Hvaðan kemur hugtakið “draumur í dós”? Hvaða draumur og úr hvaða dós?Orðið draumur hefur tvær merkingar. Annars vegar ‘fyrirburður í svefni’ og hins vegar ‘eitthvað ljómandi gott, indælt’. Síðari merkingin virðist tiltölulega ung og hefur líklega borist hingað frá Danmörku. „Kjóllinn er alveg draumur“, „nýi bíllinn er alveg draumur“, „litla barnið er alger draumur“. Erlendar fyrirmyndir að draumur í dós eða dósum og draumur upp úr dósum, sem finna má í Íslenskri orðabók (2002:227), hef ég ekki fundið í þeim ritum sem mér eru tiltæk en ef til vill geta einhverjir bætt um betur og sent Vísindavefnum. Engin dæmi voru í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans. Ég hygg að dós sé þarna í herðandi tilgangi um eitthvað ákaflega gott eða indælt og valið sem stuðull eins og í kveðskap, draumur – dós. Mynd:
- Pixabay. (Sótt 12.6.2019).
Gunnar Lárus Hjálmarsson sendi Vísindavefnum athugasemd (26.4.2021) um hugsanlegan uppruna orðatiltækisins:
Getur verið að uppruni orðatiltækisins draumur í dós sé úr ljóði eftir Jónas Svafár? Vísa hans frá því líklega um 1960 er svona: Minn draumur er í dósum / dísin mín / við hamingjunni hrósum / sem höfum notið þín / en aðrir reyna allt sitt líf / að eignast dósahníf: Tíminn Sunnudagsblað - 05.11.1967 - Tímarit.is. (Sótt 26.04.2021).