Er til eyja sem heitir Nýárseyja? Af því að það er til Jóla- og Páskaeyja.Nýárseyja er til og raunar fleiri en ein. Á vefsíðunni Wikipedia eru taldar upp nokkrar Nýárseyjur (e. New Year Island). Ein þeirra er í Bass-sundi, mitt á milli Tasmaníu og Ástralíu, rétt við Konungseyju (e. King Island). Eyjan er aðeins um 1 km2 að flatarmáli og er hún öll skilgreind sem náttúruverndarsvæði. Aðgangur að eyjunni er takmarkaður og þar hefur enginn varanlega búsetu. Á eyjunni verpir mikið af sjófuglum og vaðfuglum en einnig finnast þar ýmsar tegundir af snákum, skinkum og eðlum. Þess má geta í næsta nágrenni við þessa Nýárseyju er Jólaeyja sem einnig er pínulíti; hún er óbyggð en þar er ríkulegt fuglalíf. Norðan við Ástralíu í Arafura-hafi, tæplega 300 km norðaustan við Darwin er önnur Nýárseyja. Sú er einnig óbyggð og smá, aðeins um 2 km að lengd og um 800 m á breidd þar sem mest er. Þriðja Nýárseyjan er Año Nuevo Island (spænska) sem er undan strönd Kaliforníu í Bandaríkjunum. Þessi Nýárseyja er enn minni en hinar tvær, aðeins um 0,036 km2. Þar til á 18. öld var þetta ekki eyja heldur skagi út úr meginlandinu en straumar og veður hafa smám saman rofið þá tengingu og sundið á milli lands og eyjar heldur áfram að stækka. Bæði selir og sæljón kæpa á eyjunni auk þess sem ýmsar tegundir sjófugla verpa þar. Eyjan er verndarsvæði og lokuð almenningi en vísindamenn geta fengið leyfi til að stunda þar rannsóknir. Á eyjunni eru niðurnídd mannvirki frá seinni hluta 19. aldar, en þá var vita komið þar fyrir. Slökkt var á vitanum fyrir miðja síðustu öld og byggingin tekin niður í byrjun 21. aldar þar sem hún var talin valda hættu.
- New Year Island - Wikipedia.
- New Year Island (Tasmania) - Wikipedia.
- Año Nuevo Island - Wikipedia.
- New Year Island(S) - Maritime Logistics Professional.
- Google maps. (Sótt 21. 12. 2018).
- Ano Nuevo.png - WikiName. (Sótt 21. 12. 2018).