Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hugtökin „samfélagsábyrgð“ eða „samfélagsleg ábyrgð“ geta haft margvíslegar og ólíkar merkingar. Í sinni einföldustu mynd vísa þau til þess að manni ber að taka ákvarðanir sem snúast ekki einungis um eigin nærtækustu hagsmuni. Ein birtingarmynd þessa viðhorfs er að maður horfi til framtíðar í ákvarðanatöku og ígrundi hvaða afleiðingar hegðun manns hefur. Til dæmis er hægt að spyrja sig hvað það hefði í för með sér ef allir aðrir hegðuðu sér á sama hátt. Myndi samfélag okkar og umhverfi þola slíka almenna hegðun? Eða er maður kannski að stelast til að óska eftir undantekningu sem gildir einungis um mann sjálfan? Dæmi um slíka samfélagslega óábyrga hegðun væri til dæmis að henda rusli út um bílglugga. Það er bara mannlegt að hugsa að eitt og eitt umbúðabréf eða tóm gosdós skipti ekki öllu máli, en um leið vitum við að það gengur ekki ef allir hegðuðu sér á þann hátt.
Bæði „samfélag“ og „ábyrgð“ eiga sér langa sögu heimspekilegrar greiningar og mætti hafa langt mál um hvaða skilning við ættum að leggja í hugtökin þegar þau eru sett saman. Til hvaða samfélags erum við að vísa til? Er það einungis nærsamfélagið sem við eigum við, eða þjóðfélagið í heild sinni? Afmarkast samfélög af skiptingu í hverfi og sveitarfélög, eða gilda jafnvel landamæri ekki þegar við ræðum um samfélag okkar? Erum við öll heimsborgarar? Þau orð eru reyndar eignuð Margaret Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra Breta, að það sé ekki til neitt sem við getum kallað samfélag, einungis einstaklingar. Og ábyrgð er ekki síður hugtak sem getur reynst flókið að átta sig á. Stundum notum við ábyrgð til að lýsa því þegar einhver skal leysa tiltekið verkefni af hendi. Hann ber þar af leiðandi ákveðna ábyrgð. Og stundum notum við ábyrgð til að vísa til þess sem hefur þegar átt sér stað. Þá þarf einhver að svara fyrir athöfn eða athafnaleysi með því að axla ábyrgð.
Ein plastflaska skiptir ekki öllu máli en ef allir losa sig við plast út í umhverfið horfir málið öðru vísi við.
Líklega er mögulegt að nota samfélagsábyrgð til að lýsa því þegar samfélag telur sig sjálft vera ábyrgt fyrir aðstæðum eða atburðum. Eða þá að fingrinum er beint að tilteknu samfélagi í ásökunartón. Það er sjaldgæft að samfélagið sjálft sé allt gerandi en þó kunna einhverjir að færa rök fyrir því að einhvers konar sameiginleg ábyrgð (e. collective responsibility) sé til staðar. Hvort slík ábyrgð geti raunverulega verið til staðar er ákaflega umdeilt. Einnig er sjaldgæft að slíkri ábyrgð sé lýst sem samfélagslegri, þótt dæmi um það finnist og þá helst í orðasamböndum eins og „sameiginleg ábyrgð samfélagsins alls“.
Í samtímanum er þó fyrst og fremst rætt um samfélagslega ábyrgð í tengslum við rekstur fyrirtækja (e. Corporate Social Responsibility eða CSR). Sú umræða á sér rætur í þrýstingi á fyrirtæki að hafa fleiri rekstrarlegar forsendur í huga heldur en einungis hagnað eða tap hluthafa. Vissulega þurfa þessi atriði ekki að útiloka hvort annað. Hagsmunir hluthafa og samfélags geta farið saman, en þegar rætt er um samfélagsábyrgð fyrirtækja er verið að tjá þá hugsun að áhersla í rekstrinum eigi að færast í auknum mæli á atriði sem virðast kannski ekki augljóslega vera hluti nærtækustu hagsmuna hvers fyrirtækis fyrir sig. Fyrirtæki taka til dæmis á sig aukinn kostnað vegna förgunar úrgangs eða eyða meiri tíma í að finna fjölbreyttari hóp starfsfólks og stjórnenda. Fleira mætti nefna um það sem er bæði tímafrekt og kostnaðarsamt en sem þykir bera vott um ábyrgan rekstur.
Fjölmargar stórar spurningar hafa vaknað við aukna áherslu á samfélagslega ábyrgð fyrirtækja eftir því sem hún hefur eflst á undanförnum áratugum. Flestar þeirra snúa að því hvað nákvæmlega fyrirtækjum beri að gera samkvæmt slíkri hugmyndafræði og í hverju ábyrgðin felist. Í grófum dráttum má skipta mögulegum aðgerðum fyrirtækja í tvo flokka. Í þeim fyrri væru aðgerðir sem miða að því að valda ekki skaða með starfsemi sinni. Fyrirtæki viðurkenna þá ábyrgð sína að þurfa mögulega að svara fyrir það ef skaði hlýst af rekstri eða framleiðslu. Í seinni flokkinn má finna aðgerðir þar sem fyrirtæki leitast við að bæta samfélag sitt. Hvað þennan seinni flokk varðar vakna augljóslega fjölmargar spurningar sem aftur tengjast því hversu vítt við skilgreinum samfélag okkar. Á það einungis við samborgara okkar? Inniheldur samfélagið einnig stofnanir og menningu? Má kannski útvíkka hugtakið þannig að náttúrulegt umhverfi okkar komi þar einnig við sögu? Er hverju fyrirtæki í sjálfsvald sett hvernig það skilgreinir samfélag sitt?
Til þess að svara ofangreindum spurningum (og mörgum fleiri) hefur verið farin sú leið að setja saman leiðbeinandi ramma um mikilvægustu innviði samfélagsábyrgðar. Á íslensku hefur skammstöfunin UFS (e. EGS) náð fótfestu yfir þessa innviði, en hún stendur fyrir umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti fyrirtækja. Má finna mikla bálka vangaveltna, leiðbeininga og kvarða um það hvernig best er að standa að samþættingu þessara þátta og hvernig fyrirtæki geta gert upp árangur sinn varðandi þá. Í slíkum uppgjörum er einnig hægt að sjá hvers langt fyrirtæki eru komin frá því að uppfylla samfélagslegar skyldur sínar einungis með góðgerðarstarfi í nærsamfélaginu. Vissulega er slíkt starf enn hluti af samfélagsábyrgð samtímans en sú ábyrgð sem fyrirtæki eru nú að taka á sig er mun margbrotnari og fjölþættari en einungis sú að gefa fé eða búnað og kosta viðburði.
Áhugaverðasta spurningin varðandi samfélagsábyrgð er líklega ekki síst hvers vegna fyrirtæki ættu að leggja áherslu á hana. Í hverju ætti réttlæting, til dæmis gagnvart hluthöfum, að felast fyrst og fremst? Hér vandast mál nokkuð. Þegar orðræða þeirra sem mæla fyrir aukinni samfélagsábyrgð fyrirtækja er skoðuð má þar finna töluvert ríka áherslu á að hagnaður muni verða sá sami og líklega meiri til lengri tíma litið.
Samfélagsábyrgð virðist því vera kynnt á markaðslegum forsendum. Slíkur málflutningur kann þó að falla illa að ábyrgðarhugtakinu og þess siðferðilega inntaks sem því fylgir. Að bera ábyrgð á einhverju felur í sér siðferðilega skuldbindingu sem hvorki veikist né eykst við þann fjárhagslega ávinning sem í vændum er. Það sama gildir þegar maður þarf að axla ábyrgð.
Einn þráður í gagnrýni á samfélagsábyrgð fyrirtækja er að þau telji sér til tekna það sem er í raun afleiðing lagasetningar hins opinbera. Þannig séu það opinberir aðilar sem leggi í raun línurnar varðandi hluti eins og umhverfismál og þess vegna full mikil einföldun að láta eins og fyrirtæki séu að axla tiltekna ábyrgð.
Eftir því sem umræða um samfélagsábyrgð fyrirtækja hefur eflst víða um heim hefur eðlilega komið fram gagnrýni á hana úr mörgum áttum. Ef frá er talin sú gagnrýni sem lífseigust er, það er að segja sú sem enn vill einungis halda uppi merkjum hluthafa og hagnaðar, má greina tvo þræði sem saman spinna öflugustu gagnrýnina.
Fyrri þráðurinn inniheldur ýmiss konar gagnrýni sem byggir á efasemdum um þá áherslu forgöngufólks um samfélagsábyrgð að hún þurfi að vera sjálfsprottin og koma eingöngu frá fyrirtækjunum sjálfum. Slíkir gagnrýnendur er ósáttir við hvernig fyrirtæki nota þessa orðræðu til að bæta ímynd sína þegar stór hluti þess sem þau telja sér til tekna er í raun ekkert annað en afleiðingar lagasetningar hins opinbera. Þannig séu það opinberir aðilar sem leggi í raun línurnar varðandi hluti eins og umhverfismál og þess vegna full mikil einföldun að láta eins og fyrirtæki séu að axla tiltekna ábyrgð. Þeim beri einfaldlega að fylgja meginmarkmiðum nýrrar lagasetningar.
Angi af þessari gagnrýni er sá að ofuráhersla á samfélagsábyrgð geti reynst einhvers konar moðreykur til þess að villa á sér heimildir. Þannig geti fyrirtæki sem í grunninn vinni gegn samfélagslegri uppbyggingu, til dæmis með því að leita allra leiða til að greiða sem minnsta skatta, látið eins og þau beri hag samfélagsins í brjósti með tiltölulega litlum tilkostnaði. Sérstaklega þurfi að vera á verði þegar stærstu fyrirtæki heims, og eigendur þeirra, láti eins og samfélagsábyrgð sé þeim ofarlega í huga. Þeirra markmið er oft og tíðum að losna undan því að bera nokkra ábyrgð á rekstri sínum og góð leið til þess er að láta eins og ábyrgð sé þeim ofarlega í huga og kalla eftir því að eftirlit með þeim atriðum sem ábyrgðin vísar til færist frá opinberum aðilum og til einkaaðila – eða jafnvel þeirra sjálfra.
Seinni þráður gagnrýni í samtímanum á samfélagsábyrgð beinist gegn lykilþætti orðræðu um samfélagsábyrgð. Þetta er sú hugmynd um að þessi tegund ábyrgðar sinni svokölluðum haghöfum (e. stakeholders) rekstursins fremur en hluthöfum, og að haghafar séu nokkurs konar siðferðilegt andlag rekstursins. Tilvist haghafa á að vera til marks um það hversu víðtæk áhrif rekstursins séu og að viðurkenning á því dragi fram siðferðilega skuldbindingu fyrirtækisins. En gagnrýnendur efast um að slíkt hugtak geri í raun mikið til að styrkja grundvöll þess að fyrirtæki beri samfélagslega ábyrgð. Þetta sé í raun frekar dæmi um það hvað umræða um samfélagsábyrgð sé óskýr og frasakennd. Það sé engin leið til að átta sig á hverjir tilheyri í raun hópi haghafa þegar kemur að ákvarðanatöku, það sé oft óljóst hvort hluthafar séu andstæður hagahafa eða einfaldlega tiltekinn hluti þeirra, og að það sé býsna erfitt að gera sér grein fyrir því hvernig eigi að vega og meta mismunandi hagsmuni ólíkra haghafa.
Hvort þessar gagnrýnisraddir hitti naglann á höfuðið eða séu bara dæmi um meinlaust tuð þeirra sem eiga erfitt með að fylgja nýjum tíðaranda mun tíminn leiða í ljós. Þetta svar fyrir Vísindavefinn hefur svo sem aðeins snert á örfáum atriðum varðandi samfélagsábyrgð fyrirtækja í samtímaumræðu. Fjölmargt annað hefði þurft að bera á góma en vegna plássleysis gat ekki orðið af því. Þó verður að geta þess að hér hefur ekki gefist tækifæri til að ræða hugtök sem oft eru óaðskiljanleg umræðu um samfélagsábyrgð. Má þar til dæmis nefna hugtakið „sjálfbærni“. Ýmislegt bendir til þess að slíkt afmarkað og betur skilgreint hugtak sé vel til þess fallið að skerpa umræðu um margt það sem samfélagsábyrgð hefur stundum ein verið látin standa fyrir undanfarin ár. Og þá má að lokum nefna að margir kjósa að nota aðeins hluta hugtaksins og vísa þá í „ábyrgar fjárfestingar“, og slík fyrirbæri sem auðveldara er að skilgreina. Hver veit nema frjálslegt tal um samfélagslega ábyrgð í rekstri fyrirtækja hafi verið nauðsynlegt tungutak til að koma tilteknum hugsunarhætti á dagskrá, eins og sagt er, en að í framtíðinni verði orðalagið nákvæmara og afmarkað við ólíkar aðstæður.
Myndir:
Henry Alexander Henrysson. „Hvað er samfélagsábyrgð?“ Vísindavefurinn, 10. mars 2021, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=76745.
Henry Alexander Henrysson. (2021, 10. mars). Hvað er samfélagsábyrgð? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=76745
Henry Alexander Henrysson. „Hvað er samfélagsábyrgð?“ Vísindavefurinn. 10. mar. 2021. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=76745>.