Á hverju hausti falla jurtir og visna. Á þurrlendi rotna plöntuleifarnar og blandast smám saman jarðveginum, en í mýrum, en þar fellur grunnvatnsflöturinn saman við yfirborðið, og í stöðuvötnum rotna þær ekki að neinu ráði að óbreyttum ytri aðstæðum svo að jurtaleifarnar safnast fyrir og mynda mólög. Loftfælnir gerlar og sveppir vinna síðan að umbreytingu plöntuleifanna í mó. Þeir taka til sín súrefni úr plöntuleifum og auka þannig smám saman kolefnisinnihalds mósins. Besti mórinn er því ávallt í neðstu lögum mýra enda elstur og mest umbreyttur.Í svari Sigurðar Steinþórssonar við spurningunni Hvað eru steinkol og til hvers eru þau notuð? kemur fram að mór er fyrsta stig steinkolamyndunar, með um 60% kolefni. Þegar mórinn grefst undir fargi jarðlaga verða margvísleg efnahvörf þar sem mikill hluti vatns, súrefnis, köfnunarefnis og annarra efna hverfa brott. Hinn upprunalegi mór ummyndast í æ kolefnisríkara efni, brúnkol, steinkol og loks antrasít, sem nefna mætti reyklaus steinkol.
- Peat Lewis.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 5. 10. 2018).