Eru CATERPILLAR hættulegir mönnum? Þessar upplýsingar komu inn á vefinn Íslendingar á Spáni og þar var varað við þeim. Er þetta rétt? Eru þetta eingöngu lirfur? Bíð spennt eftir svari. Með fyrirfram þökk.Caterpillar kallast á íslensku fiðrildislirfa en fiðrildi eru ættbálkur skordýra sem heitir Lepidoptera á latínu. Í mörgum löndum Suður-Evrópu er árlega varað við fiðrildislirfu af tegundinni Thaumetopoea pityocampa (e. pine processionary), en þar er hún víða áberandi á vorin. Þessi lirfa er hvimleitt meindýr sem herjar á furu- og sedrusviðartré og getur valdið talsverðum skemmdum á laufskrúði þeirra. Lirfurnar koma oftast úr hýðum sínum í marsmánuði og eru þá nokkuð áberandi. Vetrarhýði þeirra eru staðsett hátt upp í trjám og þegar þær yfirgefa þau marsera þær í einfaldri röð í fæðuleit (sjá mynd að neðan). Af þessu háttalagi lirfanna er enska heiti tegundarinnar dregið, en „process“ merkir að 'ganga í hópgöngu'. Þær gera sér svo hýði í jarðvegi, púpa sig og koma fram sem fullorðin fiðrildi á haustin. Í góðu árferði geta fiðrildin myndað mikla svarma í haustveðrinu.
Þegar lirfur af tegundinni Thaumetopoea pityocampa fara úr vetrarhýðum í fæðuleit marsera þær í einfaldri röð.
Lirfurnar eru alsettar hárum sem virka eins og skutlar. Ef þær verða fyrir áreiti þá skjóta þær hárunum út frá sér og það getur verið afar óþægilegt að komast í snertingu við þau. Hárunum fylgir óþægileg erting og jafnvel hastarleg ofnæmisviðbrögð.
- Terrence Fitzgerald. "Pine Processionary Caterpillar". Web.cortland.edu. Sótt 17.2.2019.
- Bonnet, Catherine, Jean-Claude Martin og René Mazet (August–October 2008). "La Processionnaire du Pin" (PDF). Stantari No. 14. INRA. bls. 29–33.
- May, M., Pastureaud, M. H, Nocak, F., Ducombs, G., Vincendeau, P., Melaville, J. og Texier, L. Thaumetopoein: an urticating protein from the hairs and integument of the pine processionary caterpillar (Thaumetopoea pityocampa Schiff., Lepidoptera, Thaumetopoeidae). Toxicon, 24(4), bls. 347-356. Sótt af https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pubmed/3087028.
- Wikipedia. Pine processionary. (Skoðað 17.2.2019).
- Flickr. Pine processionary caterpillars. Eigandi myndarinnar er rabiem22. Birt undir CC BY 2.0-leyfi Creative Commons. (sótt 18.2.2019).
- Wikimedia Commons. Pine processionary caterpillar (Thaumetopoea_pityocampa) 01. Eigandi myndarinnar er Daniel Capilla. Birt undir CC BY-SA 4.0-leyfi Creative Commons. (Sótt 18.2.2019).