundir af mýslum/músum? Ég veit um hagamús, stökkmús og húsamús en eru til fleiri?Mýs tilheyra músaætt (Muridae). Innan músaættarinnar eru þekktar yfir 700 tegundir smávaxinna nagdýra. Þetta er tegundaauðugasta ætt spendýra en um 12% allra spendýra tilheyra ættinni. Að jafnaði eru dýr af músaætt um 10 cm á lengd en til eru dýr sem eru talsvert lengri. Stærst tegunda í ættinni er suðlæga luzon-skuggarottan (Phloeomys cumingi, e. southern Luzon giant cloud rat). Hún getur orðið allt að 48 cm á lengd (án hala). Minnst er hins vegar afríska dvergmúsin (Mus minutoides) sem getur verið undir 5 cm að lengd (án hala). Á Íslandi lifa þrír fulltrúar þessarar ættar: Hagamús (Apodemus sylvaticus), húsamús (Mus musculus) og brúnrotta (Rattus norvegicus). Stöku sinnum slæðist fjórða tegund ættarinnar hingað til lands, en það er svartrottan (Rattus rattus). Þessar tegundir, eins og reyndar meirihluti allra tegunda í músaætt, tilheyra undirætt sem kallast Murinae. Til þess að fá innsýn og yfirlit yfir þennan mikla fjölda tegunda má fara inn á þessa síðu á vefsíðunni Wikipedia: Murinae. Þar er undirættin flokkuð niður í ættkvíslir og tegundir. Mynd:
- Apodemus.flavicollis.jpg - Wikimedia Commons. Höfundur myndar: James Lindsey. Birt undir Attribution-Share Alike 2.5 Generic leyfi. (Sótt 19.6.2019).