Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Eru CATERPILLAR hættulegir mönnum? Þessar upplýsingar komu inn á vefinn Íslendingar á Spáni og þar var varað við þeim. Er þetta rétt? Eru þetta eingöngu lirfur? Bíð spennt eftir svari. Með fyrirfram þökk.
Caterpillar kallast á íslensku fiðrildislirfa en fiðrildi eru ættbálkur skordýra sem heitir Lepidoptera á latínu. Í mörgum löndum Suður-Evrópu er árlega varað við fiðrildislirfu af tegundinni Thaumetopoea pityocampa (e. pine processionary), en þar er hún víða áberandi á vorin. Þessi lirfa er hvimleitt meindýr sem herjar á furu- og sedrusviðartré og getur valdið talsverðum skemmdum á laufskrúði þeirra.
Lirfurnar koma oftast úr hýðum sínum í marsmánuði og eru þá nokkuð áberandi. Vetrarhýði þeirra eru staðsett hátt upp í trjám og þegar þær yfirgefa þau marsera þær í einfaldri röð í fæðuleit (sjá mynd að neðan). Af þessu háttalagi lirfanna er enska heiti tegundarinnar dregið, en „process“ merkir að 'ganga í hópgöngu'. Þær gera sér svo hýði í jarðvegi, púpa sig og koma fram sem fullorðin fiðrildi á haustin. Í góðu árferði geta fiðrildin myndað mikla svarma í haustveðrinu.
Þegar lirfur af tegundinni Thaumetopoea pityocampa fara úr vetrarhýðum í fæðuleit marsera þær í einfaldri röð.
Það sem gerir lirfurnar svo hvimleiðar fyrir okkur er að þær eru alsettar hárum sem virka eins og skutlar. Ef þær verða fyrir áreiti þá skjóta þær hárunum út frá sér og það getur verið afar óþægilegt að komast í snertingu við þau. Hárunum fylgir óþægileg erting og jafnvel hastarleg ofnæmisviðbrögð. Ástæðan er sú að á hárunum eru prótín sem nefnast thaumetopoein og þau hafa þessi áhrif. Þetta fyrirbæri er vel þekkt varnarviðbragð meðal nokkurra tegunda og hópa hryggleysingja og plantna, meðal annars tarantúla og fuglaætuköngulóa á Amasón-svæðinu og fiðrilda af ættbálkinum Lepidoptera (til dæmis T. pityocampa sem fjallað er um í þessu svari). Af plöntum sem nota þetta varnarviðbragð er brenninetlan kunnust.
Hundaeigendur eru sérstaklega varaðir við þessum lirfum. Ef hundar reka trýnið í lirfurnar getur það valdið öndunarerfiðleikum og froðumyndun, enda er hætta á því að hárin berist niður í öndunarveg hundanna með tilheyrandi óþægindum.
Víða í fjölmiðlum er farið að vara við þessum lirfum syðst á Spáni um mánaðarmótin febrúar/mars. Vísindamenn á Spáni hafa séð samband á milli hlýrra og þurra vora og fjölda fiðrilda af þessari tegund.
Lirfurnar eru alsettar hárum sem virka eins og skutlar. Ef þær verða fyrir áreiti þá skjóta þær hárunum út frá sér og það getur verið afar óþægilegt að komast í snertingu við þau. Hárunum fylgir óþægileg erting og jafnvel hastarleg ofnæmisviðbrögð.
Fjölmargir afræningjar herja á fiðrildið á ýmsum stigum lífsferils þess. Við Miðjarðarharfið er krybba af tegundinni Ephippiger ephippiger skæður afræningi á egg fiðrildisins. Flotmeisa (Parus major) og dílagaukur (Clamator glandarius) tína upp lirfur og herfuglar (Upupa epops) tína púpur upp úr jarðveginum. Leðurblökur veiða svo fullorðin fiðrildin. Algeng veira sem nefnist á fræðimáli Smithiavirus pityocampae herjar einnig á lirfurnar, en veiran hefur stöku sinnum valdið miklum faraldri hjá þessu fiðrildi.
Heimildir:
Bonnet, Catherine, Jean-Claude Martin og René Mazet (August–October 2008). "La Processionnaire du Pin" (PDF). Stantari No. 14. INRA. bls. 29–33.
May, M., Pastureaud, M. H, Nocak, F., Ducombs, G., Vincendeau, P., Melaville, J. og Texier, L. Thaumetopoein: an urticating protein from the hairs and integument of the pine processionary caterpillar (Thaumetopoea pityocampa Schiff., Lepidoptera, Thaumetopoeidae). Toxicon, 24(4), bls. 347-356. Sótt af https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/3087028.
Jón Már Halldórsson. „Á vef Íslendinga á Spáni er varað við fiðrildislirfu, er ástæða til að óttast?“ Vísindavefurinn, 19. febrúar 2019, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=77157.
Jón Már Halldórsson. (2019, 19. febrúar). Á vef Íslendinga á Spáni er varað við fiðrildislirfu, er ástæða til að óttast? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=77157
Jón Már Halldórsson. „Á vef Íslendinga á Spáni er varað við fiðrildislirfu, er ástæða til að óttast?“ Vísindavefurinn. 19. feb. 2019. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=77157>.