Rauðsmári hefur sterka stólparót en stönglarnir verða 40 cm á hæð. Þeir eru hærðir og ýmist uppréttir eða jarðlægir. Blöðin eru hærð og nær heilrend, oft með ljósan blett í miðju blaði. Blöðin eru þrífingruð með öfugegglaga eða sporbaugótt smáblöð. Smáblöð þessi eru 2 til 3,5 sentímetrar á lengd. Við blaðaxlir eru axlablöð sem mynda ljósgrænt slíður með dökkum æðum og löngum broddi í endann.Rauðsmári er innflutt jurt, ekki mjög útbreidd á Íslandi en hefur náð að festa sig í sessi á nokkrum svæðum. Rauðsmári finnst sem slæðingur við bæi og á svæðum sem hefur verið raskað, svo sem í vegköntum. Einnig getur hann spjarar sig vel þar sem hiti er í jörðu. Rauðsmárinn er viðkvæmur fyrir traðki og beit og getur því átt erfitt uppdráttar á túnum, meðal annars vegna samkeppni við aðrar og harðgerðari plöntur og grös. Rauðsmárinn nýtir vel köfnunarefni úr andrúmslofti vegna sambýlis við rhizobium-bakteríu sem eru gram-neikvæðar jarðvegsbakteríur og mynda iðulega sambýli við plöntur af ertuætt. Heimildir og mynd:
- Hörður Kristinsson (1986). Íslenska plöntuhandbókin – blómplöntur og byrkningar. Mál og menning, Reykjavík.
- Flóra Íslands.
- Fóðurjurtir í íslensku ræktunarlandi. Landbúnaðarháskóli Íslands.
- Mynd: Free photo Inflorescence Red Clover Trifolium Pratense Macro - Max Pixel. (Sótt 20.11.2019).