- Vaka lengur á kvöldin og sofa lengur út. Raflýsing gerir manninum kleift að vaka í birtu fram eftir kvöldi og þegar ekki er þörf á að vakna snemma eins og á frídögum er algengt að fólk fari seinna í háttinn. Helgarnar eru gott dæmi um þetta, þegar við reynum að sofna snemma á sunnudagskvöldi í þeim tilgangi að ná góðum svefni fyrir fyrsta vinnudaginn í nýrri viku er það hægara sagt en gert. Þá hefur dægursveiflum okkar seinkað eilítið og sú seinkun nægir til að það reynist erfitt að tosa þær fram, en oftast höfum við þó rétt svefntímann af þegar komið er að næstu helgi.
- Kynþroski. Rannsóknir sýna að hormónabreytingar við kynþroska valda lengingu dægurklukkunnar, sveiflan verður enn lengri en þær 24,2 klukkustundir sem dægurklukkan í raun er. Þannig verður innbyggð tilhneiging til seinkunar enn meiri hjá unglingum en öðrum aldurshópum. [1]
- Vaktavinna. Það að vaka að nóttu í upplýstu umhverfi ýtir undir seinkun dægurklukku.
- Flugferð yfir mörg tímabelti til austurs (þotuþreyta, e. jetlag). Eftir slíka ferð gæti dægurklukka verið stillt á dag/nótt þegar staðartíminn í komulandinu er nótt/dagur. Það er jafnan erfitt að sofa að nóttu þegar líkaminn er í raun stilltur á vöku og öfugt. Nokkra sólarhringa tekur venjulega að samræma dægurklukku og staðarklukku – og óþægindin sem af þessu stafa ganga yfir.
- Of fljót klukka. Þá verða eiginlegar dagsbirtubreytingar, sólarupprás og sólsetur, seinna miðað við staðarklukkuna (samanber hádegi í Reykjavík kl. 13:30 í stað kl. 12). Þeir sem geta stillt dægurklukkuna út frá staðarklukkunni og lifa sínu daglega lífi í föstum skorðum, ráða allflestir þokkalega við þetta. Hins vegar benda rannsóknir til að ýmsir lendi í vandræðum, sérstaklega unglingar. Mikilvægt er að árétta að tímasetning bæði sólseturs og sólarupprásar er mikilvægasta náttúrulega tímamerkið; losun melatóníns er sett af stað þegar rökkvar en dagsbirtan kemur í veg fyrir hana.
- ^ Hagenauer, M. H., & Lee, T. M. (2012). The Neuroendocrine Control of the Circadian System: Adolescent Chronotype. Frontiers in neuroendocrinology, 33(3), 211-29.
- ^ Wittmann, M. o.fl. (2006). Social Jetlag: Misalignment of Biological and Social Time. Chronobiology international. 23. 497-509.