"Að komast í hann krappan" þýðir að koma sér í vandræði. En hvaðan kemur þetta orðatiltak? Hvaða krappi er þetta sem við komum okkur í? Maður hefur heyrt "að komast í/stíga krappan dans" en það útskýrir tiltækið ekkert betur.Lýsingarorðið krappur merkir ‘þröngur, knappur; erfiður viðfangs, hættulegur’. Kröpp bugða er hvöss beygja og krappur sjór er notað um brattar og þéttar bárur (ÍO 2002:813). Orðatiltækið að komast í hann krappan merkir ‘lenda í erfiðleikum, lífsháska’. Það þekkist frá fyrri hluta 20. aldar. Afbrigðið komast í krappan dans er eldra. Elsta dæmi í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er úr orðtakasafni Guðmundar Jónssonar, Safn af íslenzkum orðskviðum ... samanlesið og í stafrofsröð sett af Guðmundi Jónssyni, sem gefið var út 1830.

Orðatiltækið að komast í hann krappan merkir ‘lenda í erfiðleikum, lífsháska’. Jón G. Friðjónsson telur í Mergi málsins (2006:500) að krappur líkingin sé sótt til ‘brattra/mikilla aldna’. Verkið er eftir Nicolas Pocock (1740-1821).
- Íslensk orðabók. 2002. I–II. Ritstjóri Mörður Árnason. Edda: Reykjavík.
- Jón G. Friðjónsson. 2006. Mergur málsins. Íslensk orðatiltæki. Uppruni, saga og notkun. Mál og menning: Reykjavík.
- Ritmálssafn Orðabókar Háskólans.