Er leyfilegt fyrir húsfreyju/húsvörð að leita í herbergjum leigjenda á heimavist framhaldsskóla?Stutta svarið við þessari spurningu er einfaldlega nei. Starfsfólk heimavista hefur ekki heimild til að leita í herbergjum íbúa án samþykkis þeirra. Grundvallast þessi niðurstaða á 1. og 2. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar sem verndar friðhelgi heimilis og einkalífs og einnig 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu sem Alþingi hefur lögfest með lögum nr. 62/1994. Herbergi á heimavist telst heimili í skilningi stjórnarskrárinnar enda hafa leigutakar aðsetur þar og geyma sína persónulegu muni í herberginu. Þeir njóta því friðhelgi heimilis og einkalífs þar inni. Húsleit í herbergjum þeirra væri því eingöngu heimil samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild, til dæmis ef lögregla þyrfti nauðsynlega að komast inn til að halda uppi allsherjarreglu, gæta öryggis einstaklinga eða afstýra afbrotum, sbr. 1. og 2. mgr 15. greinar lögreglulaga.

Starfsfólk heimavista hefur ekki undir neinum kringumstæðum heimild til að framkvæma húsleit í óþökk leigutaka. Eingöngu lögregla hefur til þess heimild að uppfylltum tilteknum skilyrðum.
- Björg Thorarensen, Bókaútgáfan Codex. (2019). Stjórnskipunarréttur : Mannréttindi. (2. útgáfa).
- Dómur Hæstaréttar 1994, bls 813.
- Dómur Hæstaréttar í máli 201/2013.
- Lög um mannréttindasáttmála Evrópu 62/1994 (8. grein).
- Lög um meðferð sakamála 88/2008 (74. og 75. grein).
- Lögreglulög 90/1996 (15. grein).
- Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna (12. grein).
- Stjórnarskrá Lýðveldisins Ísland 33/1944 (71. grein)